AFL starfsgreinafélag

AFL um unglingavinnu

Seyðisfjarðarkaupstaður hefur svarað erindi formanns AFLs er sent var fyrr í mánuðinum. Hjördís Þóra, formaður AFLs, sendi sveitarfélögum á Austurlandi, erindi í kjölfar launakönnunar félagsins hjá vinnuskólum og unglingavinnu á Austurlandi.

Í erindi Hjördísar kemur fram að laun ungmenna í vinnu hjá sveitarfélögunum séu undir lágmarkstöxtum í kjarasamningi SGS og Launanefndar sveitarfélaga en í þeim samningum eru engir unglingataxtar. Jafnframt að í ófrágengnum drögum að samkomulagi aðila frá 2004 um vinnuskóla megi sjá að sveitarfélög geti ákveðið laun einhliða vegna "Vinnuskóla" vegna vinnu unglinga undir 16 ára aldri. Í drögunum er tekið fram að "vinnuskólar" séu sambland af vinnu og fræðslu og að ungmennin séu yngri en 16 ára.

Hjördís óskaði því eftir skýringum sveitarfélaganna á því að 16 ára unglingum sé greitt kaup undir lágmarkskjörum samninga.

Seyðisfjörður, eitt sveitarfélaga, hefur séð ástæðu til að taka erindi Hjördísar fyrir í bæjarráði til þessa og senda svar. Í svari bæjarstjóra, Ólafs Hr. Sigurðssonar, kemur fram að bæjaráð hvetur LN og SGS til að ljúka vinnu við skilgreiningu vinnuskóla. Ennfremur bendir bæjarráðið á að 16 ára unglingum á Seyðisfirði er nokkuð vel greitt fyrir vinnu sína miðað við aðra staði landsins og að þeim standi til boða vinna 7 klst á dag í allt sumar. Bæjarráð svarar ekki sérstaklega spurningu AFLs um það hvers vegna 16 ára unglingar vinna undir lágmarkstaxta en laun hjá Seyðisfjarðarkaupstað eru 75,33% viðmiðunarlauna.

Sjá fyrri umfjöllun AFLs um launagreiðslur í Vinnuskólum / unglingavinnu svo og umfjallanir Einingar Iðju á Akureyri og Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

AFL - umfjöllun

AFL samanburður launa

Eining Iðja - umfjöllun og samanburður

Verkalýðsfélag Vestfirðinga