Aðalfundur AFLs skorar á stjórn Eflingar að axla forystuhlutverk sitt og koma á sátt á skrifstofu félagsins
Fjöldauppsagnir starfsmanna Eflingar Stéttarfélags í Reykjavík ganga þvert gegn grundvallarsjónarmiðum verkalýðshreyfingarinnar. Verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir því í áratugi eða allt frá upphafi að launafólk gjaldi ekki skoðana sinna eða málflutnings með atvinnumissi og við gerum skýra kröfu til almennra launagreiðenda að þeir mismuni starfsmönnum ekki eða hafi afskipti af þeim vegna stjórnmálaskoðana eða aðildar að stéttarfélögum.
Verkalýðshreyfingin hefur og gert kröfu um að hópuppsagnir séu örþrifaráð fyrirtækja í vanda – örþrifaráð sem ekki sé gripið til fyrr en önnur úrræði séu fullreynd og þá í samráði við Vinnumálastofnun og viðkomandi verkalýðsfélög. Ljóst er að fréttum að ekkert slíkt samráð var haft og engin tilraun gerð til að ná sátt á vinnustaðnum áður en gripið var til þess að segja upp öllu starfsfólki.
Efling er eitt stærsta verkalýðsfélag landins og hefur í áratugi verið í forystu í kjarabaráttu verkafólks. Þúsundir félagsmanna leita til félagsins í hverjum mánuði með margvísleg vandamál en með þeirri miklu starfsmannaveltu sem verið hefur hjá félaginu liðin ár – hefur gríðarleg sérfræðiþekking glatast og finna önnur verkalýðsfélög fyrir því - þar sem félagsmenn Eflingar leita orðið til annarra félaga eftir ráðgjöf og aðstoð.
Aðalfundur AFLs Starfsgreinafélags hvetur stjórn Eflingar til að draga uppsagnir starfsmanna til baka og axla forystuhlutverk sitt með því að koma á sátt á vinnustaðnum – félaginu og hreyfingunni allri til farsældar.
Ofangreind ályktun var samþykkt á aðalfundi AFLs Starfsgreinafélags 23. apríl 2022.