Nýtt fréttabréf AFLs er komið út en einu sinni á ári gefur félagið út þematengt fréttabréf í sérstöku broti. Að þessu sinni fjallar fréttabréfið um flokkspólitísk tengsl verkalýðshreyfingarinnar í gegnum árin. Alþýðusamband Íslands var í upphafi "verkalýðsarmur" Alþýðuflokksins svipað og er jafnvel enn fram á þennan dag á Norðurlöndunum hinum. Átök Alþýðuflokksfólks við Sósíalista og Kommúnista innan hreyfingarinnar ágerðust um miðja síðustu öld og einnig fóru hægri menn að blanda sér í baráttuna og Verslunarmannafélag Reykjavíkur var að lokum "dæmt" inn í Alþýðusambandið sem hafði neitað VR um aðild því það félag var lengi undir stjórn Sjálfstæðismanna.
Rætt er við nokkra fyrrum forystumanna Alþýðusambandsins sem tengdir voru inn í flokksstjórnmálin. Þá er rætt við nokkra trúnaðarmanna AFLs og loks er "drottningarviðtalið" við sameiningarsinnann Sigurð Hólm Freysson, varaformann AFLs, en hann stóð m.a. að sameiningu sveitarfélaga í Fjarðabyggð, sameiningu Lífeyrissjóða Austurlands og Norðurlands í Stapa Lífeyrissjóð og sameiningu stéttarfélaga á Austurlandi í AFL Starfsgreinafélag. Þá er og skemmtilegt viðtal við Smára Geirsson á Neskaupstað - en enginn er fróðari um sögu verkalýðshreyfingarinnar á Austurlandi en hann.
Þá er boðið upp á stjórnmálaprófið í blaðinu. Ertu sósíalisti, vinstri eða hægri krati eða kannski bara frjálshyggjupési?
"Mínar síður" - MÍNAR SÍÐUR- MY PAGES - MOJE STRONY - MOJE STRÁNKY - MANO PUSLAPIS! - MOJE STRANE - AFLs Starfsgreinafélags eru nú á sjö tungumálum: Íslensku, ensku, pólsku, tékknesku, rúmensku, litháísku og serbnesku /króatísku. Unnið hefur verið að fjölgun tungumála síðustu vikur og hefur félagið leitað til félagsmanna eftir þýðendum. Enska og pólska útgáfan er fengin hjá Lingua Norðan Jökuls sem er þýðingarþjónusta á Egilsstöðum. Þýðendur á tékknesku, rúmensku, litháísku og serbnesku eru fengnir meðal félagsmanna.
Það eru um 4.000 orð og hugtök sem eru þýdd á "mínum síðum" sem þýðir að félagsmenn geta leigt orlofshús og íbúðir, sótt um sjúkra-og menntastyrki og leitað sér upplýsinga á mínum síðum á sínum tungumálum. Um 70% félagsmanna AFLs eru með íslenskt ríkisfang en fjölmennasti hópur félagsmanna þar fyrir utan er með pólskt ríkisfang - þar á eftir koma félagsmenn með tékkneskt ríkisfang, svo rúmenskt og loks litháískt.
Ef bætt verður við tungumálum verður spænska næst fyrir valinu því þar er vaxandi fjöldi félagsmanna.
Gefnir hafa verið út fjórblöðungar með leiðbeiningum um "mínar síður" á þessum tungumálum öllum nema rúmensku - en sá bæklingur er væntanlegur á næstu dögum.
Íslenska flugmannafélaginu (ÍFF) (flugmenn og flugliðar Play) hefur verið neitað um inngöngu í Norræna flutningamannasambandið (NTF) vegna augljósra galla á núverandi kjarasamningi félagsins við sína umbjóðendur.
Íslensku stéttarfélögin sem eiga aðild að Norræna flutningasambandinu (Flugfreyjufélag Íslands, Félag Íslenskra atvinnuflugmanna, Flugvirkjafélag Íslands) lögðust gegn því að aðild (ÍFF) að sambandinu yrði endurnýjuð þar sem ÍFF gerði kjarasamning án aðkomu þeirra sem samningnum var ætlað að taka til, þ.e. flugfreyja og flugþjóna.
Íslenska flugmannafélagið (ÍFF) átti aðild að Norræna flutningasambandinu á árunum 2017-2019 en eftir gjaldþrot WOW-air í mars 2019 var aðildin dregin til baka. ÍFF sótti um endurnýjaða aðild í sumar en var hafnað með áðurnefndum rökum. NTF hvetur ÍFF til að gera bragarbót á núgildandi kjarasamningi við flugliða hjá Play hið fyrsta.
Með fyrirhugaðri sölu á dreifikerfi íslenska símakerfisins til erlendra fjárfesta er vegið að almannahagsmunum. Fjárfestar um heim allan sækja mjög í að fjárfesta í svokölluðum innviðum – þ.e. grunnkerfum hvers samfélags af því þar eru tekjur öruggar og áhætta lítil. Uppbygging var kostuð af skattfé almennings en hagnaðurinn er einkavæddur.
Á Íslandi er starfrækt „þjóðaröryggisráð“ en fæstir vita hvað það ráð gerir. Árið 2016 samþykkti Alþingi „Þjóðaröryggisstefnu“ þar sem m.a. er fjallað um „netöryggi og „áframhaldandi uppbyggingu á eigin getu...“ og ennfremur „ógnum við fjármála-og efnahagsöryggi.“ Þrátt fyrir þessa stefnu hafa stjórnvöld setið aðgerðarlaus á meðan greiðslukortamiðlun á Íslandi hefur öll færst í eigu erlendra aðila og nú á meðan unnið er að sölu á grunnkerfi fjarskipta.
Stjórn AFLs Starfsgreinafélags krefst þess að stjórnvöld grípi þegar til aðgerða til að tryggja hagsmuni almennings og stöðvi þegar í stað fyrirhugaða sölu á einni helstu grunnstoðum nútímasamfélags úr landi og leysi kerfið þess í stað til sín og komi í almannaeigu eins það var uppbyggt. Einnig að koma þegar í stað upp innlendri greiðslukortamiðlun í umsjón Seðlabankans.
Á sama hátt gerir stjórn AFLs þá kröfu til Þjóðaröryggisráðs og alþingis að skilgreindir verði hið fyrsta þeir grunnþættir samfélagsins sem falla undir þjóðaröryggi og almannahagsmuni og ráðstafanir gerðar til að hindra að með þá verði farið sem hvern annan varning á frjálsum markaði. Á þetta m.a. við um öll samgöngumannvirki, fjarskipti, heilbrigðisþjónustu og greiðslumiðlunarkerfi.
Grunnstoðir hvers samfélags hafa verið byggðar upp fyrir almannafé – oft af litlum efnum og með miklum fórnum almennings. Einkavæðingaræði síðustu áratuga hafa fært þessa innviði í einkaeigu þar sem hagnaðurinn fer allur í vasa auðmanna. Yfirleitt eru þessir „innviðir“ í nánast einokunarstöðu á sínum markaði og samkeppni illmöguleg.
Frekari uppbygging og viðhald innviða er þá komið í hendur einkaaðila og vogunarsjóða frekar en sem stefnumótun stjórnvalda. Þessi þróun hefur orðið víða um heim og hér á landi er fyrsti fasinn þegar hafinn með einkavæðingu símans og „ohf“ væðingu póstþjónustu og ríkisútvarpsins og hlutafélagavæðingu annarra ríkisfyrirtækja svo sem flugvalla landsins. Auðmenn á Íslandi sem og erlendis bíða eftir að fá eignarhald á orkufyrirtækjunum og yfirleitt öllu því sem unnt er að hagnast á.
Almenningur situr síðan eftir með hærri þjónustugjöld og lægra þjónustustig.
Samþykkt á fundi stjórnar AFLs Starfsgreinafélags 28. október 2021
Ályktun miðstjórnar ASÍ um fyrirhugaða sölu á Mílu
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands varar sterklega við sölu á grunnneti íslenska símakerfisins úr landi. Innviðir fjarskiptakerfisins eru dæmi um starfsemi sem í eðli sínu ber helstu einkenni náttúrulegrar einokunar þar sem mikill kostnaður við að setja upp slíkt kerfi kemur í veg fyrir samkeppni. Slík einokun getur verið mjög kostnaðarsöm fyrir almenning, fyrirtæki og opinbera aðila þar sem ákvarðanir um verðhækkanir eru teknar einhliða og neytendur eiga ekki í önnur hús að venda. Áhrifin geta oft margfaldast í tilfelli dreifðari byggða.
Um allan heim leitast fjármagnseigendur við að komast yfir samfélagslega innviði þar sem innkoman er stöðug en einnig mögulegt að draga fjármagn út með einföldum hætti. Þar geta skapast óeðlilegir hvatar til að draga úr fjárfestingum og viðhaldi, selja eignir og skilja eftir lítið annað en skel utan um starfsemina. Slík hætta er raunveruleg og í tilviki Mílu er ljóst að íslenskt samfélag sæti uppi með kostnaðinn, auk þess sem röskun á starfsemi Mílu gæti hamlað eðlilegu gagnverki samfélagsins. Áhættan liggur því hjá íslenska ríkinu og þar með íslenskum almenningi, ekki hjá erlendum fjárfestum. Gróði eigenda Símans getur orðið skammgóður vermir, en þar á meðal eru nokkrir lífeyrissjóðir sem samanlagt fara með meirahlutaeign og bera skyldur gagnvart samfélaginu öllu.
Miðstjórn ASÍ krefst þess að stjórnvöld grípi til aðgerða til að tryggja almannahagsmuni í málinu og bæti þannig fyrir fortíðarmistök þegar grunnnet símakerfisins var einkavætt samhliða sölu á Símanum. Hagsmunir sem varða þjóðaröryggi eru aðeins einn hluti af stærra vandamáli. Ekki nægir að vísa til umræðu á vettvangi Þjóðaröryggisráðs sem fram fer fyrir luktum dyrum, enda snertir þetta mál samfélagið allt, uppbyggingu þess og atvinnulíf. Stjórnvöldum ber að standa vörð um grunninnviði landsins og tryggja að þeir séu í samfélagslegri eigu.
Viðhorfskönnun sem Gallup framkvæmir fyrir AFL Starfsgreinafélag og Einingu Iðju hefst í dag. Þrjú þúsund félagsmenn þessara tveggja félaga eru að fá í dag eða næstu daga bréf með boði um þátttöku í könnuninni. Bréfin fara út á íslensku, ensku og pólsku - allt eftir þjóðerni viðtakenda.
Úrtakið eru 1.500 félagsmenn hvors félags sem fengið er með slembiúrtaki úr félagaskrá félaganna. Í bréfinu sem félagsmenn fá er gefin upp vefslóð þar sem unnt er að svara könnuninni en síðan verður ítrekað við þá sem ekki svara - með tölvupósti og/eða símtali.
Síðustu ár hefur þátttaka verið allgóð eða um og yfir 50% svörun. Í boði eru happadrættisvinningar til þeirra sem svara. 20 félagar (10 úr hvoru félagi) fá 15.000 króna gjafabréf þegar könnun er lokið. Síðan þegar könnun er lokið eru dregnir út 8 vinningar - tveir að verðmæti kr. 150.000, tveir að verðmæti kr. 50.000 og síðan 4 vinningar með vikudvöl í orlofsbústöðum eða íbúðum félaganna utan úthlutunartímabila.
Hluti spurninganna í könnuninni eru hefðbundnar og tengjast stöðu á vinnumarkaði, vinnutíma, dagvinnulaunum og heildarlaunum. Eru félagsmenn hvattir til að hafa launaseðil (september) við hendina þegar könnuninni er svarað.
Þá er spurt um viðhorf til félaganna, kröfugerð við gerð næstu kjarasamninga, starfsumhverfi, áhrif Covid á starfshlutfall, veikindi og slys, trúnaðarmenn á vinnustöðum, réttindi og brot á kjarasamingum og ýmislegt fleira sem félögin kanna meðal félagsmanna með reglubundnum hætti.
Félagsmenn eru hvattir til að taka þátt í könnuninni og þannig aðstoðum við hvert annað í að gera okkur grein fyrir því hvar skóinn kreppir og hvar áherslur félagsmann liggja.
Fyrri kannanir AFLs eru allar fyrirliggjandi á heimasíðu félagsins https://asa.is/afl/um-afl/launakonnun og á sama hátt er hægt að nálgast viðhorfs / launakannanir Einingar Iðju og annarra félaga á heimasíðum þeirra félaga.
Stjórn ASÍ UNG lýsir yfir fullum stuðning við Eflingu í baráttu félagsins vegna uppsagnartrúnaðarmanns hjá Icelandair á Reykjavíkurflugvelli. ASÍ UNG telur að með þessari framgöngu Icelandair og Samtaka Atvinnulífsins (SA), sem samkvæmt Eflingu hafa staðið með uppsögninni, er verið að gera alvarlega aðför að uppsagnarvernd trúnaðarmanna á vinnustöðum en sú vernd er grundvallarstoð innan stéttarfélaga til að viðhalda vinnufrið í störfum sínum í þágu félagsmanna.
Skýrt er tekið fram í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur (80/1938) að trúnaðarmenn skuli eigi gjalda fyrir störf sín í þágu félagsins eða vera í hættu á að sæta uppsögn vegna slíkra trúnaðarstarfa: Stjórn ASÍ UNG fordæmir þessar aðgerðir Icelandair og afstöðu SA, ekki er hægt að túlka þær á annan hátt en sem aðför að réttindum íslenskra launamanna til að sinna félagsstörfum.
Að lokum skorar ASÍ UNG á Icelandair að draga uppsögnina til baka og gangast við mistökum sínum.