AFL starfsgreinafélag

Starfsmaður 21. aldarinnar

Vilt þú vera starfsmaður 21. aldarinnar!

Vefst tæknin fyrir þér? Stígðu fyrsta skrefið inn í tækniheiminn með Mími! Síðasta tækifæri til að skrá sig því  námskeiði hefur verið frestað svo enn er hægt að hafa samband við Mimi og tryggja sér pláss. 

Námskeiðið er að fullu niðurgreitt fyrir félagsmenn AFLs og kennt í fjarkennslu svo þátttakendur hvar sem er geta tekið þátt.

sjá nánar

Launagreiðendur geta ekki tekið sér opinbert vald!

njósnirAð gefnu tilefni er rétt að upplýsa fólk um að launagreiðendur hafa ekkert vald til að takmarka ferðafrelsi fólks né að krefjast upplýsinga um ferðalög eða persónulegt líf fólks.  Nokkuð hefur borið á því að undanförnu að fyrirtæki eru að leggja skyldu á starfsfólk að það tilkynni um ferðir sínar t.d. til Reykjavíkur.  Ennfremur að fólk eigi að tilkynna verkstjóra ef það fær gesti frá t.d. Reykjavík.  Þá eru dæmi þess að fyrirtæki hafi tilkynnt að þeir sem ferðist til höfuðborgarsvæðisins eigi að fara í sóttkví á eftir og það launalausa.  Fyrirtæki hafa engan rétt á að setja fólk í sóttkví og svipta það launum vegna "sóttvarnaraðgerða". 

Í þessum Covid faraldri sem nú geysar vilja allir leggja sitt af mörkum til að bæla útbreiðslu veikinnar - en fólk ræður sjálft sínum ferðum og ræður sjálft hverja það fær í heimsókn eða hefur samneyti við.  Fólki ber engin skylda til að tilkynna launagreiðenda um neitt í sínu einkalífi nema það kjósi það sjálft.  Á sama hátt ber fólki engin skylda til að upplýsa verkstjóra um neitt varðandi sitt heilsufar nema hvort það er vinnufært eða ekki - eða í lögskipaðri sóttkví eða ekki.

Kjósi fólk að upplýsa launagreiðanda um ferðir sínar eða um heilsufar - þá gerir fólk það af eigin frjálsum vilja en ekki vegna boðvalds launagreiðanda.

Ferðist fólk um landið og launagreiðandi vill ekki fá viðkomandi inn á vinnustað í einhverja daga á eftir - ber launagreiðanda að greiða laun á meðan.  Gefi sóttvarnaryfirvöld fyrirmæli um sóttkví gilda að sjálfsögðu lög um laun í sóttkví.

Við hvetjum félagsmenn til þess - að þrátt fyrir að viljum öll standa saman á þessum tíma - að láta ekki ganga á rétt okkar til friðhelgis einkalífs, rétt okkar til ferðafrelsis og á rétt okkar til friðhelgis heilsufarsupplýsinga.

Forseti Alþýðusambands Íslands, Drífa Snædal, fjallar um þetta í föstudagspistli sínum og segir m.a.:

"Þessa dagana reynir á okkur öll í sóttvörnum en besti árangurinn hefur náðst þegar það samtakamátturinn er virkjaður og allir leggjast á eitt. Þegar daglegu lífi eru settar skorður þarf að gæta þess afar vel að ekki sé þrengt að fólki meira en nauðsyn er. Fréttir hafa borist af því að fyrirtæki hlutist til um hverja starfsfólk megi hitta í sínum frítíma og jafnvel að skikka fólk í launalausa sóttkví ef ekki er farið að reglum fyrirtækja umfram almenn tilmæli stjórnvalda. Slíkt er ólöglegt!
Fyrirtæki geta ekki skert ferða- eða persónufrelsi umfram það sem stjórnvöld gera og ég hvet launafólk til að hafa strax samband við sitt stéttarfélag ef fyrirtæki sýna tilburði í þessa átt. Ástandið núna má ekki verða til þess að vega að mannréttindum eða að atvinnurekendur taki sér vald yfir einkalífi starfsfólks."

Hækkun á skiptaverði!

skiptaverð

Vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði á olíu milli viðmiðunartímabila sem ákvarðar skiptaverð til sjómanna þá hækkar skiptaverðið í október sem hér segir:

Þegar afli er seldur til skyldra aðila innanlands verður skiptaverðið í október 72,5% af heildar aflaverðmætinu (ath. þó ágreining við SFS um þetta, en málið verður útkljáð í Félagsdómi á næstunni).

Þegar afli er seldur óskyldum aðila innanlands verður skiptaverðið í október 72% af heildar aflaverðmætinu.

Þegar frystiskip selur afla með FOB söluskilmálum verður skiptaverðmætið í október 73% af verðmætinu en 67,5% ef selt er með CIF söluskilmálum.

Þegar rækja er fryst um borð verður skiptaverðmætið í október 70% af FOB verðmætinu og 64,5% af CIF verðmætinu.

Þegar afli er fluttur út í gámum er skiptaverðið 72% af verðmætinu að frádregnum flutnings- og sölukostnaði.

Olíuverð hefur ekki áhrif á skiptaverð þegar siglt er með aflann til sölu í erlendri höfn. Skiptaverðið er 70% af söluverðmætinu þegar uppsjávarfiski er landað erlendis og 66% af söluverðmætinu þegar botnfiski er landað í erlendri höfn.

Að öðru leyti er vísað á heimasíðu SSÍ (www.ssi.is) um skiptaverðið.

Lágstemmdur aðalfundur AFLs

Adalf2018

Mynd frá aðalfundi AFLs 2018

Skv. hefð eru aðalfundir AFLs Starfsgreinafélags haldnir á laugardögum og enda með glæsilegum kvöldverði og samverustund.  Í ár hefur stjórn félagsins frestað því að halda aðalfund þar sem miklar fjöldatakmarkanir voru í gildi á hefðbundnum fundartíma í apríl.  Nú hefur verið boðað til fundarins enda liggja fyrir fundinum lögboðin verkefni svo sem stjórnarkjör og samþykkt ársreikninga og ljóst að honum verður ekki frestað lengur.

Ennþá er nokkur óvissa v. Covid 19 og því má búast við að fundurinn verði nokkuð óvenjulegur.  Starfsfólk félagsins fer fram á það við félagsmenn að þeir skrái sig til þátttöku svo unnt verði að gera ráðstafanir í tíma til að tryggja fjarlægðarmörk og aðrar sóttvarnir.  Þrátt fyrir þessi tilmæli verður fullgildum félagsmönnum að sjálfsögðu ekki vísað frá fundarstað þó þeir hafi ekki skráð sig - en ef einhver fjöldi félagsmanna mætir án þess að hafa boðað komu sína getur það valdið töfum á meðan fjarlægðarmörk eru tryggð.

Að loknum fundi verður boðið upp á flatbökur.

Stjórn og starfsfólk félagsins vonar að félagsmenn virði sóttvarnarreglur og sýni tillitssemi þar sem margir félagsmanna okkar vinna með fólki í áhættuhópum og það er því ábyrgðarhluti að stefna saman stórum hópi fólks án tilheyrandi ráðstafana.

Það fer síðan eftir gangi mála á fundinum hversu langur hann verður en formaður mun hafa skýrslu stjórnar í styttra lagi og reikningar félagsins verða kynntir í styttra máli en verið hefur þannig að reynt verður að hraða störfum á fundinum eftir bestu getu.  Það verður hins vegar opið fyrir umræður og fyrirspurnir og engu máli hraðað svo að málsmeðferð beri skaða af.

Þeim félagsmönnum sem vanir eru ýtarlegri fundum og hefðbundinni samverustund að loknum aðalfundi - skal bent á að næsti aðalfundur ætti að vera eftir 6  - 7 mánuði og hafi þá tekist að koma böndum á Covid farsóttina - verður hann með hefðbundnum hætti.

Aðalfundur AFLs 2020

Arsf 2016v

Mynd frá aðalfundi AFLs 2016

Boðað er til aðalfundar AFLs Starfsgreinafélags mánudaginn 28. september 2020, klukkan 17:00 í félagsheimilinu Skrúði á Fáskrúðsfirði.  Boðið verður upp á léttan kvöldverð að fundi loknum.

Dagskrá:

  • Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár
  • Reikningar félagsins kynntir bornir upp til samþykktar
  • Lagabreytingar
  • Breytingar á reglugerð sjúkrasjóðs
  • Kjör stjórnar, varastjórnar og trúnaðarráðs
  • Kjör félagslegra skoðunarmanna
  • Kjör til annarra stjórna og ráða félagsins sbr. lög þess
  • Ákvörðun félagsgjalds
  • Önnur mál
    • Laun stjórnar
    • Kosning fulltrúaráðs Stapa
    • Framlag í menntasjóð IMA

Af sóttvarnarástæðum óskum við eftir að félagsmenn tilkynni um þátttöku á fundinum fyrirfram svo unnt sé að gera ráðstafanir vegna fjöldatakmarkana.  Tilkynnið þátttöku á næstu skrifstofu eða með pósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Ferðir verða skipulagðar af skrifstofum félagsins – hafið samband við næstu skrifstofu.

Ársreikningar félagsins, tillögur að laga og reglugerðarbreytingum liggja frammi á skrifstofum félagsins.

AFL Starfsgreinafélag

Aðalfundur Iðnaðarmannadeildar AFLs

Idnadarmadur

Boðað er til aðalfundar Iðnaðarmannadeildar AFLs Starfsgreinafélags 2020  mánudaginn 21. september kl. 17:00

Fundurinn verður haldinn að Búðareyri 1, Reyðarfirði en einnig verður unnt að vera þátttakandi á fundinum í "fjarfundi." félagsmenn sem vilja taka þátt í fundinum tilkynni þátttöku með tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og fá þá um hæl boð um þátttöku.  Tekið verður við þeim skráningum fram að upphafi fundar.

Dagskrá:

1. Kjaramál

2. Skýrsla formanns

3. Kjör stjórnar

4. Önnur mál

Kosið verður um varaformann deildarinnar og tvo meðstjórnendur.  Þá verður einn varamaður í stjórn í kjöri.