AFL starfsgreinafélag

Réttarstaða trúnaðarmanns við hópuppsögn

Viðurkennt er að uppsögn stefnda Eflingar á trúnaðarmanni VR A , hjá Eflingu stéttarfélagi þann 13. apríl 2022, var ólögmæt og braut gegn 11. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. Viðurkennt er að stefndi braut gegn ákvæðum nr. 13.2 og 13.4 í kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins frá 1. apríl 2019 með því að meina A trúnaðarmanni VR aðgang að starfsstöð félagsins, starfsaðstöðu trúnaðarmanns og þeim félagsmönnum VR á skrifstofu stefnda hverra hagsmuna honum bar að gæta. Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað. sjá dóminn

Slys við steypusprautun - Kárahnjúkavirkjun

Dómur - Yushan Shao - Stefnandi var við vinnu í jarðgöngum við Kárahnjúkavirkjun um klukkan 2 aðfaranótt 10. desember 2006, þegar hann varð fyrir alvarlegu slysi. Steypa sem samkvæmt lögregluskýrslu vó 80-100 kg, hrundi úr lofti gangnanna og lenti á baki stefnanda. Fallhæð steypunnar var um það bil 7,2 metrar. Stefnandi féll á brautarteina á gangnagólfinu og lenti með andlitið ofan í vatni, en eftir göngunum rann straumvatn. Samstarfsmenn stefnanda drógu hann upp úr vatninu og báru hann á nærliggjandi járnbrautarvagn. Hann var fluttur út úr göngunum og með sjúkrabifreið á Egilsstaði og þaðan með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Stefnandi skaddaðist alvarlega á mænu í slysinu og lamaðist frá brjósti. sjá dóminn í heild 

Kauptrygging félagsdómur

Kveðinn var upp dómur í Félagsdómi varðandi hækkun kauptryggingar háseta um 17.000 kr. vegna lífskjarasamningsins. Eins og sjá má tapaði SSÍ málinu. Það merkilega er að tveir dómarar skiluðu sératkvæði og vildu dæma SSÍ í vil.  Því miður kemst SFS upp með að virða ekki það sem samið var um þann 18. febrúar 2017. Sjá dóminn hér

AFL og RSÍ tapa í félagsdómi.

AFL Starfsgreinafélag og Rafiðnaðarsamband Íslans töpuðu í Félagsdómi, sem háð var vegna starfsmanna álvers ALCOA Fjarðaáls í Reyðarfirði.  Málið snerist um orlofsrétt vaktavinnustarfsmanna í álverinu en forsendur útreiknings á orlofi breyttust í vinnutímastyttingar sem gekk í gildi 2016.  ALCOA Fjarðaál hélt áfram að reikna orlof miðað við fyrri forsendur allt fram til 2020 en bar þá fyrir sig að um mistök hefði verið að ræða.

Orlof hafði fram til þess tíma verið þannig að úttekt orlofsstunda var 8 klst. fyrir hverja 8 klst. vakt.  Vaktavinnustarfsmaður með langan starfsaldur sem vann á 8 tíma vöktum átti t.d. 240 orlofsstundir sem hann gat nýtt til að taka 30 orlofsvaktir á launum. Þær vaktir gátu samkvæmt gildandi vaktakerfi dreifst á allt að 7 vikur í kjölfar vinnutímastyttingar vaktavinnustarfsmanna, væri orlof tekið samfellt. Byggðu stéttarfélögin m.a. á að sú framkvæmd væri í samræmi við orðanna hljóðan í kjarasamningi og þá venju sem hefði skapast, auk þess að benda á tilurð vinnutímastyttingarinnar og önnur atriði.

Mat félagsdóms var að orlofsdagar gætu flestir orðið 30, eða 6 vikur, miðað við starfsfólk skilaði vinnuframlagi sína virka daga vikunnar. Ákvarða þyrfti hversu margar orlofsvaktir viðkomandi starfsmaður ætti í orlof miðað við það vaktafyrirkomulag sem unnið væri eftir og þann dagafjölda sem viðkomandi ætti í orlofsrétt, þannig að heildar orlofsréttur vaktavinnustarfsfólks og dagvinnustarfsfólks yrði sá sami í vikum talið.

Félagsdómur taldi að ekki væri komin á „venja“ sem breytt gæti þessu og talið var að nýr orlofsútreikningur Alcoa rúmaðist innan kjarasamnings aðila og orlofslaga. Sá útreikningur fólk m.a. í sér að vaktavinnustarfsmaður sem ætti t.d. 30 daga orlofsrétt skyldi fá 26,65 orlofsvaktir. Sjá dóminn í heild