AFL starfsgreinafélag
  • IMG 6441 (1024x683)
  • mynd Vatnsveita

Saga

Fræðslumála launafólks


Saga þeirra starfsmenntasjóða sem félagsmenn  AFLs hafa aðgang að, nær ekki langt aftur í tímann. Menntamál félagsmanna verkalýðshreyfingarinnar hafa samt sem áður verið meðal helstu viðfangsefna stéttarfélaga allt frá upphafi. Þessi áhersla hefur aukist mikið á síðustu árum. Góð undirstöðumenntun og menntun alla ævi eru í dag álitin forsenda lífsgæða og velgengni einstaklinga, hvort sem er á vinnumarkaði eða í samfélaginu almennt.


Forysta iðnaðarmanna í starfsmenntun
Iðnaðarmenn og samtök þeirra, bæði atvinnurekenda og sveina, voru leiðandi í félags-, mennta- og menningarstarfsemi hér á landi í lok 19. aldar. Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík rak kvöld- og sunnudagaskóla fyrir iðnaðarmenn sem þróaðist í reglulegan iðnskóla sem stofnaður var 1904.  Grunnmenntun iðnaðarmanna færðist á miðri 20. öld yfir á herðar ríkisins en þrátt fyrir það hafa iðnaðarmenn ætíð haft vakandi auga með menntaþörf eigin iðngreina. Með aukinni tækniþróun jókst þörfin fyrir endur- og eftirmenntun iðnaðarmanna. Sú verkaskipting þróaðist að hið opinbera skólakerfi sinnti grunnmenntuninni samkvæmt þeim áherslum sem mótaðar eru af atvinnulífinu, en atvinnulífið sjálft, einkum með samstarfi verkalýðshreyfingarinnar og samtaka atvinnurekenda, hefur séð um endur- og eftirmenntun og innleiðingu nýjunga í tækni og aðferðum í einstökum iðngreinum.


Fræðslustofnanir iðnaðarins hafa flestar orðið til í umhverfi löggiltra iðngreina á seinustu 30 árum. Þær rekja upphaf sitt til samkomulags meistara og sveina í iðnaði um eftirmenntunarnefndir iðngreina sem komið var á fót í fjölmennustu iðngreinunum í samstarfi við Iðntæknistofnun með sérstöku fjárframlagi frá iðnaðarráðuneytinu um og eftir 1970. Eftirmenntunar¬nefndirnar þróuðu síðar sérstakar endurmenntunarstofnanir með beinum framlögum frá samtökum launafólks og atvinnurekenda innan iðnaðarins eða með sjálfstæðum tekjustofni. Hér má nefna Rafiðnaðarskólann sem endurmenntunarnefndir í rafiðnaði stofnuðu árið 1985. Síðasta skrefið sem stigið hefur verið í þessum efnum er stofnun Iðunnar, fræðsluseturs á árinu 2006. Þar hafa 5 endurmenntunarstofnanir, á bygginga- og mannvirkjasviði, matvæla- og veitingasviði, málm- og véltæknisviði, prenttæknisviði og bílgreinasviði sameinast í einni fræðslustofnun.
Endurmenntunarnefndir iðngreinanna byggðu á samstarfi samtaka atvinnurekenda og launafólks. Með endurmenntunarnefndunum og síðar fræðslustofnunum sem byggðar voru á grunni þeirra skapaðist dýrmæt þekking og reynsla af samstarfi samtaka launafólks og atvinnurekenda sem síðar hefur með öðru lagt grunninn að, eða í það minnsta stuðlað að, samstarfi þessara aðila í öðrum greinum atvinnulífsins og á vettvangi heildarsamtakanna.


fiskverkun2
Starfsmenntun fyrir verka-, verslunar- og skrifstofufólk og sjómenn
Verzlunarmannafélag Reykjavíkur stofnaði árið 1905 Verzlunarskóla Íslands og rak hann til ársins 1922 þegar Verslunarráð Íslands yfirtók rekstur hans. Verzlunarskólinn var lengi framan af eini vettvangurinn fyrir starfsmenntun í verslunargreinum. Rétt er að geta þess að Verzlunarmannafélag Reykjavíkur var á þessum tíma samtök allra þeirra sem störfuðu við verslun í Reykjavík, jafnt launafólks og atvinnurekenda.


Á vegum Starfsstúlknafélagsins Sóknar, og Reykjavíkurborgar, ríkisins o.fl., hófst starfsmenntun fyrir félagsmenn í aðhlynningu og barnagæslu árið 1976. Síðan fylgdu samningar fyrir fleiri hópa Sóknarfélaga. Þá komu einnig fleiri sveitarfélög inn með hliðstæða samninga við stéttarfélög starfsmanna sinna.


Árið 1986 urðu tímamót í fræðslumálum almenns verkafólks þegar Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar var stofnuð í tengslum við gerð kjarasamninga það ár. Starfsfræðslunefndin var sett á stofn með fjárframlögum úr ríkissjóði og var hlutverk hennar að skipuleggja starfsmenntun fyrir starfsfólk í fiskiðnaði. Starf hennar byggði á samstarfi stjórnvalda og samtaka launafólks og atvinnurekenda í greininni. Ári síðar hélt Starfsfræðslunefnd iðnverkafólks fyrsta starfsmenntanámskeiðið með fjárframlagi úr ríkissjóði. Nefndin byggði á samstarfi samtaka launafólks og atvinnurekenda utan löggiltra iðngreina og hafði það hlutverk að byggja upp grunnstarfsmenntun fyrir iðnverkafólk í fjölmörgum greinum verksmiðjuiðnaðar, þvottahúsum og efnalaugum. Báðir þessir aðilar stóðu fyrir öflugu námskeiðahaldi.
Á meðan starfsmenntasjóður félagsmálaráðuneytisins styrkti ýmis starfstengd námskeið sem verkalýðsfélögin stóðu fyrir, voru mörg slík námskeið haldin á núverandi félagssvæði, s.s fyrir umönnunarstarfsmenn, ræstingafólk, starfsfólk í kjötvinnslu, mjólkurvinnlu, á hótelum og fleira. Þetta var hins vegar háð því að verkalýðfélögin á hverjum stað væru virk í að skipuleggja og sækja um styrki fyrir slík námskeið, oftast í samstarfi við Menningar-og fræðslusamband alþýðu. Nokkur félaganna sem i dag mynda AFL stóðu sig vel á þessu sviði og héldu slík námskeið, allt að 100 stundir.


Í kjarasamningum árið 2000 var í samstarfi samtaka launafólks og atvinnurekenda og stjórnvalda samið um fræðslusjóði fyrir almennt verkafólk, Landsmennt og Starfsafl, og þeim tryggt fjármagn út samningstímann. Sama ár var einnig samið um Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks, en hann byggði á samstarfi sem hafist hafði nokkru áður milli samtaka verslunarmanna og atvinnurekenda um starfsmenntun.


Í lok maí 2002 var undirritað samkomulag samtaka sjómanna (SSÍ) og atvinnurekenda (SA og LÍÚ) um stofnun fræðslusjóðs vegna starfsmenntunar sjómanna, Sjómennt.


Í maí 2005 tók Ríkismennt SGS, þróunar-og símenntunarsjóður starfsmanna ríkisins á landsbyggðinni innan SGS til starfa, en um er að ræða fræðslusjóð fyrir starfsmenn ríkisins og ríkisfyrirtækja í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins á landsbyggðinni.


Loks ber að nefna Sveitamennt, sem er starfsmenntasjóður SGS á landsbyggðinni og launanefndar sveitarfélaganna. Sveitamennt tók formlega til starfa í byrjun árs 2007.


Fljótlega eftir stofnun starfsmenntasjóðanna hófu félögin á svæðinu átak í námskeiðahaldi  og boðið var upp á menntasmiðjur um allt Austurland. Menntasmiðjurnar voru yfirleitt samansettar af 4 námskeiðum sem hver félagsmaður tók og voru mjög vel sóttar, en þær voru styrktar af starfsmenntasjóðum félagsmanna. Á þessu ári hefur áherslan verið lögð á fræðslu og menntun starfsmanna félagsins til að gera þá hæfari í að sinna félagsmönnum.


Félagsmála- og fullorðinsfræðsla og starfsmenntun – MFA
Eftir umræðu á vettvangi Alþýðusambandsins var árið 1969 samþykkt reglugerð fyrir fræðslustofnun á vettvangi heildarsamtakanna, Menningar og fræðslusambands alþýðu, en segja má að rekja megi fyrirrennara MFA allt aftur til ársins 1924. Í reglugerð fyrir MFA kom fram að því væri ætlað að sinna almennri fullorðinsfræðslu, félagsmálafræðslu og starfsmenntun. Starfsemin fór hægt af stað en efldist með árunum. Í upphafi var áherslan einkum lögð á félagsmálafræðslu fyrir trúnaðarmenn og aðra talsmenn verkalýðshreyfingarinnar. Sú starfsemi fékk síðar mun traustari grunn, þegar ákvæði um rétt trúnaðarmanna til að sækja námskeið á launum kom inn í kjarasamninga árið 1977. Félagsmálaskóli alþýðu var síðan stofnaður með þátttöku verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda og fjármögnun á fjárlögum með sérstökum lögum árið 1989. Þar með var skotið sterkum fjárhagslegum stoðum undir félagsmálafræðslu á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar.


Með yfirtöku MFA á Tómstundaskólanum um mitt ár 1986 og síðar kaupum á Málaskólanum Mími efldist starf verkalýðshreyfingarinnar að almennri tómstunda- og fullorðinsfræðslu til mikilla muna.


Í lok 9. áratugarins hóf MFA að þróa og skipuleggja starfsmenntanámskeið fyrir einstaka hópa launafólks, oftast á grundvelli kjarasamninga sem gerðir höfðu verið um slík námskeið. Samhliða vaxandi áhuga og skilningi á mikilvægi starfsmenntunar fyrir verkafólk á síðasta áratug 20. aldarinnar efldist þessi þáttur í starfi MFA til muna.  Með lögum um starfsmenntun í atvinnulífinu árið 1992 og starfsmenntasjóði var skotið traustari fjárhagslegum stoðum undir þetta starf MFA að starfsfræðslu fyrir verkafólk í samstarfi við stéttarfélög, sambönd og atvinnurekendur. Þá tók MFA mikilvægt frumkvæði í þróun menntunar fyrir atvinnulausa á síðasta áratug.
Árið 2002 var ákveðið að skilja félagsmálafræðsluna frá annarri starfsemi sem MFA hafði með höndum. Stjórn og þróun félagsmálafræðslunnar var flutt til ASÍ en stofnað var einkahlutafélagið Mímir – símenntun ehf. sem hefur það hlutverk að standa fyrir og þróa frekar almenna fullorðinsfræðslu og starfsmenntun.


MFA/fræðsludeild stendur fyrir fræðslu og námskeiðahaldi sem sérstaklega er ætlað talsmönnum og félagsmönnum aðildarsamtaka ASÍ. Þá er deildarstjóri félagsmáladeildar ASI jafnframt skólastjóri Félagsmálaskóla alþýðu. Félagsmálaskóli alþýðu rekur umfangsmikla fræðslu og útgáfustarfsemi fyrir talsmenn aðildarsamtaka ASÍ og BSRB. Þar má nefna trúnaðarmannanámskeið, háskólanám fyrir talsmenn verkalýðshreyfingarinnar og námskeiðahald sem tengist einstaka viðfangsefnum og starfi verkalýðshreyfingarinnar. Félagsmálaskólinn hefur jafnframt með höndum útgáfustarfsemi og uppbyggingu fræðslu á veraldarvefnum.