AFL starfsgreinafélag

AFL í góðum málum - Gallup könnun

sátt við félagið

Aðeins um 3,6% félagsmanna eru ósátt við AFL Starfsgreinafélag og er það besta niðurstaða félagsins frá því að fyrst var farið að mæla viðhorf félagsmanna til þess.  Þá eru félagsmenn tilbúnari nú en áður til þess að taka þátt í starfi félagsins.  Yfir 60% aðspurðra eru jákvæðir fyrir því að taka þátt í starfinu en voru 44% 2014.

92% félagsmanna telja að verkalýðshreyfingin eigi að taka skýra afstöðu og jafnvel forystu í samfélagsmálum - og er það hækkun frá um 83% 2013.  Félagsmenn AFLs telja verkalýðshreyfinguna helst eiga að beita sér í skattamálum, heilbrigðismálum, vaxtamálum og húsnæðismálum.

Um 10% félagsmanna finnst félagið ekki hafa staðið sig vel í baráttunni en 65% telja félagið standa sig vel.

 

Nánar verður fjallað um viðhorfskönnun AFLs og Einingar Iðju á næstu dögum - en úrtak AFLs var alls 1.477 félagsmenn og svarhlutfall var 45%.

Eining Iðja hefur hafið birtingu á niðurstöðum sínum og eru þær ekki ósvipaðar og niðurstöður AFLs

 

Námsver ehf og Austurbrú óska eftir að ráða starfsmann

Reydarfjordur  Námsver ehf og Austurbrú óska eftir að ráða starfsmann til þrifa og umsjónar að Búðareyri 1, Reyðarfirði. 

Starfið felur í sér:

  • Umsjón með húseign og búnaði.
  • Dagleg þrif.
  • Bókanir á sölum í námsverinu.
  • Umsjón með kaffiveitingum.
  • Umsjón með minni háttar viðhaldsverkefnum,  Um er að ræða fullt starf og mikilvægt að starfsmaður geti hafð störf sem fyrst á nýju ári.
  • Ekki eru gerðar sérstakar kröfur til menntunar – en áhersla lögð á gott viðmót og góð samskipti.
  • Auk þess þátttaka í tilfallandi verkefnum vegna þeirrar starfsemi sem er í námsverinu hverju sinni.

Upplýsingar veita Sverrir hjá Námsver (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.) og Jóna hjá Austurbrú (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.)

Góður sigur í Félagsdómi!

VLFA logo   Verkalýðsfélag Akraness stefndi Sambandi íslenskra sveitafélaga fyrir félagsdóm og vann málið.
Málið varðaði kjarasamning sem gerður var 2016, en í honum  var samþykkt að verða við ósk Sambands íslenskra sveitafélaga að láta kjarasamninginn gilda ekki til 1. Janúar 2019 heldur til 31. mars 2019 eða nánar tilgetið að lengja samninginn um þrjá mánuði.

Til að bæta starfsmönnum upp það tekjutap sem hlaust við þessa þriggja mánaða lengingu á samningum var starfsmönnum boðin 42.500 króna eingreiðsla fyrir 100% starf sem átti að koma til útborgunar 1. febrúar 2019, en orðrétt hljóðaði ákvæðið svona:

„Grein 1.2. hljóði svo: Sérstök eingreiðsla, kr. 42.500, greiðist þann 1. febrúar 2019 hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem er við störf í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfsíma og starfshlutfall í desember“

Á heimasíðu VLFA segir að það ótrúlega gerist síðan að þegar eingreiðslan er greidd út þá greiða Akraneskaupstaður og Hvalfjarðasveit hana ekki út til svokallaðs tímakaupsfólks og þegar VLFA kallar eftir skýringum frá þessum aðilum hverju það sætti að greiðsla hafi ekki borist til tímakaupsfólk.

Svarið sem félagið fékk var að þetta væru tilmæli frá Sambandi íslenskra sveitafélaga að tímakaupsfólk ætti ekki þennan rétt, sem var vægast sagt undarleg niðurstaða.

Félagið hafði samband við Samband íslenskra sveitafélaga og kallaði eftir útskýringum á þessum tilmælum til sveitafélaga og eftir nokkra fundi þar sem sambandið óskaði eftir að fá að skoða þessa ákvörðun sína betur var niðurstaðan að hún skildi standa óhögguð. Rök þeirra voru m.a. þau að Reykjavíkurborg og Ríkið hafi ekki greitt þessa eingreiðslu til tímakaupsfólks.

Nú er hins vegar dómur fallinn í Félagsdómi þar sem tekið var undir allar kröfur Verkalýðsfélags Akraness en í dómsorði Félagsdóms segir orðrétt:

"Viðurkennt er að félagsmenn stefnanda Verkalýðsfélags Akraness, sem voru við störf hjá stefndu, Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit, í desember 2018 og voru enn í starfi í janúar 2019 og unnu starf sem fellur undir kafla 1.4. í kjarasamningi réttargæslustefnda, Samband íslenskra sveitafélaga, og stefnanda sem upphafslega átti að gilda frá 1. maí 2011 til 30. Júní 2014, eigi rétt á eingreiðslu samkvæmt grein 1.2 í kjarasamningum, eins og henni var breytt með 5. kafla samkomulagsins sömu aðila um breytingu og framlengingu kjarasamningsins, sem gilti frá 1. janúar 2016 til 31. mars 2019. Stefndu Akraneskaupstaður og Hvalfjarðasveit, greiði Verkalýðsfélagi Akraness, 500.000 krónur í málskostnað."

Dómur þessi er fordæmisgefandi á landsvísu og getur því haft áhrif á félagsmenn AFLs Starfsgreinafélags.  Félagið hefur þegar sent bréf á öll sveitarfélögin á svæðinu vegna málsins.

Málefni tímavinnufólks hefur verið áberandi í samningaviðræðum og má búast við að samningnum fylgi bókun um stöðu þess.  Benda má á í þessu sambandi í núgildandi kjarasamningi aðila eru ákvæði um að ef vinnutími starfsmanna sveitarfélaga er umfram sem nemur 20% starfshlutfalli - skal ráða þá á föst laun með viðeigandi starfshlutfalli.

Nauðungarvinna og þrælahald aldrei liðið á íslenskum vinnumarkaði

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í dag dóm í máli sem þrotabú fyrirtækisins Menn í vinnu höfðaði vegna ummæla starfsmanns í Vinnustaðaeftirliti ASÍ, í fréttum Stöðvar 2 snemma á þessu ári.

Eins og alkunna er þurfti ASÍ ítrekað að hafa afskipti af fyrirtækinu Menn í vinnu áður en það varð gjaldþrota. Það var vegna slæms aðbúnaðar starfsfólks og brota á kjörum þess. Frá því fyrirtækið hóf störf hafði Vinnumálastofnun það einnig til rannsóknar og var í samstarfi við bæði Vinnueftirlit ríkisins og Ríkisskattstjóra.

Í frétt Stöðvar 2 þann 7.febrúar 2019 var opinberaður grunur um að erlendir starfsmenn fyrirtækisins Menn í vinnu hafi verið í nauðungarvinnu hjá  fyrirtækinu. Þeir séu bæði svangir, peningalausir og hræddir auk þess að búa við óásættanlegar og heilsuspillandi aðstæður á vegum fyrirtækisins. Samkvæmt dómi Héraðsdóms var stafsmanni ASÍ heimilt í þessu viðtali að vísa til þessara aðstæðna og felst í því fullnaðar viðurkenning á réttmæti þeirra ummæla. Hins vegar voru dæmd dauð og ómerk ummæli starfsmannsins um innlagnir á og úttektir af bankareikningum starfsmanna og að framkvæmdastjóri fyrirtækisins virtist hafa aðgang að bankareikningum stafsmanna sinna. Þótti dómara skorta gögn til að styðja við þessar fullyrðingar þrátt fyrir að starfsmenn hafi í frétt Stöðvar 2 sýnt viðstöddum gögn þessu til stuðnings. Heildarniðurstaða dómsins er því umdeilanleg þó ekki sé meira sagt.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun hvort dómnum verði áfrýjað.

Starfsfólk ASÍ mun hér eftir sem hingað til standa með félagsmönnum sínum og enduróma veruleika þeirra á vinnumarkaði. Til stendur að efla vinnustaðaeftirlit verkalýðshreyfingarinnar enn frekar á næstu mánuðum.

 „Félagar í ASÍ mega vera afskaplega stoltir af eftirlitsfólki hreyfingarinnar sem sinna erfiðum störfum í baráttunni fyrir betri vinnumarkaði. Starfsmenn í vinnustaðaeftirliti ASÍ hafa unnið þrekvirki við að gæta hagsmuna vinnandi fólks og nýtur órofa stuðnings og fulls trausts í sínum störfum. Alþýðusambandið leitar stöðugt leiða til að efla eftirlit enda er full ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af fólki af erlendum uppruna sem kemur í gegnum starfsmannaleigur á íslenskan vinnumarkað, nauðungavinna og þrælahald verður aldrei liðið á íslenskum vinnumarkaði“ segir Drífa Snædal forseti ASÍ.

Aðalfundur sjómannadeildr AFLs

Aðalfundur sjómannadeildr AFLs Starfsgreinafélags verður haldinn föstudaginn 27. desember 2019 kl. 14:00 í húsnæði félagsins að Búðareyri 1

Dagskrá
1.     Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár
2.     Kjaramál
3.     Kosning stjórnar
4.     Önnur mál

Ferðir verða samræmdar á næstu skrifstofu félagsins.
AFL Starfsgreinafélag
Sjómannadeild

                                                                                               

 

Svona gerir maður ekki!

Inkedað leggja bíl II

Ein algengasta kvörtun sem umsjónarmönnum íbúðanna í Stakkholti berast er vegna kæruleysi og tillitsleysi annarra leigjenda sem ýmist leggja í vitlaus stæði eða leggja eins og þegar Palli var einn í heiminum.  Á myndinni má sjá hvernig bíl er lagt inn á nágrannastæðið og þar sem fólkið þeim megin hafði ekki tök á að færa vegginn - varð það nánast að skríða út um skottið.

Það er algengt að Austfirðingar aki suður eftir vinnu og koma því í Stakkholt um og jafnvel talsvert eftir miðnætti og þegar fólk finnur svo bíl í stæðinu sínu eftir 9 tíma akstur  - getur það verið verulega leiðinlegt.  Þeir starfsmenn sem sinna neyðarþjónustu vegna hússins eru ekkert sérstaklega hrifnir af því að vera vaktir upp að næturlagi vegna bílastæðismála og því er ljóst að beita þarf einhverjum viðurlögum til að fá fólk til að virða sjálfsagða mannasiði í bílskýlinu.

Brosum í umferðinni og alla leið inn í stæði og leggjum eins vel og unnt er og sýnum nágrönnum okkar tillitssemi.

AFL sendir blaðamönnum baráttukveðju! Verkfalli aflýst!

Tökumenn, ljósmyndarar og blaðamenn á vefmiðlum leggja niður störf í dag eins og tvo síðustu föstudaga og skv. fréttum verður ekki boðað til fundar í kjaradeilu blaðamanna fyrr en eftir helgi.  AFL Starfsgreinafélag sendir blaðamönnum og Blaðamannafélagi Íslands baráttukveðjur í þessari kjarabaráttu og fordæmir hvers kyns verkfallsbrot sem beina atlögu gegn kjörum og afkomu launafólks.

Það er æ ljósara hversu þýðingamiklu hlutverki faglegir blaðamenn gegna í nútíma samfélagi - þar sem falsfréttir og grímulaus áróður hefur heltekið samfélagsmiðla og þannig skekkt verulega þá heimsmynd sem blasir við almenningi.  Heiðarleg og málefnaleg umræða um mál samtímans eru undirstaða lýðræðis og frelsis einstaklinganna í samfélaginu.  Þar gegna blaðamenn lykilhlutverki.