AFL starfsgreinafélag

Búið að semja!

Hækkun launa þeirra tekjulægstu, kaupmáttaraukning og efnahagslegur stöðugleiki var meginmarkmið Starfgreinasambandsins í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Þetta markmið hefur að mestu náð fram í þeim kjarasamningi sem undirritaður var í kvöld.

Kjör þeirra sem lægst hafa launin og kaupmáttur þeirra, sem setið hafa eftir í launaþróuninni hækka umtalsvert meira en annarra. Samið er um að taxtar hækki verulega  og öryggisnetið þar með gert tryggara. Samið er til eins árs með möguleika á framlengingu í tvö ár ef efnahagslegar forsendur standast, m.ö.o. að aðrir, þar með talin stjórnvöld, axli einnig ábyrgð í efnahagslífinu þannig að verðbólga og vaxtabyrðin lækki. Þessi atrið geta tryggt kaupmáttaraukningu á samningstímabilinu.

 

Launataxtar hækka frá og með 1. febrúar s.l., um 18.000 krónur, um 13.500 krónur árið 2009 og 6.500 krónur árið 2010. Í samningum er fjallað um fyrstu skref að nýju kerfi veikinda-, slysa- og örorkuréttinda á almennum markaði, en grunnur er nú lagður að nýjum endurhæfingarsjóði aðila vinnumarkaðarins. Veruleg hækkun bóta slysatrygginga launafólks var markmið sem náðist í kjarasamningnum. Dánarbætur til eftirlifandi maka hækka um 31,4% og til barna mun meira. Bætur vegna varanlegrar örorku hækka um 71,2% og dagpeningar vegna tímabundinnar örorku um 65%.

 

 

Önnur markið Starfsgreinasambandsins svo sem um aukin framlög atvinnurekenda í fræðslu- og endurmenntunarsjóði náðist, einnig aukin vernd  launafólks við uppsagnir og að tekið verði markvisst á kynbundnum launamun.

 

Með kjarasamningum, sem Starfgreinasambandið hefur borið hita og þunga af, eru send mikilvæg skilaboð út  í samfélagiðið. Skilaboð um stöðugleika á vinnumarkaði á Íslandi næstu þrjú árin, stöðugleika sem er afar mikilvægur í því óvissuástandi sem við blasir í atvinnu- og efnahagslífinu. Kjarasamningarnir eru til þess fallnir að styrkja íslenska vinnumarkaðinum og um leið tækifæri, ef vel til tekst, til að auka hagvöxt og þar með kaupmátt launafólks. (Af heimasíðu SGS/ www.sgs.is)