AFL starfsgreinafélag

Verklagsreglur AFLs

Umsóknir
Umsóknir þarf að fylla út rétt – sjá leiðbeiningar um umsóknir. Starfsmaður Sjúkrasjóðs hefur ekki heimild til að afgreiða umsóknir nema þær séu rétt út fylltar og öll nauðsynleg fylgiskjöl, s.s. læknisvottorð o.s.frv. liggi fyrir.


Persónuvernd
Allar umsóknir eru meðhöndlaðar í samræmi við reglur um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Allir starfsmenn stéttarfélaga undirrita sérstaka trúnaðaryfirlýsingu vegna starfans og að auki hefur AFL Starfsgreinafélag lagt áherslu á að upplýsa starfsfólk um meðferð persónuupplýsinga. Öll gögn er tengjast meðferð mála einstaklinga eru varðveitt í læstum hirslum og gögnum sjúkrasjóðs eytt eftir tilskilinn tíma.


Samskipti
Umsækjendur um dagpeninga eða styrki úr sjúkrasjóð félagsins geta fengið leiðbeiningar og fyrirgreiðslu á öllum skrifstofum félagsins. Að auki veitir starfsmaður Sjúkrasjóðsins  upplýsingar og svarar fyrirspurnum, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it., eða bein lína 4700 310. Við afgreiðslu mála sjúkrasjóðs er lögð áhersla á að starfsfólk félagsins fari eftir almennum stjórnsýslureglum og að öllum erindum sé svarað skilmerkilega og innan eðlilegs frests.


Greiðslur
Allar greiðslur til sjóðsfélaga eru greiddar inn á bankareikning viðkomandi. Gjaldkera félagsins er óheimilt að greiða dagpeninga eða styrki inná bankareikning á nafni annars en umsækjanda nema fyrir liggi umboð félagsmanns staðfest af vottum.


Ferli umsókna
Umsókn og fylgiskjöl eru send starfsmanni Sjúkrasjóðs sem fer yfir umsóknina og skjölin. Komi í ljós að umsókn sé ekki rétt út fyllt eða að gögn vantar reynir starfsmaður að hafa samband við umsækjenda og láta vita. Því er nauðsynlegt að láta símanúmer og/eða netfang fylgja með umsóknum.

Starfsmaður hefur heimild stjórnar til að afgreiða stóran hluta umsókna án sérstakrar umfjöllunar framkvæmdastjórnar sjóðsins. Meti starfsmaður umsókn fullnægjandi og að réttur sé ótvíræður afgreiðir hann umsóknina og skráir styrk/dagpeningagreiðslur í sérstaka tölvuskrá sem síðan er send gjaldkera til greiðslu og bókhaldi til færslu. Þessari tölvuskrá er lokað fimmtudag fyrir útborgun og eftir það er ekki unnt að breyta færslum.

Reglugerð sjóðsins kveður á um að styrkir og dagpeningar séu greiddir út mánaðarlega, í byrjun hvers mánaðar. Þar sem stofnfélög AFLs greiddu út hálfsmánaðarlega hefur sá háttur verið hafður siðustu mánuði og verður fyrst um sinn samkvæmt bráðabirgðaákvæði reglugerðar.

Greitt er annan hvern föstudag og berist umsóknir eða gögn vegna umsókna of seint bíður greiðsla vegna umsóknarinnar í hálfan mánuð. Ekki eru gerðar undantekningar á greiðsludögum nema ljóst sé að starfsmenn félagsins hafi gert mistök og að þess vegna hafi greiðsla ekki verið innt af hendi.


Umsóknir sem krefjast úrskurðar
Það koma alltaf upp álitamál af og til. Framkvæmdastjórn Sjúkrasjóðs kemur saman 1 – 2 svar í mánuði og þar leggur starfsmaður sjúkrasjóðs fram þær umsóknir sem hann vill úrskurð framkvæmdastjórnar um. Framkvæmdastjórn skoðar þá gögn málsins og kveður upp úrskurð. Ákvörðun framkvæmdastjórnar skal tilkynna umsækjenda strax. Ef umsókn er hafnað skal það tilkynnt skriflega með rökstuðningi.


Eftirlitshlutverk framkvæmdastjórnar
Þrátt fyrir heimild til starfsmanns um að afgreiða hefðbundnar umsóknir án úrskurðar hefur framkvæmdastjórn eftirlitshlutverk. Miðað er við að framkvæmdastjórn kalli  tilviljanakennt eftir gögnum um afgreiddar umsóknir og fari yfir gögnin og afgreiðslu málsins.


Áfrýjunarréttur félagsmanns
Uni félagsmaður ekki úrskurði framkvæmdastjórnar getur hann áfrýjað úrskurðinum til aðalstjórnar félagsins og getur fengið aðstoð starfsfólks félagsins við að útbúa erindi þess eðlis. Úrskurður aðalstjórnar er endanlegur.


Dánarbætur
Dánarbætur/útfararstyrkur  greiðast inná bankareikning hins látna félagsmanns. Ef óskað er eftir að greitt sé inná annan bankareikning skal leggja fram umboð skiptastjóra eða annarra lögerfingja vegna þessa. Skiptastjóri er fulltrúi Sýslumanns á staðnum.