AFL starfsgreinafélag

Milljónir í leiðréttingar!

fljotsdalsherad1 

Um þessi mánaðarmót greiddi Fljótsdalshérað launaleiðréttingar til fjölda félagsmanna AFLs og nam hæsta leiðréttingin vel á aðra milljón króna.  Um árabil hefur Fljótsdalshérað greitt tímavinnufólki vaktaálög en það er óheimilt.  Skv. kjarasamningum á að greiða fólki sem kallað er í tilfallandi vinnu dagvinnu og yfirvinnu en ekki er heimilt að greiða vaktaálög nema viðkomandi sé með fast starfshlutfall.

Nokkrir félagsmenn AFLs leituðu til félagsins fyrir tæpu ári síðan og hefur félagið síðan verið í viðræðum við sveitarfélagið og safnað gögnum vegna félagsmanna.

Um leið og sveitarfélagið leiðrétti laun félagsmanna AFLs voru og leiðrétt laun félagsmanna annarra stéttarfélaga sem starfa hjá sveitarfélaginu.  Alls náði leiðréttingin til tæplega þrjátíu starfsmanna og var allt frá  nokkur þúsund krónum til um 1,5 milljón króna til einstaks starfsmanns.  AFL hefur unnið þetta mál án aðkomu annarra félaga og undirstrikar mikilvægi þess að launafólk velji sjálft sitt stéttarfélag án afskipta launafulltrúa þar sem fleiri en eitt félag á kjarasamning um viðkomandi starf.  

Stjórn AFLs lýsir stuðningi við framboð

Salb á Kárahnjúkum

Stjórn AFLs Starfsgreinafélags samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að styðja framboð framkvæmdastjóra félagsins, Sverrir Mar, til forseta Alþýðusambandsins á þingi ASÍ í haust. Talsverðar umræður voru á stjórnarfundinum og var m.a. til umræðu hvernig félagið myndi bregðast við millibilsástandi sem yrði ef til þess kæmi að Sverrir Mar yrði kjörinn en ekki gengið frá því hver tæki við hans störfum hjá félaginu.

Þá lýstu nokkrir stjórnarmenn yfir áhyggjum af „orðsporsáhættu“ félagsins í ljósi þess að aðilar á samfélagsmiðlum geta verið  grimmir og beinskeyttir í garð einstaklinga sem stíga fram fyrir verkalýðshreyfinguna.

Niðurstaða fundarins var að nú þegar ljóst er að sitjandi forseti hyggst ekki gefa kost á sér – mun AFL Starfsgreinafélag stíga fram og bjóðast til að axla ábyrgðina.  

 

 

Myndin er tekin á framkvæmdatíma Kárahnjúka við vinnustaðaeftirlit þar.

Næsti forseti komi úr félagsstarfinu

 

- Segir Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs í viðtali við Austurgluggann.

Sverrir Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinafélags, hefur gefið kost á sér í embætti forseta Alþýðusambands Íslands, á þingi þess sem fram fer í október. Viðtalið við Austurgluggann fer hér á eftir.

 

AGL bls 11Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs, hefur ákeðið að gefa kost á sér í embætti forseta ASÍ á þingi þess í október. Núverandi forseti sambandsins, Gylfi Arnbjörnsson, tilkynnti á dögunum að hann gæfi ekki kost á sér til endurkjörs. Hann var fyrst kjörinn haustið 2008 og hefur verið endurkjörinn fjórum sinnum. 

„Ég held að við stöndum á krossgötum núna. Það hafa verið harðar deilur innan verkalýðshreyfingarinnar og jafnvel hætta á því að Alþýðusamband Íslands skaðist varanlega af þeim. Gylfi ákvað að stíga til hliðar til að freista þess að skapa einhverja sátt um Alþýðusambandið og ég held að næstu ár verði mikilvægt að halda opnu samtali milli allra hópa innan vébanda ASÍ og freista þess að skapa frið. 

Ég held að ég geti unnið með öllum hópum innan ASÍ, minn málflutningur síðustu ár og áherslur AFLs hafa verið nálægt áherslum þeirra nýju formanna sem hafa verið að koma til starfa. AFL hefur alltaf verið í róttækari kantinum innan sambandsins en við höfum líka lagt áherslu á að ná sátt um markmið og vinna að þeim af heilindum – líka þegar við verðum undir í aðdragandanum,“ segir Sverrir.

Stundum átt erfitt með að sætta mig við hægaganginn

Sverrir hefur verið framkvæmdastjóri AFLs frá 2005 og kom þangað eftir að hafa séð auglýsingu frá félaginu í vinnuskúr í Kárahnjúkavinnubúðunum en þar vann hann sem bílstjóri. „Ég var á norsku frystiskipi og fiskaði mest í Barentshafinu en einnig ufsa við Shetlandið og löngu og keilu við Færeyjar. Á sumrin fór ég svo gjarna á hákarlaveiðar í Norðursjónum og það var skemmtilegur veiðiskapur. Árið 2005 tók ég mér nokkurra mánaða frí frá sjónum og réð mig á Kárahnjúka til þriggja mánaða en einhverra hluta vegna er ég enn á Austurlandi.“

Sverrir segir Austfirðinga hafa frá upphafi tekið sér vel í nýju starfi. „Vissulega þurfti ég að læra ótal margt upp á nýtt og tileinka mér fagleg vinnubrögð verkalýðshreyfingarinnar. Stundum hef ég átt erfitt með að sætta mig við hægaganginn í mörgum málum. Við vorum vanir að leysa málin hratt og örugglega til sjós og þá var ekkert hægt að kalla á aðstoð eða hringja á vælubílinn.“

„Ég tel mikilvægt að efla sjálfstæði félaganna“

Sverrir var í lykilhlutverki fyrir félagið sitt, AFL Starfsgreinafélag Austurlands, þegar þrjú félög á Austurlandi sameinuðust 2007, þ.e. gamla AFL, Vökull Stéttarfélag á suðursvæðinu og svo Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar. 

„Það voru átök í sameiningarvinnunni og ég lærði mikið af því ferli. Ég held að þetta hafi verið farsælt skref fyrir Austfirðinga og ég vona að allir séu sáttir núna. Ég hef átt frábært samstarf við þá aðila sem komu þá til forystu í nýju félagi og mér finnst vera mjög góður andi innan félagsins. Við höfum lagt mikla vinnu í að dreifa ábyrgð og fá sem flesta til skrafs og ráðagerða. Þannig koma yfir 100 manns að kjarasamningagerð okkar í hvert sinn, bæði í stóru samninganefnd félagsins og í minni samninganefndum um einstaka kjarasamninga.“

Aðspurður um áherslur hans ef hann næði kjöri sagði Sverrir: „Ég myndi vilja helga næstu árin því að byggja upp félagslega samstöðu innan Alþýðusambandsins og hverfa dálítið aftur að upprunanum.  Samningsrétturinn liggur hjá hverju félagi og menn hafa verið að fara saman  í viðræður af því það hefur talið skila meiri árangri – en á sama hátt getur það grafið undan tiltrú hjá einstökum hópum sem finnst hagsmunir þeirra fyrir borð bornir. Ég tel því mikilvægt að efla sjálfstæði félaganna.“

Valdið kemur frá aðildarfélögunum

„Á liðnum áratugum höfum við haft mjög áberandi forseta og sterka sem hafa komið inn í forystu úr starfsmannahópi sambandsins. Þetta hafa verið afgerandi einstaklingar sem hafa styrkt hlutverk ASÍ sem forystuafls. Ég tel nauðsynlegt að næsti forseti komi úr félagsstarfinu, einhver sem skilur að allt vald Alþýðusambandsins á uppruna í félögunum. Alþýðusambandið á að þjóna aðildarfélögum en ekki öfugt. 

Alþýðusambandið á að vera hinn faglegi samráðsvettvangur og faglegt bakland fyrir félögin. Þar eigum við að fjalla um okkar sameiginlegu mál, samfélagsmálin og fylkja okkur á bak við sameiginleg markmið.

Flest aðildarfélög Alþýðusambandsins eru sterk og öflug félög og fullfær um að veita kjarasamningum sínum forystu og bera ábyrgð á þeim. Það á alla jafna ekki að vera hlutverk Alþýðusambandsins.“

Aðspurður segist Sverrir vera reiðubúinn til að takast á við þetta verkefni. „Ég kem úr grasrót stórs verkalýðsfélags á landsbyggðinni. Ég hef tekið virkan þátt í að byggja það upp og í dag er það með sterkustu félögum í ASÍ. Í AFLi er fólk úr flestum starfsgreinum þannig að ég hef haft mikil og náin samskipti við fólk úr öllum landssamböndum ASÍ, auk þess að hafa setið í miðstjórn um nokkurt skeið. Þessi reynsla er gott veganesti í það vandasama starf sem forseti í þessum mikilvægustu samtökum íslensks launafólks er,“ segir Sverrir að lokum.

Sjálfboðliðar eru félagslegleg undirboð

  • Þegar sjálfboðaliðar eru notaðir í atvinnurekstri grafa fyrirtækin sem nota þá undan kjörum launafólks og skapa sér ólögmætt forskot

snippit sjálfboðaliðarSýknun Héraðsdóms Austurlands í máli lögreglustjórans á Austurlandi gegn Vallanesbúinu vegna brota á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga kom AFLi Starfsgreinafélagi nokkuð á óvart. Dómurinn byggði á lögum sem í gildi voru til áramóta 2016 – 2017 en meint brot voru framin sumarið 2016.  AFL og lögmenn félagsins töldu – á þeim tíma sem félagið lagði fram kæru á hendur búinu – að eldri lög væru nægilega skýr.  Þá var tekin ákvörðun um að ákæra í málinu, en það er aðeins gert ef ákæruvaldið telur það sem fram er komið nægilegt eða líklegt til sakfellis.

Það er mat félagsins og lögmanna þess að ef dæmt væru um sama mál skv. núgildandi lögum yrði niðurstaðan á annan veg.

Fjöldi sjálfboðaliða í störfum á íslenskum vinnumarkaði hefur farið ört vaxandi síðustu ár en með stöðugu átaki AFLs á félagssvæðinu virðist sem okkur hafi tekist að hafa nokkur áhrif. Þannig þekktu um 15% félagsmanna AFLs dæmi um að sjálfboðaliðar væru við störf á félagssvæðinu 2016 en aðeins 10% svöruðu þeirri spurningu jákvætt 2017.

Sjálfboðaliðar í efnahagslegri starfssemi grafa undan kjörum þeirra sem hafa samsvarandi störf að atvinnu. Sjálfboðaliðastarfssemi er hluti af svarta hagkerfinu þar sem ekki er skilað inn sköttum og skyldum af verðmætasköpun eins og öll heiðarleg fyrirtæki gera.  Aðilar sem starfa á samkeppnismarkaði og nýta sjálfboðaliða til starfa eru að ná forskoti í samkeppni og það virkar sem hvatning á aðra í sömu grein að fara sömu leið.

Ástæða þess að framboð er á sjálfboðaliðum til starfa er bæði ævintýralöngun og mikið atvinnuleysi og vonleysi í öðrum heimshlutum.  Vel stæðum millistéttarunglingum sem eru á framfæri foreldra sinna finnst spennandi að ferðast til nýrra landa og leita ævintýra og gera sér illa grein fyrir því að með framferði sínu grafa þau undan kjörum lægst launaða fólksins í því landi sem þau heimsækja.  Sunnar í Evrópu er mikið atvinnuleysi og mörgum finnst eftirsóknarvert að geta skráð atvinnuþátttöku á ferilskrár sínar – hvort heldur um launaða vinnu er að ræða eða ekki.

Víst er að allir tapa á félagslegum undirboðum nema atvinnurekendur sem nýta sér hrekkleysi fólks eða bága stöðu til féþúfu.  Barátta launafólks til langs tíma er fótumtroðin í leit óábyrgra launagreiðenda í leit að skyndigróða. Samfélagið allt er svikið um skatta til samneyslu og staða launafólks til kjarasamninga er veikt.

Og þar fundu þau frelsið

frelsid 1Það er hætt við því að fæstir núlifandi geri sér grein fyrir því að íslenskur almúgi var í raun ánauðugur þar til 1894 – þ.e. að bændur og yfirvöld héldu um það bil fjórðungi þjóðarinnar í ánauð – ævilöngum þrældómi án nokkurrar vonar um betri tíð og fátæklingar voru dæmdir til einlífis án möguleika á lífsförunaut og afkomendum. Þegar fátækasta fólkinu hafði verið slitið út við vinnu – var það sett á hreppinn og hraktist á milli bæja sem niðursetningar. Svo dó það úr vanhirðu – eitt og yfirgefið, hrætt og umkomulaust og enginn minntist þeirra síðar.

 
Almúgi um heim allan bjó við þessi skilyrði – eini munurinn var sá að Ísland var lengst af áratugum og árhundruðum á eftir öðrum þjóðum hvað varðaði þróun atvinnulífs og samfélags. Og með refsiglöðum sýslu- mönnum og prestastétt, sem dansaði vangadans við hið veraldlega vald, var alþýðufólki haldið heljartökum í fátækt og fáfræði, eymd og vesaldómi löngu eftir að alþýðufólk í nágrannalöndum hóf að brjóta hlekkina.
 
Var langamma þín í þessum sporum?
Leiðin til nútíma lífsgæða - hversu misskipt sem þau eru – hefur ekki verið bein og breið. Ekki teppalögð með mjúkum flosteppum. Við getum ímyndað okkur unga konu einhvers staðar í uppsveitum á Austurlandi fyrir 150 árum. Fátæk fæddist hún og fátæk mun hún deyja. Hún ræður sér ekki sjálf – húsbóndi hennar getur bannað henni að fara frá bænum og getur tuktað hana – jafnvel barið – ef honum sýnist svo. Hún gæti hæglega verið langamma einhvers af glæsilega íþróttafólkinu okkar í dag. En hún á ekkert og fær ekki laun utan nauðþurftir.
 
Hún verður að hafa sveitafestu – þannig að hún getur ekki farið hvert hún vill. Hún má ekki fara úr hreppnum nema með skriflegu leyfi prestsins eða hreppstjórans. Þeir eru á höttum eftir vinnuafli sem ekki má kosta – svo auðvitað leyfa þeir henni ekki að fara neitt. Hún á sig ekki sjálf. Hún er hjú – þeir eru húsbændur.
 
Kannski varð hún ástfangin af ungum manni – og kannski áttu þau barn saman. Og hafi húsbóndi hennar verið góður maður fékk hún að hafa barnið hjá sér. En barneignir öreiga voru ekki vel séðar svo líklegast
var barnið tekið og komið fyrir sem sveitarómaga einhvers staðar – hjá þeim sem best bauð. Þar beið barnsins svo vinnuþrælkun og vanhirða.
 
Unga manninn hitti hún þegar hann var tiltækur – þegar hann hafði ekki verið sendur á sjó; ánauðugur reri hann á áraskipum, fátækur og illa búinn og húsbóndinn hirti hlutinn hans. Sjálfur fékk hann sín vinnumannslaun en hásetahlutinn hirti húsbóndinn. Þannig urðu menn efnaðir.
 
 
Að deyja úr fátækt
 
Árið 1894 var vistarbandinu aflétt – þau réðu sér sjálf. Þau áttu ekkert en voru uppnumin af frelsinu. Þeim fannst lífið loks réttlátt – þau gátu komið og farið og gátu ráðið sig í vinnu þar sem þau vildu. Þau fluttu á mölina – til Neskaupstaðar, Vopnafjarðar eða til þessara útróðra-og verslunarstaða sem efldust til muna við aukið framboð á vinnuafli og aukna verslun. Þar fundu þau frelsið – að geta ráðið sér sjálf.
 
En það var skammvinn hamingja. Nokkrum árum síðar voru ungu hjónin - uppgefin og slitin – í kofahreysi með moldargólfi. Gamalmenni fyrir aldur fram. Konan búin á líkama og sál af því að vaska fisk úti í öllum veðrum og af því að jarða börnin sína hvert á fætur öðru. Börnin sem dóu af umgangspestum – en mest af lélegri næringu og slæmu húsnæði: Af fátækt. Hann hokinn og lúinn af þrældómi á opnum skipum undir ógnarsvipu atvinnuleysis og umkomuleysis.
 
Samstöðuleysið var algert.  Ef einn möglaði og var rekinn var alltaf annar tilbúinn til að taka plássið. Börnin voru jú svöng og það þurfti að afla matar. Þannig verða menn frjálsir þrælar.
 
 
 
Samstaða gegn óréttlæti
 
En það voru menn og konur sem ekki sættu sig við þetta ástand og vindar félagshyggju tóku að gæla við vinnulúna vanga. Menn fóru að tala sig saman – lágum rómi undir gafli. Erlendis var fólk víst að taka sig saman í félög – og stóðu uppi í hárinu á yfirvaldinu. Og stóðu saman. Hér reyndu yfirvöld að stoppa þessa ósvinnu; banna verkalýðsfélög og koma böndum á óeirðarseggi. Lögreglu var sigað á verkfallsmenn og það var barist á bryggjum víða um land.
 
Það reyndust alltaf einhverjir almúgamenn tilbúnir til að slást við meðbræður sína í von um mola af borði auðmanna. Brauðmolahagfræðin er ekkert ný.
 
Á Seyðisfirði stofnuðu menn verkalýðsfélag en það var brotið á bak aftur. Forvígismenn voru sveltir til hlýðni. Þeir fengu ekki vinnu. Félagið leystist upp. En það var geymt en ekki gleymt. Þeir komu aftur og stofnuðu sterkara félag. Loks 1916 voru komin félög víðast hvar um landið og það voru sjómannafélög og verkamannafélög og iðnaðarmannafélög og þá varð Alþýðusambandið til.
 
ASÍ hefur alltaf átt sér óvildarfólk
 
Síðustu hundrað árin hefur Alþýðusamband Íslands alltaf verið umdeilt – alltaf átt óvildarfólk og alltaf hefur verið reynt að auka á sundrungu innan þess. En á þessum sömu árum hefur Alþýðusambandið alltaf verið í fararbroddi í öllum málum er snerta velferð almennings. Barist fyrir launum, fyrir uppsagnarfresti, atvinnuleysisbótum, veikindarétti, veikindalaunum, orlofi, fæðingarorlofi, bættri menntun alþýðufólks og ekki síst fyrir mannsæmandi húsnæði fyrir launafólk.
 
Allt þetta hefur sætt ámæli og alltaf hafa auðstéttirnar með leigupenn- um sínum beitt sér harkalega gegn Alþýðusambandinu og forystufólki þess – það hefur sætt hvers kyns rógi og illmælgi enda er baráttan hörð, hagsmunirnir miklir. Það eru engin geimvísindi að skilja að eftir því sem hagur launafólks batnar og réttindi aukast – verða færri krónur eftir til að deila út í ofsagróða auðstéttanna.
 
Mögulega finnst núlifandi afkomenda hjónanna sem áður er minnst á Alþýðusambandið eða AFL Starfsgreinafélag vera glötuð fyrirbæri, gamaldags og nánast óþarfi. Kannski gerir hann/hún sér ekki grein fyrir að langafabróðirinn var útilokaður frá vinnu árum saman og lifði á sam- stöðu annarra örsnauðra – og bara af því hann stóð upp fyrir rétti sínum. Mögulega vita þau ekki að fjarskyld frænka fór í farabroddi kvenna í Hafnarfirði sem kröfðust yfirvinnukaups um helgar – en það fengu konur ekki í þá tíð.
 
Þau vita ekki að fjölskyldan missti allt sitt á fyrripart síðustu aldar þegar fjölskyldufaðirinn slasaðist við vinnu og var þá bara settur í land án launa og án trygginga. Fjölskyldan stóð bjargalaus eftir og hraktist úr lélegu húsnæði í enn lélegra. Þeim er mögulega ekki kunnugt um að afabróðir þeirra var dæmdur í 5 mánaða fangelsi fyrir þátttöku í Borðeyrardeilunni svokölluðu þar sem verkamenn börðust við lögreglu og hvítliðasveit sem sett var lögreglu til aðstoðar.
 
grein2
Allt þetta gerði fólk í nafni verkalýðsbaráttu – í nafni Alþýðusambandsins. Og það gerði það til að brjóta hlekkina og til að standa jafnrétthátt og semja um eigin kjör og kaup en láta ekki kúska sig eins og leiguliða og ánauðuga þræla. Baráttan var ekki þrautalaus.
 
Í verkalýðsbaráttu stöndum við aldrei ein
 
Jafn beiskir og ósigrarnir hafa verið þessi hundrað ár eru sigrarnir sætir
– það voru hamingjustundir hjá örsnauðu fólk sem flutti úr kjallaraholum þar sem skolpið lék um gólfin á flóði, þar sem rottur skutust milli barna að leik og í nýjar og glæsilegar íbúðir verkamannabústaða. Og það voru stoltir verkamenn sem buðu fjölskyldum sínum í nýju sumarhús verkalýðsfélaganna á Einarsstöðum. Illugastöðum eða Ölfusborgum. Sumarfrí, orlof og sumarhús – þetta voru alveg ný hugtök fyrir almúgann.
 
Síðustu hundrað árin hefur Alþýðusamband Íslands alltaf verið umdeilt – alltaf átt óvildarfólk og alltaf hefur verið reynt að auka á sundrungu innan þess. En á þessum sömu árum hefur Alþýðusambandið alltaf verið í fararbroddi í öllum málum er snerta velferð almennings.
 
Því miður er það svo að það sér ekki fyrir endann á verkefnunum. Enn er hart sótt að alþýðufólki, húsnæðismál þarfnast tafarlausra úrlausna, heilbrigðisþjónustan er á hraðferð í einkarekstur þar sem fjárráð hinna veiku munu ráða meðferð og aftur er þrælahald og slæm meðferð á fólki komin á dagskrá. Auðvaldið – ótýndir kennitöluflakkarar og efnahags- glæpamenn láta einskis ófreistað til að komast yfir skjótfenginn gróða og ef það þýðir að ræna fólk frelsinu þá gera þeir það. Ef það þýðir að brjóta á bak aftur áratuga réttindabaráttu íslensks launafólks – þá freista þeir þess.
 
En kannski er mikilvægasti árangur verkalýðsbaráttunnar sá að við stöndum ekki ein. Mögulega var eitt þeirra tuga dómsmála sem AFL hefur háð á liðnum árum – vegna eins afkomanda fátæku konunnar úr uppsveitum. Kannski sóttum við veikindaréttinn hans með dómi eða uppsagnarfrestinn hennar. Kannski voru það slysabætur eða jafnréttismál. Með samtakamættinum höfum við tekið svipu atvinnu- og umkomuleysis af húsbóndanum. Það á enginn að vera umkomulaus sem er í stéttarfélagi. Þar á enginn að standa einn í sinni baráttu.