AFL starfsgreinafélag

Uppsagnir hjá Granda

FrystiusV
Myndin tengist ekki fréttinni

Í dag var 11 starfsmönnum Granda hf. í frystihúsi félagsins á Vopnafirði sagt upp störfum. Áður hafði þremur starfsmönnum verið sagt upp og loks eru tveir starfsmenn að hætta af öðrum ástæðum og verður ekki ráðið í stað þeirra.  Fækkun starfa á Vopnafirði eru því 16 störf á stuttum tíma sem myndi jafngilda því að um 5.600 störf hefðu glatast á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt því sem AFL kemst næst eru flestir þeirra sem sagt var upp, af erlendum uppruna og búsettir á Bakkafirði en þar hefur allri fiskvinnslu verið hætt og íbúar hafa sótt vinnu til Vopnafjarðar.

Ennfremur herma fréttir að frekari uppbyggingu frystihússins á Vopnafirði sé hætt.

Þar sem innan við 100 starfsmenn eru starfandi í frystihúsinu sjálfu mun AFL Starfsgreinafélag hafa samband við Vinnumálastofnun og kanna hvort lög um fjöldauppsagnir eigi við.

Nýjir eigendur tóku við stjórn Granda hf á aðalfundi félagsins í vor.

uppfært: Stjórnendur hjá HB Granda höfðu samband við AFL undir kvöld og mótmæltu því að verið væri að stöðva uppbyggingu frystihússins á Vopnafirði en sögðu að unnið væri að breytingum á fyrirkomulagi á vinnslu á bolfiski og rekstri hússins á milli uppsjávarvertíða.

Sjálfboðaliðar - gömul frétt og ný

AFL, Vinnumálastofnun og starfsmenn Ríkisskattstjóra heimsóttu í dag Móðir Jörð í Vallanesi. Tilefni var að kanna skráningu starfsmanna og ráðningarkjör. Á staðnum voru 5 sjálfboðaliðar við garðyrkjustörf og nokkrir launaðir starfsmenn - flestir erlendir og tilltölulega nýkomnir til landsins.  Tveir starfsmannanna voru með kennitölur en aðrir þrír áttu von á kennitölu næstu daga enda búið að sækja um. Enginn starfsmanna var með undirritaðan ráðningarsamning.

Ekki hefur verið sótt um kennitölur fyrir sjálfboðaliðana - og voru einhverjir þeirra frá löndum utan EES og hafa ekki sjálfkrafa heimild til að sinna störfum á Íslandi án atvinnuleyfis. 

 Vallanes

Skv. upplýsingum forráðamanna Móður Jarðar eru sjálfboðaliðarnir á vegum samtaka sem sendir fólk víða um heim til að vinna sjálfboðastörf við t.d. umhverfisvæna jarðrækt. Einnig kom fram að um einhvers konar námssamninga væri að ræða án þess að það væri útskýrt nánar.

Í bréfi Ríkisskattstjóra til Alþýðusambands Íslands 11. mars sl. sjá hér, kemur skýrt fram að sjálfboðaliðar sem þiggja hlunnindi - þ.e. fæði og húsnæði eru sjálf skattskyld af verðmæti þeirra hlunninda og fyrirtæki sem tekur við "gjafavinnu" er skattskylt um sem svarar verðmæti þeirrar vinnu sem er gefin.  

Fulltrúi Vinnumálstofnunar í heimsókninni kvaddi síðan til lögreglu til að fá tekna skýrslu af sjálfboðaliðum.

 

 

Vallanesi

 Sjálboðaliðastörf í þjónustugreinum og landbúnaði eru eins og faraldur um þessar mundir og hafa fulltrúar stéttarfélaga komið á vinnustaði þar sem á annan tug sjálfboðaliða skúra gólf og ganga um beina eins og ekkert sé - og þá með skírskotun til þess að um starfsþjálfun sé að ræða.  Þetta er að verða alvarleg meinsemd á íslenskum vinnumarkaði og einn angi af svartri atvinnustarfssemi sem kemur sér hjá því að greiða skatta og skyldur til samfélagsins eins og aðrir - en vilja sitja að gróðanum. 

Verkalýðsfélögin semja um lágmarkskjör í landbúnaði og það eru sannarlega ekki há laun sem þar er samið um. Það gerir samningsstöðuna verri en ella - að bændur virðast geta sótt sér lífsþreytta millistéttarunglinga til nágrannalandanna sem koma hingað uppá sportið og ganga í störf fólks sem þarf að lifa af launum sínum. Þessir bændur selja síðan sínar afurðir á sömu mörkuðum og aðrir og er ekki að sjá að tekið sé tillit til þess að vinnuaflið sé ókeypis þegar varan er verðlögð.

Á meðan einhvers launaskriðs gætir á vinnumarkaði og ekki síst meðal stjórnenda þá er ekkert launaskrið í lægst launuðu störfunum svo sem í ferðaþjónustu og þar er verið að greiða fullorðnu fólki með áralanga reynslu skv. lágmarkstöxtum og ef fólk kvartar er því sagt að það sé nóg af sjálfboðaliðum til að ganga í störf þeirra.

Matvinnungar í ferðaþjónstu

Ungur maður sem sótti um vinnu hjá taldstæði í nágrenni Reykjavíkur fékk svar frá fyrirtækinu þess eðlis að fyrirtækið greiddi ekki laun - en væri einungis með sjálfboðaliða í vinnu sem fengju fæði og húsnæði fyrir ca. 5 tíma vinnu á dag.

Hér er augljóslega verið að brjóta alla kjarasamninga - enda á annað hundrað ár síðan fólk hætti að vera matvinnungar og lítið meira.  AFL hefur sent Eflingu í Reykjavík upplýsingar um þetta mál og ennfremur mun félagið senda embætti Ríkisskattstjóra upplýsingar enda líklegt að þessi vinna og endurgjald fyrir hana fari allt fram frekar óformlega.  Þetta er enn eitt dæmi um hemjulitla græðgi í atvinnulífinu þar sem hraunað er yfir kjarasamninga og lögbundna skatta og skyldur.

AFL Starfsgreinafélag hefur síðustu mánuði eytt talsverðu púðri í að fjalla um sjálfboðaliða á vinnumarkaði m.a. með auglýsingum sem einungis birtast á erlendum vefmiðlum og er beint að ungu fólki. Við höfum í kjölfarið fengið hundruði erinda og fyrirspurna  - og einni ábendingar og er þetta sú síðasta.

Fjarvistir vegna veikinda, starfsöryggi og starfsánægja

 

fjarvistir

 

Það hefur verið sýnt fram á, að því ánægðara sem fólk er í vinnunni, því sjaldnar er það fjarverandi vegna veikinda. Þetta kom m.a. fram í síðustu launa- og viðhorfskönnun AFLs. Í sömu könnun kom jafnframt fram, að svarendur sem upplifðu lítið starfsöryggi voru meira frá vegna veikinda, en þeir sem upplifðu mikið starfsöryggi.

Um 43% svaranda kváðust hafa verið frá vinnu í einn dag eða meira vegna veikinda eða vinnuslyss sl. 3 mánuði. Þetta hlutfall hefur farið vaxandi undanfarin ár. Það að starfsánægja dragi úr líkum á veikindum kemur ekki á óvart. Sú niðurstaða, að að minna starfsöryggi dragi ekki úr fjarvistum vegna veikinda, kemur aftur á móti nokkuð á óvart. Það gæti skýrst af bættu atvinnuástandi. Þó er mikilvægt að draga ekki of ákveðnar ályktanir nema fylgjast með þróun yfir lengri tíma. 

Launaseðlar og tímaskýrslur geta ráðið úrslitum

skofla

Að gefnu tilfefni vill AFL Starfsgreinafélag hvetja félagsmenn til að halda vel utan um launaseðla sína og tímaskýrslur.  Það getur ráðið úrslitum í málum þar sem félagið fer fram á að laun séu leiðrétt - að félagsmenn hafi haldið utan um gögn sín.  Það er full ástæða til að hvetja fólk til að bera tímaskýrslur saman við launaseðla og síðan við ráðningarsamning.

Vert er að vekja athygli á:

1. Ef ráðningarsamningur er um 100% starf - á alltaf að greiða fullan mánuð nema starfsmaður hafi sjálfur beðið um frí. Ef unnar stundir eru færri en 100% vegna verkefnastöðu - er það á ábyrgð launagreiðanda en ekki starfsmanns.

2. Ef unnin er vaktavinna - er vinna á aukavöktum eða vinna fram fyrir áformuð vaktaslit yfirvinna.  Það er óheimilt að greiða vaktaálög á breytilegar vinnustundir. Vaktaálög á aðeins að greiða á fyrirfram ákveðnar vaktir sem hafa fast upphaf og fastan endi. (ath. það geta verið minniháttar frávik frá þessari meginreglu)

3. Samanlagður tímafjöldi í dagvinnu og vinnu með vaktaálögum á ekki að vera umfram 173 tíma í mánuði.  Alla tíma umfram 173,33 á að greiða sem yfirvinnu.  (ath. það geta verið minniháttar frávik frá þessari meginreglu)

 Ofangreint eru tvö helstu atriði sem félagsmenn okkar eru að glíma við þessa dagana og þá sérstaklega í ferðmannageiranum - þ.e. að fólk er sent launalaust heim vegna verkefnaskorts þó svo að ráðningarsamningar séu fyrir fullu starfi og einnig að vaktaálög eru notuð á alla vinnu umfram dagvinnu - og líka þegar greiða á yfirvinnu.

Félagið vill líka hvetja foreldra og forráðamenn unglinga sem eru að hefja þátttöku á vinnumarkaði til að fara yfir launaseðla barna sinna og útskýra.  Ef einhver vafi er á að rétt sé greitt er viðkomandi bent á að hafa samband við skrifstofur félagsins eða senda póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.