AFL starfsgreinafélag

Ekki ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli - lokast orlofsíbúðir AFLs í Reykjavík?

verkfall frettMyndin:  Af fréttibréfi AFLs í síðustu viku.

Starfsmenn Íslandshótela fara nokkuð á milli hótela en eru ekki aðgreindir á skilagreinum til stéttarfélaga, þannig að AFLi er ómögulegt að vita hvort einhverjir félagsmanna AFLs eru nú við vinnu á þessum hótelum.

Ef svo er – eiga viðkomandi starfsmenn að leggja niður vinnu með Eflingarfélögum. Þeir félagsmenn AFLs sem þannig leggja niður vinnu – geta síðan sótt um verkfallsbætur til AFLs.

Við munum senda erindi á alla starfsmenn Íslandshótela sem eru í AFLi og vekja athygli þeirra á þessu. Jafnframt munum við beina því til þeirra að félagsmenn AFLs gangi ekki í störf félaga okkar í Eflingu sem leggja niður störf. Ef átök Eflingar og SA harðna svo í kjölfarið og boðað verður til umfangsmeiri verkfalla, þ.m.t. starfsmanna við almenna ræstingu – verður íbúðum AFLs við Stakkholt lokað.

Þeir félagsmenn sem eru í íbúðum þegar verkfall skellur á – verður leyft að ljúka dvöl sinni þar, en leigur sem  byrja eftir að verkfall hefst, verða felldar niður og félagsmönnum AFLs endurgreidd leigan. Íbúðirnar munu því lokast smátt og smátt og loks verður húsinu öllu lokað á meðan verkfalli stendur. Við beinum því líka til félagsmanna AFLs að gista ekki á einum af þessum hótelum sem fyrsta verkfallið nær til – á meðan á því stendur.

Stýrivaxtahækkun í boði ríkisstjórnarinnar

percent

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands gagnrýnir harðlega stýrivaxtahækkun Seðlabankans sem tilkynnt var í morgun. Meginvextir bankans eru nú 6,5% og hafa ekki verið hærri í þrettán ár. Hækkunin kemur í kjölfar vaxandi verðbólgu en hækkun vísitölunnar í janúar mátti fyrst og fremst rekja til ákvarðana ríkisstjórnarinnar. Miðstjórn ASÍ mun boða til formannafundar til að ræða viðbrögð og aðgerðir.
Verðbólga mælist 9,9%. Miðstjórn hafnar því að skýringuna sé að finna í kjarasamningum á almenna vinnumarkaðinum. Aðilar vinnumarkaðarins voru sammála um að samningarnir myndu ekki ýta undir verðbólgu. Seðlabankinn verður að líta sér nær, að stórum hluta má rekja verðbólguna til heimatilbúinnar fasteignabólu og alþjóðlegra verðhækkana.


Miðstjórn Alþýðusambandsins hefur áður vakið á því athygli að hér eru ekki að verki óumbreytanleg lögmál. Ríkisstjórn Íslands ákvað með samþykki þeirra þriggja stjórnmálaflokka sem að henni standa að blása í glæður verðbólgu með hækkunum á ýmsum sköttum og gjöldum. Nú blasa afleiðingar þeirra fráleitu ákvörðunar við almenningi. Vextir hækka, húsnæðislánin og húsaleiga verða enn þyngri í vöfum og kjörin verri en áður. Allt eru þetta mannanna verk og líkt og jafnan koma slíkar aðgerðir verst niður á þeim sem búa við erfiðustu afkomuna.


Aðgerðarleysi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur gengur þvert á viðtekin viðbrögð í nágrannalöndum þar sem ráðamenn beita tækjum ríkisvaldsins til að lina áhrif afkomukreppunnar og vinna skipulega að því að hemja verðbólgu. Í þeirri staðreynd birtist forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og sinnuleysi gagnvart afkomu fólksins í landinu.

Vafasamt skref ríkissáttasemjara - íhlutun um innri málefni verkalýðsfélaga

AFL Starfsgreinafélag skorar á ríkissáttasemjara að draga til baka miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og Samtaka Atvinnulífsins og gefa deiluaðilum tækifæri til að útkljá deiluna.  Það eru engin efnisleg rök fyrir miðlunartillögunni á þessum tímapunkti.  Atkvæðagreiðsla um verulega takmarkað verkfall stendur yfir, hvorki þjóðarhagsmunir né almannahagsmunir eru í hættu.

Krafa ríkissáttasemjara um kjörskrá Eflingar er krafa um persónu-og atvinnuupplýsingar félagsmanna Eflingar og möguleika til úrvinnslu úr þeim skrám.  Hér er um að ræða „viðkvæmar persónuupplýsingar“ samkvæmt persónuverndarlögum og mjög vafasamt skref er stigið af embætti sáttasemjara í átt að íhlutun um innri málefni verkalýðsfélaga.  

Opið fyrir umsóknir um páska í orlofshúsum

orlof21

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um orlofshús um páska.  Tímabilið er 5 - 12. apríl.  Sótt er um á "mínum síðum" á www.asa.is og verður tekið við umsóknum til miðnættis 14. febrúar.  Úthlutað verður 15. febrúar og er greiðslufrestur á staðfestingagjaldi (kr. 5.000) til 20. febrúar.  Eindagi lokagreiðslu er síðan 15. mars.  Athugið - staðfestingagjald er ekki endurgreitt þó bókun sé felld niður síðar.

´Úthlutað er í orlofshús félagsins á Einarsstöðum, Illugastöðum, Ölfusborgum, Minniborgum og í Klifabotni í Lóni. Alls eru 23 orlofshús í boði.  Ekki er úthlutað í orlofsíbúðir félagsins og gildir þar "fyrstur kemur - fyrstur fær".   

Lokað og starfsmenn sendir heim launalausir! Closed  -  and staff sent home!

Tvhus
Mynd úr myndasafni AFLs

Félagsmenn hafa verið að spyrjast fyrir um rétt til launa þegar fyrirtæki loka tímabundið um jól, áramót eða jafnvel lengur.

Þetta virðist helst tengjast ferðaþjónustunni ýmist hótelum eða veitingahúsum.

Það er alveg skýrt í kjarasamningum að ekki er hægt að loka vinnustað og senda starfsmenn heim launalaust.

Vaktavinnufólk í þessum störfum vinnur sér inn vetrarfrí, 12 daga á ári hafi þeir starfað allt árið og eru þeir teknir út í launuðum fríum yfir vetrartímann.

Heimilt er að þeir gangi upp í lokunartíma fyrirtækjanna á þessum árstíma sé það skipulagt með nægum fyrirvara.

Almenna reglan bæði í þessum störfum og öðrum, er að fyrirtæki getur ekki sent starfsfólk launalaust heim.

 

 

Our members have been in touch with the union about their right to salary when companies close temporarily f. ex. for Christmas and New Year and the staff is sent home.  It seems that hotels and restaurants staff is especially likely to be sent home.

Our contracts are very clear on this – companies can´t close shop and send their staff home without pay.  So if your employer closed his business for a few days and told you to stay home – he still needs to pay your salary.

AFLs members working in hotels and restaurants and work shift work – earn 12 salaried days off a year. These days can be used against „closed shop“ days – but the employer needs to plan this with sufficient notice.

The general rule is – no one can be sent home without pay.

Aðalfundi Sjómannadeildar frestað

Aðalfundi Sjómannadeildar AFLs sem vera átti á morgun kl. 14:00 er frestað vegna veðurs og færðar.  Allt miðausturland er nú á kafi í snjó og illfært á milli staða.  Búast má við að snjóruðningsmenn eigi í fullu fangi við að opna milli staða á morgun og að óþarfi sé að flækjast fyrir þeim við þessar aðstæður.

Fundurinn verður haldinn snemma í janúar og þá boðið upp á þátttöku á fjarfundi.