AFL starfsgreinafélag

Vaxtarsamningur Austurlands

AFL Starfsgreinafélag hefur haft þá stefnu að koma ekki beint að fjármögnun fyrirtækja eða leggja fé í rekstur. Stefna félagsins hefur verið að styrkja grunnstoðir atvinnulífsins, m.a. með þátttöku í Þekkingarneti Austurlands. Með þetta að markmiði ákvað stjórn félagsins að taka virkan þátt í Vaxtarsamningi Austurlands – en tilgangur samningsins var að styrkja atvinnulíf í fjórðungnum, stuðla að nýsköpun í atvinnulífi og efla atvinnu á jaðarsvæðum.

AFL lagði því í upphafi myndarlega af mörkum til samningsins eða þrjár milljónir króna og fulltrúi félagsins sat í framkvæmdastjórn samningsins.

Um Vaxtarsamning Austurlands
Vinna við Vaxtarsamning Austurlands hófst í lok ágúst 2005 með skipun þáverandi iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, á verkefnisstjórn. Verkefnisstjórn lauk starfi sínu í september 2006 með útgáfu á skýrslu um Vaxtarsamning Austurlands. Í kjölfarið var leitað til fjölmargra aðila um aðkomu að samningnum. Þann 4. janúar 2007 skrifuðu 55 aðilar undir Vaxtarsamning Austurlands.

Í kjölfarið voru myndaðir forystuhópar og í febrúar var skipað níu manna framkvæmdaráð eftirfarandi aðila:

• Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri, fyrir Samband sveitarfélaga á Austurlandi
• Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri, fyrir AFL- Starfsgreinafélag
• Halldór Kristjánsson, verkefnastjóri, fyrir Byggðastofnun og/eða Iðntæknistofnun
• Ásbjörn Guðjónsson, stjórnarformaður, fyrir Atvinnuþróunarsjóð Austurlands
• Ruth Elfarsdóttir, fjármálastjóri Fjarðaáls, formaður Iðnaðar, tækni og verktakasviðs
• Guðrún Reykdal, framkvæmdastjóri ÞNA, formaður Mennta- og rannsóknasviðs
• Guðrún Þorleifsdóttir, lögfræðingur, fyrir Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið
• Signý Ormarsdóttir, menningarfulltrúi, formaður Menningar- og ferðaþjónustusviðs
• Adolf Guðmundsson, framkvæmdastjóri, formaður Matvælasviðs

Formaður framkvæmdaráðs var Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri á Hornafirði og var hann jafnframt formaður stjórnar.

Hugmyndin með vaxtarsamningi var að setja fram stefnumörkun í byggðamálum til að treysta samkeppnishæfni og vöxt Austurlands. Markmið samningsins var að stuðla að auknum hagvexti, fjölga atvinnutækifærum, treysta byggðakjarna og gera Austurland að eftirsóttum valkosti til búsetu. Við framkvæmd samningsins var sérstaklega tekið mið af þörfum jaðarsvæða á Austurlandi. Meginverkefni vaxtarsamnings var að stuðla að uppbyggingu klasa og tengslaneta helstu aðila á viðkomandi kjarnasviðum og verkefnum er þeim tengjast.

Kjarnasvið Vaxtarsamningsins voru eftirfarandi:

1. Matvælaframleiðsla
2. Menntun og rannsóknir
3. Menning og ferðaþjónusta
4. Iðnaður, tækni og verktakastarfsemi

Markmið vaxtarsamnings Austurlands
Markmið samningsins í dag eru að efla nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins á starfssvæði Samband Sveitarfélaga á Austurlandi og auka hagvöxt með virku samstarfi fyrirtækja, háskóla, sveitarfélaga og ríkisins.

Leiðir að þessu markmiði skulu m.a. vera.:

  1. Efla samstarf fyrirtækja, háskóla og opinberra stofnana um þróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins.
  2. Þróa áfram og efla klasasamstarf vaxtargreina svæðisins og efla svæðisbundna sérþekkingu á vel skilgreindum styrkleikasviðum.
  3. Fjölga samkeppnishæfum fyrirtækjum og störfum og efla framboð á vörum og þjónustu.
  4. Stuðla að útflutningi vöru og þjónustu og gjaldeyrisskapandi starfsemi.
  5. Nýta möguleika sem skapast með aðild að alþjóðlegum verkefnum.
  6. Laða að alþjóðlega fjárfestingu og þekkingu.

Sjá nánar um Vaxtasamning Austurlands