AFL starfsgreinafélag

Til góðra verka

 

AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag

Breytingar á veikindarétti í nýjum samningi sjómanna

spítalaskipMeðal þess sem er í umræðunni nú er að í nýja samningnum eru breytingar á fyrirkomulagi veikindaréttar.  Það er fjallað um þetta á samfélagsmiðlum og margt hreinlega vitlaust sem þar kemur fram.

Sjómannalög eru grunnur að veikindarétti ’sjómanna og hafa verið í áratugi.  Í þeim er mönnum tryggðir allt að 60 dagar á óbreyttum launum.  Ath – þó margir segi að lögin tryggi mönnum fullan hlut þessa 60 daga – segir orðrétt í lögunum “….. skal hann eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann er óvinnufær …” .  Enda eru dómafordæmi hæstaréttar fyrir því að menn í skiptimannakerfum “halda launum sínum”.  Í sömu lögum segir einnig að ef skipverji er í launalausu leyfi þegar hann veikist – hefjast launagreiðslur þegar hann hefði átt að koma til skips aftur.

Þetta er lögin.  Það sem við sömdum um er að menn fái samtals fullan hlut í 2 mánuði en í skiptimannakerfum er greiðslunum dreift á 4 mánuði og menn í 50% skiptimannakerfi fá því óskert laun í allt að fjóra mánuði í stað tveggja mánaða áður.

Þetta lítur þá þannig út.
  1. Skipverji utan kerfis – þ.e. engin skiptimannakerfi. Skipverji fær greitt fyrir þá túra sem hann tekur en launalaus utan þess. Skipverji fær ”staðgengilslaun” í allt að 60 almanaksdaga í veikindum.  Þetta er engin breyting frá núgildandi fyrirkomulagi.
  2. Skipverji í skiptimannakerfi – skipverji rær annan hvern róður og fær fullan hlut. Skipverji fær fullan hlut þá róðra sem hann hefði farið skv. skipulagi í allt að 60 almanaksdaga. Skipverji fær ekki hlut þá túra sem hann átti ekki að fara.
  3. Launakerfi með greiðslumiðlun – skipverji fær staðgengilslaun (hálfan hlut) í allt að 120 almanaksdaga – hvort sem viðkomandi átti að róa eða ekki. Þ.e. heldur nákvæmlega sömu kjörum og hann væri ekki veikur.
  4. Launakerfi með útgerð – skipverji heldur launum í samræmi við róðrafyrirkomulag í allt að 120 almanksdaga. Ef fleiri en tveir eru um hlutinn – reiknast staðgengilslaun skv. skjalfestu róðra-og launafyrirkomulagi.

Hvað er þá að breytast.  Það sem breytist er að sjómenn í skiptimannakerfum fá tvöfalt lengri veikindarétt á óskertum launum.  Á skrifstofu AFLs erum við með þrjú dæmi um sjómenn sem hefðu á síðasta ári haft 3-5 milljónum meira í veikindum sínum en þeir fengu í raun.  Þetta er mjög stórt hagsmunamál.

Á hinn bóginn getur þetta orðið til þess að sjómaður sem  rær á móti öðrum en er launalaus túrinn sem hann sleppir – og veikist á innstíminu, fær ekki laun frítúrinn sinn.  Hann aftur á rétt á launum (fullum hlut) annan mánuð í veikindum. Er svo launalaus þriðja túr í veikindum og svo á fullum hlut fjórða mánuð í veikindum.

Hann heldur þannig nákvæmlega sömu launum og ef hann hefði ekki veikst. Það er dómur fyrir því að maður í þessu kerfi – fékk fullan hlut frítúrinn sinn, þ.e. viðkomandi veiktist á heimleiðinni úr túr og fékk fullan hlut fyrir veikindatúrinn (sem átti að vera launalaus frítúr).  Á frystitogara þar sem teknir eru 12 túrar á ári fengu allir greitt fyrir 6 túra nema þessi sem veiktist – hann fékk 7 túra greidda.

Þannig að til að hafa allt upp á borði – þá er mögulegt að einhverjir tapi á þessari breytingu – þ.e. Þeir sem veikjast á heimstíminu og eru á þessu launafyrirkomulagi.  En þeir eru margfalt fleiri sem hagnast á breytingunni – þ.m.t. allir í skiptimannakerfum með skiptum hlut.

Ath. Veikindaréttur á kauptryggingu í einn til tvo mánuði eftir starfsaldri, kemur til viðbótar við þennan rétt og t.d. Sjúkrasjóður AFLs Starfsgreinafélags greiðir mönnum viðbót við kauptryggingu upp í hámark sjúkradagpeninga félagsins (nú 1.305.266).

Athugið einnig að veikindaréttur getur aldrei orðið lengri en sá tími sem menn hafa starfað hjá útgerð – þannig að nýráðinn maður sem veikist í fyrstu veiðiferð á ekki veikindarétt nema sem nemur þeim dagafjölda sem hann hefur verið um borð. Þetta er hluti Sjómannalaga og breytist ekki.

Slysaréttur er svo sjálfstæður og kemur til viðbótar við veikindarétt. Slysaréttur eru þrír mánuðir á kauptryggingu.

Sjómaður með fjögurra ára starfsreynslu á skipi og er í 50% skiptimannakerfi getur því fengið óbreytt laun í fjóra mánuðir og kauptryggingu í allt að 5 mánuði eftir vinnuslys.  Þessu til viðbótar koma síðan sjúkradagpeningar viðkomandi verkalýðsfélags og svo tryggingabætur.

 

myndinni er hnuplað af vefsíðu Bandaríska Flotans og er tekin af Navy Petty Officer 2nd Class Zach Kreitzer, í júlí 2018.

Breiðfylkingin lýsir viðræður árangurslausar

Breiðfylking stærstu landssambanda og stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði lýsti í dag viðræður við Samtök atvinnulífsins árangurslausar. Ásteitingarsteinninn er forsenduákvæði um þróun verðbólgu og vaxta. SA hafa hafnað með öllu að í fjögurra ára samningi verði forsenduákvæði til varnar launafólki, hafi markmið varðandi verðbólgu og vexti ekki náðst.

Allir langtíma kjarasamningar á síðustu áratugum hafa verið undirritaðir með forsenduákvæðum sem heimila uppsögn að uppfylltum vissum skilyrðum. Krafa SA um afnám slíkra forsenduákvæða í komandi kjarasamningi er fáheyrð í kjarasamningagerð á Íslandi.

Krafan myndi þýða að launafólk eitt ber ábyrgðina og áhættuna af afleiðingum þess ef markmið samnings nást ekki.

Furðulegt er að SA séu ekki reiðubúin að festa í langtímasamning þau markmið sem samtökin sjálf hafa margítrekað lýst sem algjöru meginmarkmiði hans: Að ná niður verðbólgu og vöxtum. Ef meginmarkmið kjarasamnings nást ekki, þá þurfa varnir að vera til staðar fyrir launafólk.

Breiðfylkingin lýsir djúpum vonbrigðum með að SA kjósi að sigla viðræðum í strand vegna þessa atriðis. Sérstaklega er það sorglegt í ljósi þess að aðilar hafa lagt mikið á sig til að ná saman um hóflegar launahækkanir og samkomulag varðandi launalið er í meginatriðum í höfn. Undirritun kjarasamnings var í sjónmáli.

Breiðfylkinging stendur sameinuð í kröfum sínum og í ákvörðun sinni um að lýsa viðræður árangurslausar. Formenn þeirra sambanda og félaga sem standa að Breiðfylkingunni munu funda saman strax á mánudag og nýta tímann í millitíðinni til upplýsingagjafar og samráðs við sitt bakland.

 

Úthlutun sumarhúsa um páska 6. febrúar

Einarsstadir

Sumarhúsum AFLs um páskana verður úthlutað á úthlutunarfundi 6. febrúar nk.   Fundurinn verður haldinn að Búðareyri 1 kl. 14:00

Kjarakönnun Vörðu - rannsóknarstofun vinnumarkaðarins

Nú stendur yfir kjarakönnun á vegum Vörðu - Rannsóknarstofu Vinnumarkaðarins.  Spurt er um ýmis atriði er tengjast stöðu svarenda á vinnumarkaði, húsnæðismálum og öðrum aðstæðum.  Allir geta tekið þátt í könnuninni og er hlekkur á hana hér að neðan.  AFL hefur sent könnunina á um 7.000 félagsmenn en aðrir sem ekki fengur skilaboð geta tekið þátt með því að fylgja hlekknum hér að neðan.

 

Könnunina finnur þú hér: https://www.research.net/r/Launafolk_2024

Sjómenn skrifa undir kjarasamning

IMG 20240206 135043
Samningsaðilar gera sig klára til að skrifa undir kjarasamning í hádeginu í dag.


Sjómannasambandið skrifaði undir kjarasamning laust eftir hádegi í dag.  Samningur sem gerður var fyrir um ári síðan var felldur og eftir nokkuð hlé hófust samningaviðræður aftur í haust og náðust samningar loks á ný.

Með samningnum eru lífeyrisréttindi sjómanna 15,5% eins og annarra landsmanna, veikindaréttur er styrktur og taka ákvæði veikindaréttar nú í fyrsta sinn fullt tillit til mismunandi launakerfa sjómanna - s.s. mismunandi  skiptimannakerfa.  Er þá sjómönnum í skiptimannakerfi með 50% hlut á móti makker,  tryggð óbreytt laun í allt að 4 mánuði í veikinda-og slysatilfellum.  Í flestum tilfellum hingað til hafa menn fengið 50% laun í tvo mánuði og síðan kauptryggingu.

Gildistími samnings er 10 ár en með uppsagnarákvæði eftir 5 ár og öðru eftir sjö ár.  Sjómenn fá eftirleiðis desemberuppbót eins og aðrir launþegar.  Við undirritun samnings fá sjómenn eingreiðslu að upphæð 400.000 kr. og er það "fyrirframgreidd desemberuppbót" næstu fjögurra ára því desemberuppbót verður fyrst greidd 2028 og svo eftirleiðis.

Sjómannasamband Íslands mun birta kynningarefni og svara spurningum á heimasíðu sinni www.ssi.is og á facebook síðu sambandsins  https://www.facebook.com/sjomannasamband.

Atkvæðagreiðsla um samninginn hefst 12. febrúar kl. 12:00 og stendur til kl. 15:00 16. febrúar.  Sameiginleg atkvæðagreiðsla allra aðildarfélaga SSÍ er um samninginn.

Ákvörðun um undirritun samningsins var tekin í síðustu viku er aðildarfélögin héldu fund í samninganefnd sambandsins og mættu aðildarfélögin með um fjörtíu starfandi sjómenn á fundinn.  Þar voru samningsdrögin kynnt og farið í umræður um þau.  Að umræðum loknum samþykkti fundurinn einróma að skrifað yrði undir samninginn.

Hér má sjá samninginn sjálfan og hér stutt kynningarefni um samninginn.  Nánari upplýsingar verða birtar á heimasíðu okkar, heimasíðu Sjómannasambandsins og Facebook síðu sambandsins. 

 

Sveitarfélög - fyrning ótekins orlofs

 SveitafOrlof

Svo virðist sem einhver sveitarfélög ætli að "fyrna" ótekið orlof starfsmanna 30. apríl. nk.  Það þýðir að eigi starfsmenn enn ótekið orlof þegar næsta orlofsár hefst - muni sveitarfélögin fella það niður óbætt - þ.e. hvorki veita frí út á það né greiða það út með peningum.  Þetta er skv. túlkun sveitarfélaganna á grein 4.3.1 í aðalkjarasamningi en álit ASÍ er að greinin standist hvorki orlofslög né Evróputilskipun 2003/88/EB.  Þetta álit Alþýðusambandsins var síðan staðfest með dómi Evrópudómstólsins 22.september 2022 (mál C-120/21.

AFL hefur þegar vakið athygli einhverra sveitarfélaga á túlkun Alþýðusambandsins og því að félagið mun gæta hagsmuna félagsmanna láti sveitarfélög af þeirri hótun sinni um að fyrna ótekið orlof þann 30. apríl. nk.

Með fyrningu orlofs er í raun verið að fella niður - neita að greiða - áður áunnin laun.  Samkomulag á vinnumarkaði er á þá leið að fyrir hverja unna klukkustund fær launafólk ákveðna upphæð greidda út sem laun með loforði um að síðan verði önnur upphæð greidd síðar sem "orlof".  Með fyrningu áunnins orlofs - er það loforð svikið.  Í dómi Evrópudómstólsins er vakin athygli á því að það er launagreiðanda að sjá til þess að starfsfólk taki orlof og hafi tækifæri til að taka orlof.  Launagreiðendur geta því ekki borðið því við sem vörn að "áunnið orlof" sem safnast hefur upp - komi þeim á óvart.  

einn rettur logo 002            VIRK starfsendurhæfingasjóður     vertuaverdi