AFL starfsgreinafélag

Reglugerð sjúkrasjóðs

Til að skoða innihald hverrar greinar þarf að smella á hana hér að neðan pdf útgáfa

1. gr. Nafn sjóðsins og heimili

1.1 Sjóðurinn heitir Sjúkrasjóður AFLs Starfsgreinafélags.

1.2 Sjúkrasjóður AFLs Starfsgreinafélags er stofnaður samkvæmt samningi AFLs Starfsgreinafélags og viðsemjenda félagsins.

1.3 Sjúkrasjóður AFLs Starfsgreinafélags er eign AFLs Starfsgreinafélags Heimili hans og varnarþing er í Fjarðabyggð.

2. gr. Verkefni sjóðsins

2.1 Verkefni sjóðsins er að veita sjóðfélögum Sjúkrasjóðs AFLs Starfsgreinafélags fjárhagsaðstoð í veikinda-, slysa- og dánartilvikum. Sjóðfélagar eru þeir sem greitt hafa, eða fyrir þá hafa verið greidd, iðgjöld til sjóðsins sbr. greinar 9, 10 og 11 reglugerðar þessarar.

2.2 Verkefni sjóðsins er ennfremur að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum sem snerta öryggi og heilsufar.

2.3 Þrátt fyrir grein 2.2 er stjórn sjóðsins sett sú kvöð að sjá til þess að sjóðurinn geti greitt viðunandi dagpeninga í veikindum sjóðsfélaga enda sé það megintilgangur sjóðsins.

3. gr. Tekjur

3.1 Tekjur sjóðsins eru samkvæmt kjarasamningum AFLs Starfsgreinafélags við viðsemjendur sbr. 7. gr. laga nr. 19, 1. maí 1979, um samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins.

3.2. Vaxtatekjur og annar arður.

3.3 Gjafir, framlög og styrkir.

3.4 Aðrar tekjur sem aðalfundur félagsins kann að ákveða hverju sinni.

4. gr. Stjórn og rekstur

4.1 Stjórn AFLs Starfsgreinafélags fer með yfirstjórn sjóðsins og ber ábyrgð á öllum fjárreiðum hans. Stjórn AFLs Starfsgreinafélags skal skipa þrjá fullgilda félagsmenn til að fara með daglega stjórn sjóðsins.

4.2. Sú stjórn sem aðalstjórn AFLs Starfsgreinafélags skipar til að fara með daglega stjórn sjóðsins, kallast framkvæmdastjórn Sjúkrasjóðs AFLs Starfsgreinafélags. Framkvæmdastjórn sjóðsins tekur laun fyrir fundarsetu samkvæmt ákvörðun aðalstjórnar AFLs Starfsgreinafélags.

4.3 4.3 Verkefni framkvæmdarstjórnar sjóðsins er að vera þeim starfsmanni/mönnum AFLs  Starfsgreinafélags er fara með daglega úthlutun úr sjóðnum, til ráðgjafar og úrskurða í vafaatriðum. Ennfremur skal framkvæmdastjórn annast reglubundið eftirlit afgreiðslu á styrkjum og dagpeningum sjúkrasjóðs. 

4.4 Framkvæmdastjórn skiptir með sér verkum. Einn stjórnarmanna skal vera formaður, annar ritari og þriðji meðstjórnandi. Tilkynna skal aðalstjórn AFLs Starfsgreinafélags um verkaskiptingu. Ritari framkvæmdastjórnar skal færa fundargerð, þar sem einungis er greint frá umsókn, svo og ákvörðun framkvæmdastjórnar. Með fundargerð skal fylgja skrifleg greinagerð starfsmanns AFLs Starfsgreinafélags fyrir því að úrskurðar framkvæmdastjórnar var óskað svo og rökstuðningi framkvæmdastjórnar fyrir úrskurði. Heimilt er framkvæmdastjórn að fara fram á að framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags sitji fundi nefndarinnar. Formanni AFLs

Starfsgreinafélags er heimilt að sitja fundi framkvæmdarstjórnar ef hann óskar.

4.5 Formaður AFLs Starfsgreinafélags getur ekki átt sæti í framkvæmdastjórn sjóðsins en formaður, svo og framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags, skulu fá allar fundargerðir framkvæmdastjórnar áður en greitt er úr sjóðnum samkvæmt ákvörðunum framkvæmdastjórnar.

Telji formaður AFLs Starfsgreinafélags ákvörðun framkvæmdastjórnar ekki standast reglugerð sjóðsins er honum heimilt að fresta greiðslum úr sjóðnum og skal hann þá boðað stjórnarfund AFLs Starfsgreinafélags innan 5 daga og fjalla um málið þar. Ákvörðun aðalstjórnar AFLs Starfsgreinafélags er endanleg og bindandi.

Sjóðfélögum sem telja á sér brotið í afgreiðslu framkvæmdastjórnar er og heimilt að skjóta þeim ágreiningi til aðalstjórnar AFLs Starfsgreinafélags. Um málsmeðferð fer að venjulegum stjórnsýslureglum eftir því sem við á og eru úrskurðir aðalstjórar endanlegir og bindandi.

4.6 Stjórnarmenn framkvæmdastjórnar svo og þeir starfsmenn AFLs Starfsgreinafélags sem koma að störfum fyrir sjóðinn skulu undirrita sérstaka trúnaðaryfirlýsingu um störf þeirra í þágu sjóðsins.

4.7 Framkvæmdastjórn sjóðsins felur einum starfsmanna AFLs  Starfsgreinafélags að hafa yfirumsjón með umsóknum og úthlutunum úr sjóðnum, í samráði við framkvæmdastjóra félagsins.

4.8 Minnst 4 almanaksdögum fyrir reglulega úthlutun úr sjóðnum skal formaður halda fund um þær umsóknir sem starfsmaður AFLs Starfsgreinafélags telur að þurfi úrskurðar framkvæmdastjórnar. Fundinn skal boða með 2ja daga fyrirvara.

4.9 Fund framkvæmdastjórnar skal sá starfsmaður sem stjórnin hefur valið til að sjá um daglega úthlutun úr sjóðnum, jafnframt sitja, en án atkvæðisréttar.

4.10 Umsóknir sem starfsmaður sjóðsins telur þurfa úrskurðar framkvæmdastjórnar skal starfsmaður kynna og ástæður þess að starfsmaður telur vafa á réttmæti umsóknar. Framkvæmdastjórn úrskurðar þá um umsókn sjóðsfélaga og gætir þess í hvívetna að úthlutunin brjóti ekki í bága við reglugerð sjóðsins.

4.11 Stjórnun sjóðsins skal vera í samræmi við þau sjónarmið sem gilda skv. almennum stjórnsýslulögum. Telji framkvæmdastjórn félagsleg rök fyrir styrkveitingu þrátt fyrir að heimildir í reglugerð sjúkrasjóðs skorti til styrkveitingar, skal í synjun til umsækjenda, bent á möguleika sjóðsfélaga til umsóknar í Líknarsjóð AFLs Starfsgreinafélags.

4.12 Fela skal aðalskrifstofu AFLs Starfsgreinafélags fjárreiður og umsjón með sjóðnum. Þó skal halda bókhaldi sjóðsins aðskildu frá öðrum fjárreiðum.

4.13 Stjórn sjóðsins, að fengnu samþykki aðalfundar er heimilt að verja allt að 20% af tekjum sjóðsins til að standa straum af kostnaði við rekstur hans.

4.14 Meðferð allra mála sjúkrasjóð skal fara eftir almennum stjórnsýslureglum. Þannig skal öllum synjunum við umsóknum úr sjóðnum svarað skriflega.

4.15 Starfsmaður AFLs Starfsgreinafélags er annast daglegar úthlutanir úr sjóðnum skal reglulega, ekki sjaldnar en á 3ja mánaða fresti gera formanni framkvæmdastjórnar og formanni AFLs Starfsgreinafélags og framkvæmdastjóra grein fyrir úthlutunum síðastliðinna 3ja mánaða. Skal greinagerðin gera grein fyrir úthlutunum dagpeninga og styrkja og greina styrki í undirflokka.

5. gr. Reikningar og endurskoðun

5.1 Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram áritaðir af félagslegum skoðunarmönnum og löggiltum endurskoðanda fyrir aðalfund félagsins. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið.

5.2 Endurskoðun ber að framkvæma af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi í samræmi við góða endurskoðunarvenju sem í gildi er á hverjum tíma.

5.3. Í ársreikningi eða skýringum með honum skal sundurliða sérstaklega kostnað vegna hvers og eins bótaflokks skv. 12. grein.

5.4. Um bókhald, reikninga og endurskoðun fer að öðru leyti skv. viðmiðunarreglum um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda sbr. 3 mgr. 44.gr. laga ASÍ eins og þær reglur eru á hverjum tíma.

6. gr. Úttekt óháðra eftirlitsaðila

6.1 Ár hvert, eigi síðar en 31. maí, skulu endurskoðaðir ársreikningar sjóðsins sendir miðstjórn ASÍ.

6.2 Fimmta hvert ár að minnsta kosti skal stjórn sjóðsins fá tryggingafræðing eða löggiltan endurskoðanda til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins og semja skýrslu til stjórnar um athugun sína. Stjórn sjóðsins skal senda miðstjórn ASÍ úttekt þessa með ársreikningi sjóðsins.

6.3 Við mat á framtíðarstöðu sjóðsins skal tilgreina rekstrarkostnað, ávöxtun sjóðsins og hvort sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar. Sérstaka grein skal gera fyrir áhrifum á afkomu sjóðsins vegna ákvarðana skv. greinum 12.3 og 12.4.

6.4 Geti sjóðurinn ekki staðið við skuldbindingar sínar skv. niðurstöðu úttektarinnar ber stjórn sjóðsins að leggja fyrir aðalfund tillögu að breytingu á reglugerð sem tryggir að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

7. gr. Ávöxtun sjóðsins

Heimilt er að ávaxta fé sjóðsins með eftirfarandi hætti:
Í ríkisskuldabréfum eða skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs, með kaupum á markaðsskráðum verðbréfum, í bönkum eða sparisjóðum, í fasteignum tengdum starfsemi sjóðsins og á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan sbr. 11 gr. viðmunarreglna um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda eins og þær eru á hverjum tíma sbr. 41. gr. laga ASÍ.

8. gr. Ráðstöfun fjármuna

8.1 Ávallt skal þess gætt að ráðstöfun fjármuna sjóðsins brjóti ekki í bága við tilgang hans eða verkefni.

8.2 Þegar um er að ræða ráðstöfun fjármuna til verkefna sem ekki falla undir megintilgang sjóðsins með beinum hætti skal tryggt að um eðlilega ávöxtun þess fjármagns sé að ræða, sbr. 7. grein.

9. gr. Grundvöllur styrkveitinga úr sjúkrasjóði

9.1 Rétt til sjúkradagpeninga úr sjóðnum eiga þeir sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum, sbr. þó 10. gr.

9.2 Einungis þeir sem sannanlega er greitt af eða verið er að greiða fyrir til sjóðsins þegar réttur til aðstoðar myndast.

9.3 Þeir sem greitt hefur verið af 1% iðgjald til sjóðsins í a.m.k. 10 vikur. Full réttindi ávinnast á 6 mánuðum en á því tímabili eykst réttur sjóðsfélaga hlutfallslega miðað við greiðslutímabil. Iðgjöld til sjóðsins vegna sjóðsfélaga þurfa að nema að lágmarki sömu upphæð og lágmarksfélagsgjald eins og það er ákveðið af aðalfundi félagsins hverju sinni,- til að fullur réttur myndist. Stjórn sjóðsins er heimilt að ákveða hlutfallslegar bætur til þeirra sem ekki hafa náð lágmarksiðgjaldi.

9.4. Hafi umsækjandi verið fullgildur aðili í sjúkrasjóði annars félags innan ASÍ þar til hann byrjar greiðslu til sjóðsins öðlast hann fullan rétt eftir að hafa greitt til sjóðsins í einn mánuð, enda hafi hann fullan rétt í hinum fyrri sjóði þar til. Félagsmenn AFLs Starfsgreinafélags sem greiða félagsgjald, en greiða ekki til sjúkrasjóðsins, geta ekki öðlast rétt til greiðslna úr sjóðnum nema stéttarfélagið tryggi greiðslur til sjúkrasjóðsins með hluta innheimtra félagsgjalda.

9.5 Hafi iðgjöld til sjúkrasjóðs ekki verið greidd vegna sjóðfélaga, en hann getur fært sönnur á, að félagsgjöld til viðkomandi aðildarfélags hafi samkvæmt reglulega útgefnum launaseðlum verið dregin af launum hans síðustu 6 mánuði, skal hann njóta réttar eins og iðgjöld til sjúkrasjóðs hafi verið greidd.

9.6. Réttur til sjúkradagpeninga sbr. gr. 12 helst óskertur í 4 vikur við starfslok og skerðist svo hlutfallslega í alls 6 mánuði frá starfslokum að telja. Miðað er við að sjóðsfélagi hafi ekki skyld réttindi hjá öðrum aðilum.

9.7. Njóti sjóðfélagi annarra greiðslna, s.s. launagreiðslna eða greiðslna frá öðrum sjúkrasjóðum, tryggingafélagi, Sjúkratryggingum Íslands, almannatryggingum eða öðrum aðilum, skulu sjúkradagpeningar vera mismunur þessara greiðslna og réttar til sjúkradagpeninga samkvæmt greinum 9.1.-9.5, sbr. nánar 12. grein.

9.8. Umsókn styrk/ sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði skal skilað í því formi sem framkvæmdastjórn sjóðsins ákveður hverju sinni, auk þeirra gagna sem nauðsynleg eru til að staðhæfa rétt sjóðfélaga til greiðslna. Sjóðfélagi skal heimila trúnaðarlækni sjóðsins að sannreyna réttmæti framlagðra læknisvottorða ef þörf krefur. Sjóðfélagi skal heimila starfsmanni sjúkrasjóðs að afla gagna um tekjur hans, s.s. úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og frá öðrum aðilum. Sjóðfélaga er skylt að greina frá öllum tekjum sínum, sbr. lið 9.7, jafnóðum.

9.9. Berist ekki fullnægjandi gögn og upplýsingar frá sjóðfélaga skal umsókn hans hafnað að svo stöddu. Sjóðfélagi sem gefur rangar eða villandi upplýsingar eða leynir upplýsingum, fyrirgerir rétti sínum til greiðslna úr sjúkrasjóði. Endurkrefja skal sjóðfélaga um allar greiðslur sem þannig eru fengnar, auk dráttarvaxta.

10. gr. Samskipti sjúkrasjóða

10.1 Sá sem öðlast hefur rétt til greiðslu sjúkra- og slysadagpeninga úr sjúkrasjóði eins stéttarfélags innan ASÍ, öðlast þann rétt hjá nýjum sjóði skv. þeim reglum sem þar gilda eftir að hafa greitt í þann sjóð í einn mánuð, enda hafi hann fram að því átt rétt hjá fyrri sjóðnum.

11. gr. Geymd réttindi

11.1 Við andlát sjóðfélaga, sem ekki er á vinnumarkaði er stjórn sjóðsins heimilt að greiða styrk vegna útfararkostnaðar. Skilyrði styrkveitingar er að hinn látni hafi verið sjóðfélagi síðustu 5 ár fyrir starfslok. 
Styrkur v. útfararkostnaðar sjóðsfélaga sem farinn er af vinnumarkaði skal nema fullum útfararstyrk fyrstu 12 mánuði eftir starfslok. Næstu 12 mánuði 80% af fullum útfarastyrk. Látist sjóðsfélagi innan við 36 mánuði eftir starfslok, en eftir 24 mánuði, nemur útfararstyrkur 60% af fullum styrk og skerðist síðan um 20% til viðbótar á næstu 12 mánuðum. Beri andlát sjóðsfélaga að 60 mánuðum eða meira eftir starfslok, nemur útfararstyrkur 20% af fullum útfararstyrk.

11.2 Heimilt er að veita þeim sem gengst undir starfsþjálfun, sækir námskeið eða stundar nám í allt að 24 mánuði og hefur síðan aftur störf á vinnumarkaði, endurnýjaðan bótarétt þegar greitt hefur verið til sjóðsins í einn mánuð, hafi umsækjandi áður verið fullgildur sjóðfélagi. Sama gildir um þá sem hverfa frá vinnu vegna barnsburðar, veikinda eða af heimilisástæðum.

11.3 Þeir sjóðfélagar sem fara í lögbundið fæðingarorlof halda áunnum réttindum sínum hefji þeir þegar að loknu fæðingarorlofi aftur störf á samningssviði aðildarfélaga ASÍ enda ákveði viðkomandi að viðhalda rétti sínum með greiðslu félagsgjalds í fæðingarorlofi.

12. gr. Dagpeningar

12.1 Dagpeningar greiðast í veikinda- og slysaforföllum í allt að 120 daga, virka jafnt sem helga, að loknum greiðslum skv. veikinda- og slysaréttarákvæðum kjarasamninga sjá þó greinar 12.13 og 12.14. Dagpeningar skulu að viðbættum launagreiðslum eða greiðslum frá öðrum sjúkrasjóðum, tryggingafélagi, Sjúkratryggingum Íslands, almannatryggingum eða öðrum aðilum, ekki nema lægri fjárhæð en 85% % af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.

12.2 Við langvarandi veikindi er stjórn sjóðsins heimilt að lengja greiðslutíma  dagpeninga í allt að 120 dögum til viðbótar, ef hún telur brýna nauðsyn til vegna sérstakra ástæðna og fjárhagur sjóðsins leyfir. Taka skal tillit til hvort sjóðfélagi hefur atvinnutekjur, bætur frá almannatryggingum, bótarétt hjá tryggingafélagi, rétt til tímabundinna örorkugreiðslna frá lífeyrissjóði, eða nýtur annarra sjúkrabóta. Umsóknir um framlengingu sjúkradagpeninga skulu berast með minnst mánaðar fyrirvara og er heimilt að senda þær “ráðgefandi lækni sjóðsins” til umsagnar.

12.3 Dagpeninga í allt að 120 daga, virka jafnt sem helga, að loknum kjarasamningsbundnum greiðslum launagreiðanda vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 85% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum. Með langveikum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlegan og/eða langvinnan sjúkdóm og þarfnast sérstakrar umönnunar. Með alvarlega fötluðum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlega greindarskerðingu, geðraskanir eða alvarlega líkamlega hömlun og þarfnast sérstakrar umönnunar. Ef vafi leikur á hvort barn þarfnist sérstakrar umönnunar, er heimilt að leita umsagnar “ráðgefandi læknis sjóðsins.”

12.4  Heimilt er að greiða einstæðum foreldrum dagpeninga með hverju barni í allt að 12 virka  daga, á 12 mánaða tímabili vegna veikinda þeirra. Réttur til greiðslu myndast, þegar greiðslutímabili atvinnurekenda lýkur og þegar veikindi barna hafa staðið í fjóra daga samfleytt. Þá skal greitt fyrir alla dagana.

12.5 Dagpeninga í allt að 120 daga, virka jafnt sem helga,  vegna mjög alvarlegra veikinda maka. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 85% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.

12.6 Eingreiddar dánarbætur við andlát virks og greiðandi sjóðfélaga samkv. reglum er stjórn sjóðsins setur. Rétthafar bóta eru maki sjóðfélaga og börn hans undir 18 ára aldri sem sannanlega voru á framfæri hins látna. Upphæð dánarbóta skal ákvörðuð af stjórn sjóðsins árlega en verður aldrei lægri en kr.  750.000,- miðað við launavísitölu 1. júní 2018.

12.7 Dagafjölda greiddra dagpeninga skv. 12.1, 12.2, 12.3 og 12.4 til þeirra sem greitt er hlutfallslega lægra iðgjald af en 1%, er heimilt að skerða í sama hlutfalli og iðgjaldið er lægra en 1%.

12.8 Dagpeningar skv. 12.1, 12.2, 12.3, 12.4 og 12.5 er heimilt að miða við meðaltal heildarlauna á síðustu 12 mánuðum í stað síðustu 6 mánaða, hafi tekjur sjóðfélaga breyst verulega til hækkunar eða lækkunar á viðmiðunartímabilinu. Jafnframt er heimilt að ákveða hámark dagpeninga skv. 12.1, 12.2, 12.3, 12.4 og 12.5 sem þó sé ekki lægra en 900.000.- á mánuði m.v. launavísitölu 1. júlí 2018

12.9 Réttur skv. 12.1, 12.2, 12.3, 12.4 og 12.5 endurnýjast á hverjum 12 mánuðum, hlutfallslega eftir því sem hann er nýttur, talið frá þeim degi sem dagpeningagreiðslum líkur hverju sinni og greiðslur iðgjalda hefjast að nýju.   Þó skal ekki greiða meira en 180 daga á hverju 12 mánaða tímabili sbr. þó gr. 12.2.

12.10 Sjálfstætt starfandi sjóðsfélagar öðlast ekki rétt til sjúkradagpeninga fyrr en að loknum þeim veikindarétti sem þeir hefðu aflað sér sem launamenn í sama starfi, þó ekki lengri tíma en 3 mánuði eftir að veikindi hefjast. Sama gildir um rétt til dagpeninga vegna veikinda barna – þar skapast rétturinn eftir dagafjölda sem almennir kjarasamningar veita rétt til hjá vinnuveitanda.

12.11 Við ráðstöfun fjármuna skv. 12. gr. skal þess gætt að möguleiki sjóðsins til að standa við upphaflegar skuldbindingar sínar vegna sjúkdóma og slysa skerðist ekki. Í reglulegri úttekt á af-komu sjóðsins, skv. 6. gr., skal úttektaraðili skoða þennan þátt sérstaklega.

12.12  Hafna skal  umsókn um dagpeninga skv. grein þessari vegna bótaskyldra slysa og  atvinnusjúkdóma, þ.m.t. bifreiðaslysa, þar sem bætur greiðast skv. skaðabótalögum.

12.13 Sé sjóðfélagi aðeins óvinnufær að hluta er heimilt að greiða honum sjúkradagpeninga samhliða minnkuðu starfshlutfalli og lækkuðum launum. Skulu dagpeningar þá aldrei nema hærri fjárhæð en 85% (sjá grein 12.1) af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum, hlutfallslega m.v. það starfshlutfall sem sjóðfélaga vantar upp á að geta sinnt hefðbundnu starfshlutfalli sínu.

12.14 Ef sjóðsfélagi lækkar í launum við að nýta veikindarétt hjá launagreiðanda s.s. er á hreinum dagvinnulaunum eða kauptryggingu – og þessi laun eru verulega lægri en Sjúkradapeningar yrðu miðað við 85% meðallauna síðustu sex mánaða – er heimilt að greiða viðkomandi sem svarar mismun á greiddum launum og reiknuðum sjúkradagpeningum.

12.15 Stjórn sjóðsins er heimilt að stofna til annarra bótaflokka í formi líftrygginga/dánarbóta, slysatrygginga og annarra heilsufarstrygginga.

12.16 Stjórn sjóðsins skal endurgreiða læknisvottorð ef vottorðsins er krafist af hendi hennar til endurnýjunar eða áframhaldandi greiðslna úr sjóðnum.

12.17 Stjórn sjóðsins er heimilt að greiða dagpeninga vegna áfengismeðferðar í allt að 49 daga, þó ekki oftar en einu sinni á hverju 3ja ára tímabili. Skilyrði fyrir greiðslu er að viðkomandi hafi lokið fullri meðferð.  Skilyrði fyrir greiðslu er að viðkomandi sé fullgildur meðlimur sbr. gr. 9.3.

12.18  Sjúkrasjóði AFLs Starfsgreinafélags er heimilt að kalla eftir staðgreiðsluyfirliti sem umsækjandi sækir til rsk.  Afhenda skal yfirlitið fyrir það tímabil sem umsókn um sjúkradagpeninga tekur til og sundurliðað niður á mánuði. Heimilt er að kalla eftir staðgreiðsluyfirliti þegar ástæða þykir til en sérstaklega þegar:

                a. umsækjandi fær sjúkradagpeninga sbr. gr. 12.13 – á móti skertu starfshlutfalli.

                b. umsækjandi sækir um framlengingu á greiðslu sjúkradagpeninga.

Ef óskað hefur verið eftir staðgreiðsluyfirliti skal stöðva frekari greiðslur sjúkradagpeninga þar til yfirlitið hefur borist sjóðnum og verið borið saman við uppgefnar upplýsingar umsækjanda.

13. gr. Styrkir

13.1 Stjórn sjóðsins er heimilt að veita félagsmönnum og börnum þeirra styrki til kaupa á glerjum í  sjóngleraugu, allt að 50% af andvirði glerja. Þó ekki oftar en einu sinni á hverjum 24 mánuðum.

13.2 Stjórn sjóðsins er heimilt að veita styrki til laser-augnaðgerða einu sinni á hverjum 36 mánuðum, eða allt að þeirri upphæð er stjórn sjóðins ákveður á hverjum 36 mánuðum.

13.3 Heimilt er stjórn sjóðsins að veita styrki til sjóðsfélaga vegna líkamsræktar.

13.4 Heimilt er stjórn sjóðsins að greiða úr sjóðnum hluta kostnaðar allt að 50% vegna sjúkraþjálfunar og sjúkranudds. Til verður að koma tilvísun frá lækni, sjúkranuddarinn skal vera löggiltur og sjúkraþjálfarinn viðurkenndur af tryggingastofnun. Greiðsla þessi er heimil vegna allt að 30 tíma á hverjum 12 mánuðum.

Heimilt er stjórn sjóðsins að greiða úr sjóðnum hluta kostnaðar allt að 50% vegna óhefðbundinna meðferðarúrræða og/eða   sjúkraþjálfunar og sjúkranudds, án viðurkenningar TR enda sé tilvísun frá lækni til viðkomandi meðferðar og meðferðaraðila.

13.5 Stjórn sjóðsins er heimilt að veita styrki til glasa-/smásjárfrjóvgunar og ættleiðingar.  Skilyrði styrkveitingar er að viðkomandi hafi verið sjóðfélagi a.m.k. 12 mánuði samfellt. Styrkveitingin skal þó aldrei nema meira en 50% af kostnaði. Heimilt er að greiða sjóðfélaga, sem ekki heldur launum, dagpeninga þá daga sem þeir eru frá vinnu vegna meðferðar. Heimilt er að veita hverjum sjóðfélaga þennan styrk allt að þrisvar sinnum.

13.6  Stjórn sjóðsins er heimilt að endurgreiða félagsmönnum skoðunargjald vegna krabbameinsskoðunar. Þó ekki oftar en einu sinni á hverjum 12 mánuðum.

13.7 Stjórn sjóðsins er heimilt að veita félagsmönnum styrk til kaupa á heyrnartækjum. Styrkveitingin skal aldrei nema meira en 50% af kostnaði og er heimilt að greiða styrkinn einu sinni á hverjum 36 mánuðum.

13.8 Stjórn sjóðsins er heimilt að greiða ferðakostnað vegna veikinda félagsmanna eða barna þeirra, þegar almannatryggingar greiða ekki, sem hér segir: Vegna ferða út fyrir byggðarlagið samkvæmt vottorði læknis um að ferðin sé nauðsynleg, skal greiða sem svarar flugfargjaldi og/eða km. gjaldi samkvæmt reglum Sjúkratryggingar Íslands.
Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um greiðslu ferðakostnaðar og rétt til þeirra.   

13.9 Stjórn verði heimilt að veita félagsmönnum barneignastyrks vegna fæðingar barns/barna. Styrkurinn verði að upphæð kr. 150.000 m.v. verðlag í apríl 2022 og uppfærist fjárhæð árlega miðað við hækkun neysluvísitölu.
Skilyrði styrkveitingar er að viðkomandi hafi verið greiðandi félagsmaður og greitt iðgjald er samsvari að lágmarki lágmarkslaunum –  við lægra iðgjald er heimilt að greiða hluta Barneignastyrks Ekki er greiddur barneignastyrkur ef samfelld félagsaðild fyrir fæðingu er skemmri en sex mánuðir en hlutfallslegur styrkur ef félagsaðild er 6 – 12 mánuðir


13.10 Heimilt er stjórn sjóðsins að veita styrki til sjóðsfélaga í formi forvarnar- og endurhæfingar-styrkja og styrkja vegna sjúkra- og slysakostnaðar.

13.11 Stjórn sjóðsins setur reglur um upphæð styrkja sbr. 13. grein og kynnir félagsmönnum. Stjórn er heimilt að afnema styrki tímabundið krefjist fjárhagsafkoma sjóðsins þess.

13.12 Við ráð-stöfun fjármuna skv. 13. gr. skal þess gætt að möguleiki sjóðsins til að standa við upphaflegar skuldbindingar sínar vegna sjúkdóma og slysa skerðist ekki. Í reglulegri úttekt á af-komu sjóðsins, skv. 6. gr., skal úttektaraðili skoða þennan þátt sérstaklega.

14.gr. Lausn frá greiðsluskyldu

Ef farsóttir geisa getur stjórn sjóðsins leyst sjóðinn frá greiðsluskyldum sínum um stundarsakir. Einnig getur stjórn sjóðsins ákveðið að lækka um stundarsakir upphæð dagpeninga ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin.

15. gr. Tilhögun greiðslna úr sjóðnum

15.1 Stjórn sjóðsins og starfsmenn hans skulu hafa að leiðarljósi almennar stjórnsýslureglur um meðferð upplýsinga um umsóknir og afgreiðslu sjóðsins.

15.2. Sjúkradagpeningar og styrkir eru greiddir út mánaðarlega á fyrsta virka degi hvers mánaðar en síðasta bankadag fyrir mánaðarmót, beri fyrsta dag mánaðar upp á frídag.

15.3 Umsóknum skal skilað á því formi sem stjórn sjóðsins ákveður og þeim skal fylgja nauðsynleg vottorð sem tryggja réttmæti greiðslna. Heimilt er sjóðnum að afla upplýsinga frá öðrum sjúkrasjóðum, lífeyrissjóðum, Tryggingastofnun ríkisins og öðrum aðilum sem ástæða þykir til.

15.4 Stjórn sjóðsins er heimilt að ráða sjóðnum til aðstoðar ”ráðgefandi lækni” eða gera samning við læknamiðstöð um slíka þjónustu. Telji stjórn sjóðsins ástæða til skal leitað álits “ráðgefandi læknis sjóðsins” á réttmæti sjúkradagpeningagreiðslna og hefur hann þá rétt til að kynna sér læknisvottorð og tengd gögn sbr. reglur Læknafélags Íslands um trúnaðarlækna. “Ráðgefandi læknir sjóðsins” gefur síðan sjóðsstjórn álit sitt á réttmæti umsóknar.

Ennfremur ber stjórn sjóðsins að leita álits “ráðgefandi læknis sjóðsins” á styrkveitingum almennt og bera undir viðkomandi tillögur til breytinga á styrkveitingum. Álit “ráðgefandi læknis” skal fyrst og fremst fjalla um heilsufarslega kosti styrkveitinga og kosti þeirra til fyrirbyggjandi heilsueflingar.

15.5  Með umsókn heimilar umsækjandi félaginu til að kanna áreiðanleika skjala sem framvísað er við umsókn s.s. stöðu bókunar í flug og annarra skjala sem framvísað er vegna ferðakostnaðar.  Einnig að hafa samband við söluaðila þjónustu og staðfesta reikninga sem framvísað er með umsókn.

16. gr. Fyrning bótaréttar

Réttur til bóta eða styrkja úr sjúkrasjóði skv. reglugerð þessari fellur niður sé þeirra ekki vitjað innan 12 mánaða frá því að rétturinn stofnast. Fyrning bótaréttar miðast við að bótaréttur hafi skapast á meðan greitt var fyrir viðkomandi sjóðsfélaga til sjóðsins.

17. gr. Endurgreiðsla iðgjalda

Iðgjöld til sjóðsins endurgreiðast ekki.

18. gr. Upplýsingaskylda

Stjórn sjóðsins er skylt að upplýsa sjóðsfélaga um rétt þeirra til aðstoðar sjóðsins, til dæmis með útgáfu bæklinga eða dreifirita og/eða á heimasíðu félagsins. Birta skal yfirlit um allar styrkveitingar sem sjóðsfélagi hefur fengið á „mínum síðum“ hans á heimasíðu félagsins.

Persónuvernd:  Takmarka skal aðgengi að upplýsingum um styrkveitingar úr sjúkrasjóði fyrir starfsmönnum félagsins þannig að aðeins séu birtir á vinnusvæði starfsmanna þær styrkveitingar sem málefnalegar ástæður standa til að birta.

19. gr. Breytingar á reglugerðinni

19.1 Breytingar á reglugerðinni verða aðeins gerðar á aðalfundi félagsins og þurfa þær að vera samþykktar með meirihluta greiddra atkvæða fundarins. Slíkrar tillögu skal getið í fundarboði.

19.2 Breytingar á reglugerðinni skulu sendar skrifstofu ASÍ þegar og þær hafa verið samþykktar á aðalfundi

20. gr. Gildistaka

Reglugerð þessi tekur gildi 1.janúar 2022