AFL starfsgreinafélag

Enginn árangur í samningaviðræðum!

Annar fundur samninganefndar AFLs Starfsgreinafélags og Launanefndar Sveitarfélaganna fór fram í gær og lauk án þess að árangur yrði. Annar fundur hefur verið boðaður nk. miðvikudag.

Á fundinum á mánudag kynnti samninganefnd sveitarfélaganna nýgerðan samning við SGS sem endanlegt tilboð sitt. Því hafnaði samninganefnd AFLs. AF hálfu AFLs var bent á að í kröfugerð AFLs var að finna atriði sem ekki hafa kostnað í för með sér heldur tilfærslur eða skýringar og því óskiljanlegt að viðræðum um slík atriði sé hafnað án útskýringa.

Ennfremur vakti samninganefnd AFLs athygli á því að á meðan samningsumboð sveitarfélaganna liggur hjá Launanefnd - vísuðu samningamenn Launanefndarinnar fjölmörgum atriðum til úrlausnar heima í héraði. Vakti það spurningar um hvar samningsumboðið raunverulega væri.

Fulltrúar í samninganefnd AFLs vöktu athygli á því að á meðan góðærið hefði látið bíða eftir sér í flestar byggðir Austurlands virtist sem kreppan kæmi með hraðsendingu að sunnan. Yfirborganir sem tíðkast hefðu á höfuðborgarsvæðinu hefðu ekki staðið til boða á Austurlandi.

Fyrir AFL sátu fundinn Guðbjörg Friðriksdóttir, grunnskóla Egilsstaða, Jóhanna Garðarsdóttir, leikskóla Neskaupstað, Sigríður Dóra Sverrisdóttir, leikskóla Vopnafirði, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, AFL, Sverrir Albertsson, AFL.