AFL starfsgreinafélag

Til góðra verka

 

AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag

Opið fyrir umsóknir um páska

Búið er að opna fyrir umsóknir um dvöl í orlofshúsum AFLs og íbúðum um páskana.  Dregið verður úr umsóknum um dvöl í orlofshúsum AFLs en í íbúðir félagsins í Reykjavík og á Akureyri gildir "fyrstur kemur fyrstur fær.  Staðfestingagjald bókunar er kr. 5.000 og er það ekki endurgreitt falli félagi síðan frá bókun.

Eindagi fullnaðargreiðslu er 15. mars.  Leigutímabil bæði orlofshúsa og íbúða er 16. - 23. apríl. Hægt er að bóka íbúðir beint á mínum síðum AFLs eða sækja um dvöl í orlofshúsi.

Yfirlýsing v. gerfistéttarfélagsins Virðingar

virdingMynd úr myndasafni AFLs

AFL Starfsgreinafélag fordæmir alla tilburði launagreiðanda til að stofna eigin stéttarfélag og þvinga starfsfólk til þátttöku í þeim.  Gerfistéttarfélagið Virðing er skýrt dæmi um félagsleg undirboð og misneytingu launagreiðenda.  Svokallaður kjarasamningur félagsins ber þess skýrt merki að þar sátu fulltrúar launagreiðenda hringinn í kringum borðið og sömdu við sjálfa sig um hvaða kjör þeir hyggjast bjóða starfsfólki.

AFL Starfsgreinafélag lýsir fullum stuðningi við baráttu Eflingar við þessi launagreiðendasamtök á höfuðborgarsvæðinu og Einingar Iðju við sömu samtök á Eyjafjarðarsvæðinu.

AFL mun fylgjast grannt með ástandi í veitinga—og gistihúsaumhverfinu á félagssvæði sínu og grípa til harðra aðgerða ef þetta gerfifélag gerir vart við sig á svæðinu.

Fjarðabyggð:  46% – 66% hækkun leikskólagjalda?

LeikskFask
Mynd úr myndasafni AFLs

Meirihluti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð undirbýr nú hækkun leikskólagjalda langt umfram öll viðmið – eða allt að 46% - 66% hækkun fyrir börn í fullri dagvistun.  Samkvæmt heimildum okkar nemur hækkunin 46% fyrir 8 tíma dagvistun og 66% vegna 8,5 tíma dagvistunar.

Við höfum borið þessar upplýsingar undir bæjarstjóra Fjarðabyggðar en ekki fengið nein viðbrögð.

Skv. heimildum AFLs hefur þessi hækkun þegar farið í gegnum Fjölskyldunefnd Fjarðabyggðar og var afgreidd í Bæjarráði nú í morgun og fer því fyrir bæjarstjórnarfund á fimmtudag.

Auk ofangreindra hækkana, er boðuð upptaka ,,skráningardaga“ og verða foreldrar að skrá börn sín sérstaklega til dagvistunar þessa daga og greiða aukalega fyrir það.

Þessar hækkanir eru boðaðar frá 1. mars nk. og má þá segja að allar kjarabætur þessa árs fyrir foreldra leikskólabarna séu þar með uppétnar – og það þrátt fyrir yfirlýsingu Sambands Sveitarfélaga um að gjaldskrárhækkunum verði stillt í hóf og verði ekki umfram 2,5%, til að styðja kjarasamningagerð liðins árs.  Í ljósi þeirrar yfirlýsingar m.a. gengu verkalýðsfélög til samninga – bæði á almennum markaði og við sveitarfélögin.  Einn bæjarstjórnarmanna Fjarðabyggðar er í stjórn Sambands Sveitarfélaga og stóð því að ofangreindri yfirlýsingu.  Það verður athyglisvert að sjá afstöðu viðkomandi á næsta bæjarstjórnarfundi.

Skv. heimildum okkar segir í fundargerð Fjölskyldunefndar að þessar hækkanir séu til að mæta vaxandi álagi innan leikskólanna – án þess að útskýrt sé í hverju álagið sé fólgið.  Álaginu verður væntanlega létt með því að fólk hafi ekki lengur efni á að fá leikskólaþjónustu fyrir börnin sín og leiti aftur í ástand sem var fyrir áratugum þegar eldri systkini, frænkur og frændur eða unglingurinn í næsta húsi, passaði börnin með foreldrarnir unnu.  Þá voru líka lyklabörnin frægu – sem voru með húslykil í bandi um hálsinn en voru að öðru leiti sjálfala á meðan foreldrarnir stunduðu vinnu.

Þannig verða leikskólarnir einkaskólar þeirra betur megandi á meðan börn láglaunafólks fara á flæking milli ættingja eða fá lykil um hálsinn.

Meirihluti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð er myndaður af Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Verkalýðshreyfingin og leikskólagjöld

Umfjöllun AFLs um fyrirhugaða gjaldskrárhækkun leikskóla í Fjarðabyggð hefur fengið stuðning annarra verkalýðsfélaga og sambanda.  Þannig ályktaði Formannafundur  Starfsgreinasamband Íslands fyrir 10. des. sl. :

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands varar við þeirri þróun sem orðið hefur í leikskólamálum víða um land, þar sem daglegur vistunartími er styttur í 6 klukkustundir en gjald fyrir dvalartíma umfram þann tíma er hækkað verulega. Einnig hefur svokölluðum skráningardögum fjölgað, þ.e.a.s. dögum sem ekki eru innifaldir í föstu mánaðargjaldi og greiða þarf sérstaklega fyrir.

Þeir foreldrar, sem vinnu sinnar vegna hafa ekki tök á því að stytta vistunartíma barna sinna, greiða eftir breytingarnar mun hærra gjald en áður svo nemur tugum prósenta. Bitnar þetta helst á tekjulágum foreldrum með lítið stuðningsnet og lítinn sveigjanleika í starfi.

Þótt sveigjanleiki hafi aukist hjá þeim hluta vinnumarkaðarins sem nýtur styttingu vinnuvikunnar, hefur stærstur hluti félagsmanna aðildarfélaga SGS alls enga styttingu fengið - vinnur ennþá 40 stunda vinnuviku og hefur ekki tök á að vinna að heiman hluta úr degi eða sækja börn fyrr á leikskólann. Þessi staðreynd virðist hafa farið fram hjá þeim sem stýra leikskólamálum.

Þangað til stytting vinnuvikunnar hefur verið innleidd hjá vinnumarkaðinum í heild sinni er þessi viðsjárverða þróun algerlega ótímabær. Hún mun draga úr ráðstöfunartekjum tekjulægstu heimilanna, auka ójöfnuð, grafa undan atvinnuþátttöku og er dýrkeypt bakslag í jafnréttisbaráttunni sem þó á enn langt í land.

Formannafundur Starfsgreinasamband Íslands krefst þess að sveitarfélög leiti annarra leiða til að leysa mönnunarvanda leikskólanna, þessi leið er of dýru verði keypt.

 

Þá fjallaði stjórn VR um málið á stjórnarfundi og á heimasíðu félagsins segir m.a.:

Stjórn VR gagnrýnir harðlega ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar að hækka leikskólagjöld frá og með mars á næsta ári og skerða þjónustu við fjölskyldur í sveitarfélaginu. Með þessari ákvörðun fetar bæjarstjórn sveitarfélagsins í fótspor Kópavogsbæjar sem fyrir ári hækkaði leikskólagjöld í bænum og dró úr þjónustu (sjá ályktun stjórnar VR). Þessar ákvarðanir hafa óhjákvæmilega í för með sér umtalsverða kjaraskerðingu fyrir launafólk. 

Breyting á leikskólagjöldum í Fjarðabyggð mun leiða til mikillar hækkunar á gjöldum fyrir fjölmarga foreldra í sveitarfélaginu, hækkun fyrir dagvistun barns í fullri dagvistun nemur tugum prósenta, samkvæmt útreikningum AFLs starfsgreinafélags. Þá mun skráningardögum fjölga en fyrir vistun á þeim dögum þurfa foreldrar að greiða aukalega (sjá hér frétt á vef AFLs).

Stjórn VR ítrekar að leikskólamál eru kjaramál og skipta launafólk miklu máli. VR styður kjarabætur til leikskólastarfsfólk og telur brýnt að starfsaðstæður þess verði bættar. Stytting leikskóladags barna er af hinu góða, en sú stytting verður að vera samhliða styttingu vinnuvikunnar á hinum almenna vinnumarkaði.  

Stjórn VR mótmælir því að sveitarfélög varpi allri ábyrgðinni á foreldra sem margir eru í þeim sporum að hafa ekki stuðningsnet, kjör eða aðstöðu til að bregðast við. Stjórnin hvetur sveitarfélög til að leita annarra leiða til að koma til móts við breytingar í umhverfi leikskóla en að skerða kjör launafólks og færa baráttuna fyrir jafnrétti kynjanna mörg ár aftur í tímann.  

Reykjavik 11. desember 2024 
Stjórn VR 

 

 

Er sveitarfélögum illa við fátækt fólk?

Nú er til umfjöllunar í bæjarstjórn Fjarðabyggðar veruleg hækkun leikskólagjalda  - og mun hækkunin nema allt frá 46%- 66% fyrir börn í vistun 8 – 8,5 klst. daglega.  Að auki er svokölluðum skráningardögum fjölgað – en það eru dagar sem ekki eru innifaldir í mánaðargjaldinu – og greiða þarf sérstaklega fyrir dagvistun þessa daga.

Síðustu ár hafa svokallaðir starfsdagar kennara og leikskólastarfsfólks farið heldur fjölgandi og skólum og leikskólum er almennt lokað þessa daga.  Þá hefur líka færst í vöxt að  einstaka deildum leikskóla sé lokað dag og dag vegna manneklu og fá þá foreldrar skilaboð um að koma ekki með börn sín – eða um að koma og sækja börnin.

Aðstöðumunur foreldra til að bregðast við þessum aðstæðum er gríðarlega misjafn.  Margir geta unnið heiman frá sér einstaka daga í samkomulagi við launagreiðanda.  Sumir eiga sér gott bakland – afa og ömmur og ættingja sem mögulega eru komnir af vinnumarkaði og hlaupa undir bagga. 

En fyrir aðrar er ástandið alvarlegra – fiskvinnslustarfsmaður eða starfsmaður á lyftara taka ekki börn með sér í vinnuna né vinna heiman frá sér.  Starfsmaður á bráðadeild á sjúkrahúsi tekur ekki með sér barn í vinnuna eða stekkur úr vinnu til að sækja barnið sitt af því að leikskóladeildin er illa mönnuð – því að öllum líkindum er bráðadeildin ekkert betur mönnuð en þar stendur fólk samt og sinnir sínum verkum.

Launafólk af erlendum uppruna á oft lítið bakland hér á landi og það eru engar ömmur eða afar í næsta húsi sem geta sótt á leikskólann eða sinnt börnunum á meðan leikskólastarfsmenn halda fundi.

Efnahagsleg áhrif af þessu ástandi koma einnig gríðarlega mismunandi niður á fjölskyldum. Það má leiða líkur að því að því ”hærra” í samfélaginu sem fólk er – því minni séu fjárhagslegu áhrifin.  Almennt verkafólk þarf yfirleitt að stimpla sig út þegar það fer af vinnustað – eða skrá sig af vakt þegar það þarf að vera heima. Aðrir og þeir ”hærra” settu ”vinna” að heiman þessa daga og verða ekki fyrir tekjutapi.

Leikskólar hafa í hugum fólks tvíþættan tilgang – uppeldis-og kennsluhlutverk og síðan ”gæsluhlutverk”  en atvinnulífið gengur alls ekki nema fólk hafi tryggan stað fyrir börn sín á meðan það vinnur fyrir launum. 

Með þessari þróun sem virðist í gangi meðal sveitarfélaga um land allt – verða leikskólar smátt og smátt einhvers konar einkaskólar þeirra betur megandi – þeirra sem geta verið heima á starfsdögum og greitt æ hærri leikskólagjöld – á meðan tekjulægra fólkið og þeirra sem ekki hafa bakland verður að leita annarra leiða.

Hækkunin sem til umfjöllunar er í Fjarðabyggð er sögð til að ”létta álag” af starfsfólki og skráningardagar eru til að koma til móts við vinnutímastyttingu í kjarasamningum.  Það hlýtur að kalla á skoðun á því hvort Samtök Sveitarfélaga hafi í raun vitað hvað þau voru að gera þegar samið var um vinnutímastyttinguna – sem átti ekki að hafa áhrif á þjónustustigið.  Sem er að gerast.  Þetta átti heldur ekki að vera til verulegs  kostnaðarauka – sem er að gerast.

einn rettur logo 002            VIRK starfsendurhæfingasjóður     vertuaverdi