AFL starfsgreinafélag

Af hverju að ganga í AFL?

Af hverju að vera í verkalýðsfélagi?

Með því að vera í verkalýðsfélagi tekur þú þátt í þeirri mótun samfélagsins og baráttu fyrir bættum kjörum launafólks sem staðið hefur óslitið frá aldamótunum 1900, þegar fyrstu íslensku verkalýðsfélögin voru að slíta barnsskónum. Baráttan hefur ekki alltaf verið tóm sigurvíma því oft hefur hreyfingin mætt mikilli andstöðu.  En sigrarnir sem unnt er að líta á og minnast með stolti eru samt margir:

 • Lögbundinn hvíldartími
 • 40 stunda vinnuvika
 • Útrýming heilsuspillandi íbúðarhúsnæðis – félagslegt húsnæði
 • Vinnuverndarlöggjöf – eftirlit á vinnustöðum
 • Veikindaréttur – laun í veikindum
 • Réttur til orlofs – laun í orlofi
 • Sjúkrasjóðir – stuðningur stéttarfélaga
 • Jafn réttur til náms – líka fyrir börnin okkar
 • Starfsmenntasjóðir – annað tækifæri
 • Fæðingarorlof – foreldraréttur
 • Réttur til að sinna veiku barni / maka
 • Lífeyrissjóðir – trygg afkoma á efri árum

Svona mætti telja áfram – en kannski er merkasti áfangi verkalýðsbaráttunnar sá, að launafólk getur staðið keikt og jafnfætis atvinnurekendum, en stendur ekki hokið, kúgað af þrælsótta og hræðist atvinnumissi og aðra nauðung.


Verkalýðshreyfingin hefur tryggt sér sæti við ákvarðanatöku í þjóðfélaginu og beitir mætti sínum til að treysta og verja kjör launafólks og bæta stöðu lítilmagnans og þeirra sem minna mega sín. Baráttunni lýkur aldrei og á seinni árum með vaxandi græðgi í þjóðfélaginu og alþjóðavæðingu fyrirtækja er þörfin fyrir samstíga hreyfingu launafólks meiri en oft áður.


Þeir sem koma sér hjá þátttöku í stéttarfélögum, t.d. með gerviverktöku eða svartri vinnu, eru í raun að svíkja vinnufélaga sína og vilja einungis þiggja en ekkert leggja af mörkum. Þeir þiggja kostina við vinnumarkaðinn og nýta veikleikana – vilja kjörin og umbunina en vilja ekkert gefa á móti – hvorki samstöðu með vinnufélögum eða taka þátt í kostnaði við hreyfinguna.


Því miður eru þessir sömu aðilar fljótir að knýja dyra á skrifstofum stéttarfélaga þegar á bjátar og beiðast þá aðstoðar – og þá heitir það að þetta var allt misskilningur – það stóð alltaf til að vera í verkalýðsfélagi.


Af hverju AFL?

AFL Starfsgreinafélag er  stéttarfélagið á Austurlandi, allt frá Skeiðará í suðri til Þórshafnar í norðri. Í félaginu er launafólk í flestum starfsgreinum þjóðfélagsins, verkafólk, fólk í þjónustu, iðnaðarmen (nema rafvirkjar), matreiðslumenn, verslunarfólk, sjómenn, starfsfólk á bændabýlum, starfsfólk sveitarfélaga og starfsfólk sjúkrahúsa. Félagsmenn eru um 6.000 hverju sinni - í hlutastörfum og fullri vinnu.


Félagið á og rekur 7 þjónustuskrifstofur  og hjá félaginu starfa 15 starfsmenn auk þess sem það hefur þjónustusamninga við tvær lögmannsstofur og hefur aðgang að þekkingu og þjónustu landssambanda sem félagið tilheyrir, auk Alþýðusambands Íslands. Orlofssjóður félagsins er vel stæður og á alls um 50 orlofshús- og íbúðir. Sjúkrasjóður AFLs veitir aðstoð talsvert umfram viðmiðunarreglur ASÍ og er einn sá öflugasti á landinu.


Félagsgjaldið er 1% af heildarlaunum og á launagreiðandinn að draga það af launum og standa skil á gjaldinu til félagsins. Um leið og hann gerir það greiðir hann sem svarar 1% af laununum þínum sem iðgjald til Sjúkrasjóðs en það færir þér mjög mikilvæg réttindi. Ennfremur 0,33% í Orlofssjóð félagsins og 0,30% í starfsmenntasjóði (þessi gjöld eru breytileg eftir því hvaða kjarasamningi unnið er eftir) en þessi launatengdu gjöld sem greidd eru af launagreiðanda en ekki þér sjálfum, færa þér mikilvæg réttindi t.d. í veikinda-og slysatilfellum og rétt til aðstoðar við endurmenntun og símenntun.


1% félagsgjaldið færir þér:

 1. Þjónustu skrifstofa og aðgang að starfsmönnum félagsins.
 2. Upplýsingar um réttindi og skyldur – aðstoð við að yfirfara launaseðla.
 3. Aðkomu félagsins í vinnustaðasamningum og við gerð ráðningarsamninga.
 4. Innheimtu launa þegar þörf krefur, aðstoð þegar launagreiðandi verður gjaldþrota, innheimtu launa, slysabóta og annarra bóta.
 5. Ráðgjöf og aðstoð lögmanna félagsins þegar þörf krefur vegna vinnuréttarmála, slysamála og jafnvel annarra mála.
 6. Aðstoð fyrir erlenda félagsmenn/vinnufélaga, túlkun og ráðgjöf.
 7. Veigamikla aðstoð sjúkrasjóðs við veikindi og slys.
 8. Styrki sjúkrasjóðs t.d. vegna heilsueflingar og fjölda annarra heilsutengdra hluta.
 9. Niðurgreiðslu og afnot á orlofshúsum og íbúðum. Verulega fyrirgreiðslu orlofssjóðs á öðrum sviðum.
 10. Styrki til þátttöku í námskeiðum og námi. Aðgang að námskeiðum félagsins – verulega niðurgreiddum eða ókeypis.
 11. Upplýsingar um kaup og kjör, á vef félagsins, í fréttabréfum eða upplýsingaritum.
 12. Það sem mikilvægast er: Rétt sem tryggður er af kjarasamningum félagsins – ekki bara laun heldur margvísleg önnur réttindi.