Breytingar á veikindarétti í nýjum samningi sjómanna
Meðal þess sem er í umræðunni nú er að í nýja samningnum eru breytingar á fyrirkomulagi veikindaréttar. Það er fjallað um þetta á samfélagsmiðlum og margt hreinlega vitlaust sem þar kemur fram.
Sjómannalög eru grunnur að veikindarétti ’sjómanna og hafa verið í áratugi. Í þeim er mönnum tryggðir allt að 60 dagar á óbreyttum launum. Ath – þó margir segi að lögin tryggi mönnum fullan hlut þessa 60 daga – segir orðrétt í lögunum “….. skal hann eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann er óvinnufær …” . Enda eru dómafordæmi hæstaréttar fyrir því að menn í skiptimannakerfum “halda launum sínum”. Í sömu lögum segir einnig að ef skipverji er í launalausu leyfi þegar hann veikist – hefjast launagreiðslur þegar hann hefði átt að koma til skips aftur.
Þetta er lögin. Það sem við sömdum um er að menn fái samtals fullan hlut í 2 mánuði en í skiptimannakerfum er greiðslunum dreift á 4 mánuði og menn í 50% skiptimannakerfi fá því óskert laun í allt að fjóra mánuði í stað tveggja mánaða áður.
Þetta lítur þá þannig út.
- Skipverji utan kerfis – þ.e. engin skiptimannakerfi. Skipverji fær greitt fyrir þá túra sem hann tekur en launalaus utan þess. Skipverji fær ”staðgengilslaun” í allt að 60 almanaksdaga í veikindum. Þetta er engin breyting frá núgildandi fyrirkomulagi.
- Skipverji í skiptimannakerfi – skipverji rær annan hvern róður og fær fullan hlut. Skipverji fær fullan hlut þá róðra sem hann hefði farið skv. skipulagi í allt að 60 almanaksdaga. Skipverji fær ekki hlut þá túra sem hann átti ekki að fara.
- Launakerfi með greiðslumiðlun – skipverji fær staðgengilslaun (hálfan hlut) í allt að 120 almanaksdaga – hvort sem viðkomandi átti að róa eða ekki. Þ.e. heldur nákvæmlega sömu kjörum og hann væri ekki veikur.
- Launakerfi með útgerð – skipverji heldur launum í samræmi við róðrafyrirkomulag í allt að 120 almanksdaga. Ef fleiri en tveir eru um hlutinn – reiknast staðgengilslaun skv. skjalfestu róðra-og launafyrirkomulagi.
Hvað er þá að breytast. Það sem breytist er að sjómenn í skiptimannakerfum fá tvöfalt lengri veikindarétt á óskertum launum. Á skrifstofu AFLs erum við með þrjú dæmi um sjómenn sem hefðu á síðasta ári haft 3-5 milljónum meira í veikindum sínum en þeir fengu í raun. Þetta er mjög stórt hagsmunamál.
Á hinn bóginn getur þetta orðið til þess að sjómaður sem rær á móti öðrum en er launalaus túrinn sem hann sleppir – og veikist á innstíminu, fær ekki laun frítúrinn sinn. Hann aftur á rétt á launum (fullum hlut) annan mánuð í veikindum. Er svo launalaus þriðja túr í veikindum og svo á fullum hlut fjórða mánuð í veikindum.
Hann heldur þannig nákvæmlega sömu launum og ef hann hefði ekki veikst. Það er dómur fyrir því að maður í þessu kerfi – fékk fullan hlut frítúrinn sinn, þ.e. viðkomandi veiktist á heimleiðinni úr túr og fékk fullan hlut fyrir veikindatúrinn (sem átti að vera launalaus frítúr). Á frystitogara þar sem teknir eru 12 túrar á ári fengu allir greitt fyrir 6 túra nema þessi sem veiktist – hann fékk 7 túra greidda.
Þannig að til að hafa allt upp á borði – þá er mögulegt að einhverjir tapi á þessari breytingu – þ.e. Þeir sem veikjast á heimstíminu og eru á þessu launafyrirkomulagi. En þeir eru margfalt fleiri sem hagnast á breytingunni – þ.m.t. allir í skiptimannakerfum með skiptum hlut.
Ath. Veikindaréttur á kauptryggingu í einn til tvo mánuði eftir starfsaldri, kemur til viðbótar við þennan rétt og t.d. Sjúkrasjóður AFLs Starfsgreinafélags greiðir mönnum viðbót við kauptryggingu upp í hámark sjúkradagpeninga félagsins (nú 1.305.266).
Athugið einnig að veikindaréttur getur aldrei orðið lengri en sá tími sem menn hafa starfað hjá útgerð – þannig að nýráðinn maður sem veikist í fyrstu veiðiferð á ekki veikindarétt nema sem nemur þeim dagafjölda sem hann hefur verið um borð. Þetta er hluti Sjómannalaga og breytist ekki.
Slysaréttur er svo sjálfstæður og kemur til viðbótar við veikindarétt. Slysaréttur eru þrír mánuðir á kauptryggingu.
Sjómaður með fjögurra ára starfsreynslu á skipi og er í 50% skiptimannakerfi getur því fengið óbreytt laun í fjóra mánuðir og kauptryggingu í allt að 5 mánuði eftir vinnuslys. Þessu til viðbótar koma síðan sjúkradagpeningar viðkomandi verkalýðsfélags og svo tryggingabætur.
myndinni er hnuplað af vefsíðu Bandaríska Flotans og er tekin af Navy Petty Officer 2nd Class Zach Kreitzer, í júlí 2018.