AFL starfsgreinafélag

Skrifstofa AFLs rústir einar - hamfarir á Seyðisfirði

rústir af tækniminjasafni ofl.

Ljós­mynd/​Tækni­m­inja­safn Aust­ur­lands, þarna eru væntanlega rústir af skrifstofu AFLs á Seyðisfirði í bland við aðrar rústir.

 

 

 

Skrifstofa AFLs á Seyðisfirði var í húsinu nr. 28 við Hafnargötu, svokallaðri Silfurhöll.  Það hús varð fyrir seinni skriðunni sem féll 18. des sl. og gereyðilagðist eins og fleiri hús sem lentu í þeirri skriðu.  Tjón félagsins í samhengi þessara hamfara - er léttvægt en þetta mun engu að síður hafa áhrif á starfssemi okkar á Seyðisfirði næstu mánuði eða misseri.  Þessi skrifstofa hefur reyndar verið með óreglulegan opnunartíma - þar sem starfsmaður okkar á Seyðisfirði hefur að mestu verið við störf á Egilsstöðum.  Skrifstofan hefur því mest verið notuð við einstök verkefni og eins hefur starfsmaður okkar á staðnum verið með viðveru á Seyðisfirði þegar heiðin er torsótt eða aðrar aðstæður kalla á.

Skriðuföllin á Seyðisfirði hafa haft víðtæk áhrif - og hefur félagið reynt að bregðast við þar sem við höfum getað orðið að gagni.  Orlofshús félagsins á Einarsstöðum urðu fljótt fullbókuð á föstudaginn en önnur verkalýðsfélög sem einnig eiga hús á Einarsstöðum buðu fljótt fram sín hús einnig.  Einhverjir félagsmanna munu væntanlega vera á Einarsstöðum eitthvað áfram á meðan unnið verður úr málum þeirra en nokkar fjölskyldur á Seyðisfirði hafa glatað öllu sínu í þessum hamförum.

AFL sendi björgunarsveitinni Ísólfi nokkurn fjárstuðning á föstudaginn og vonar stjórn félagsins og starfsfólk að það hafi komið sér vel á þessum átakatímum. Það tíðkast nú að segja að "hugur manns" sé hjá Seyðfirðingum. Það þarf varla að taka það fram á Austurlandi því vandfundinn er sá Austfirðingur sem ekki á fjölskyldu, ættar-eða vinatengsl við fjörðinn fagra sem nú er í sárum.

AFL - stjórn félagsins og starfsfólk sendir íbúum Seyðisfjarðar bestu kveðjur og ósk um að þeir nái með góðri aðstoð, að byggja bæinn sinn aftur upp og verja byggðina fyrir hamförum og að með bættum samgöngum nái Seyðisfjörður með sitt litríka mannlíf, vopnum sínum að nýju. 

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands sendi í morgun ábendingu til aðildarfélaga sambands um það hvort félögin gætu komið Seyðfirðingum til aðstoðar. Í því sambandi sendi Drífa félögunum reikningsupplýsingar Rauða Kross deildarinnar á Seyðisfirði og Björgunarsveitarinnar Ísólfs.  Einnig ábendingu til þeirra félaga sem eiga orlofshús á Héraði um húsnæðisvanda þeirra sem hafa misst allt sitt.  AFL og aðrir Austfirðingar þakkar Drífu fyrir þessa hvatningu til verkalýðsfélaga landsins.

 

Silfurhöllinn fyrir þennan atburð

Silfurhöllin

AFL og RSÍ tapa í félagsdómi

Alcoa

AFL Starfsgreinafélag og Rafiðnaðarsamband Íslans töpuðu í gær máli í Félagsdómi, sem háð var vegna  starfsmanna álvers ALCOA Fjarðaáls í Reyðarfirði.  Málið snerist um orlofsrétt vaktavinnustarfsmanna í álverinu en forsendur útreiknings á orlofi breyttust í vinnutímastyttingar sem gekk í gildi 2016.  ALCOA Fjarðaál hélt áfram að reikna orlof miðað við fyrri forsendur allt fram til 2020 en bar þá fyrir sig að um mistök hefði verið að ræða.

Orlof hafði fram til þess tíma verið þannig að úttekt orlofsstunda var 8 klst. fyrir hverja 8 klst. vakt.  Vaktavinnustarfsmaður með langan starfsaldur sem vann á 8 tíma vöktum átti t.d. 240 orlofsstundir sem hann gat nýtt til að taka 30 orlofsvaktir á launum. Þær vaktir gátu samkvæmt gildandi vaktakerfi dreifst á allt að 7 vikur í kjölfar vinnutímastyttingar vaktavinnustarfsmanna, væri orlof tekið samfellt. Byggðu stéttarfélögin m.a. á að sú framkvæmd væri í samræmi við orðanna hljóðan í kjarasamningi og þá venju sem hefði skapast, auk þess að benda á tilurð vinnutímastyttingarinnar og önnur atriði.

Mat félagsdóms var að orlofsdagar gætu flestir orðið 30, eða 6 vikur, miðað við starfsfólk skilaði vinnuframlagi sína virka daga vikunnar. Ákvarða þyrfti hversu margar orlofsvaktir viðkomandi starfsmaður ætti í orlof miðað við það vaktafyrirkomulag sem unnið væri eftir og þann dagafjölda sem viðkomandi ætti í orlofsrétt, þannig að heildar orlofsréttur vaktavinnustarfsfólks og dagvinnustarfsfólks yrði sá sami í vikum talið.

Félagsdómur taldi að ekki væri komin á „venja“ sem breytt gæti þessu og talið var að nýr orlofsútreikningur Alcoa rúmaðist innan kjarasamnings aðila og orlofslaga. Sá útreikningur fólk m.a. í sér að vaktavinnustarfsmaður sem ætti t.d. 30 daga orlofsrétt skyldi fá 26,65 orlofsvaktir.

Samninganefnd AFLs og RSÍ hefur setið á fundi um málið í dag.  Á mánudag slitnaði upp úr viðræðum þessara aðila við ALCOA Fjarðaál um endurnýjun kjarasamnings en gildandi kjarasamningur rann út 29. febrúar sl.  Á fundi samninganefndar félaganna sem lauk laust fyrir klukkan 16 í dag var samþykkt að vísa kjaradeilu félaganna við ALCOA Fjarðaál til Ríkissáttasemjara. 

AFL og RSÍ sjá dóminn í heild

Sveitarfélög sinna ekki samningsbundnu samráði við starfsfólk

Vinnutími

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af því hvernig gengur að innleiða og skipuleggja styttri vinnuviku hjá starfsmönnum sveitarfélaga.

Í kjarasamningum sem undirritaðir voru síðasta vor var samið um styttingu vinnuvikunnar. Í samningum er lögð áhersla á að það fari fram alvöru samtal milli starfsmanna og stjórnenda um fyrirkomulag og innleiðingu á hverri stofnun/starfsstöð  fyrir sig.

Nú er ljóst að innleiðingin gengur mun hægar en vonir stóðu til hjá sveitarfélögunum og mörg þeirra hafa annað hvort ekki sinnt samningsbundnu samráði við sína starfsmenn eða tekið sér það vald að ákveða fyrirkomulagið án aðkomu okkar fólks.

Fundurinn krefst þess að Samband íslenskra sveitarfélaga, sem fer með samningsumboð sveitarfélaganna, tryggi að sveitarfélögin í landinu standi við kjarasamninga og tryggi sínum starfsmönnum betri vinnutíma eins og um var samið.

 

(Fréttatilkynning frá Starfsgreinasambandi Íslands, 15. desember 2020)

Aðalfundur Sjómannadeildar AFLs

Sjomannadeild Rey

Aðalfundur Sjómannadeildar AFLs Starfsgreinafélags er boðaður mánudaginn 28. desember kl. 17:00 að Búðareyri 1 á Reyðarfirði.  Boðið verður upp á þátttöku í gegnum fjarfund fyrir þá sem þess óska.

1. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár

2. Kjaramál

3. Breyting á reglugerð Sjómannadeildar. Lögð fram tillaga um að grein 2 í reglugerð deildarinnar verði þannig;

  • 2. gr. Félagar Deildina skipa þeir félagar AFLs - Starfsgreinafélags sem á hverjum tíma starfa á bátum og skipum á félagssvæðinu.
    Þeir félagsmenn deildarinnar sem starfa sem einyrkjar á vinnumarkaði geta átt aðild að deildinni en njóta hvorki atkvæðisréttar eða kjörgengis. Ef félagsmenn eiga 5% eða meira í útgerð þar sem þeir vinna jafnfram sem launamenn fer um réttindi þeirra með sama hætti og um réttindi einyrkja. Ef félagsmenn eiga hlut í eða reka útgerð í skulu þeir sitja hjá í atkvæðagreiðslu um mál sem varðað gætu hagsmuni þess fyrirtækis.  (Breytingartillagan er skáletruð og blálituð)

4. Kosning stjórnar

5. Önnur mál

- ath. á fundinum verður fjallað um breytingu á reglugerð deildarinnar en lögð hefur verið fram tillaga um að einyrkjar í útgerð og félagsmenn sem eiga að lágmarki 5% í útgerðarfélagi hafi ekki atkvæðisrétt um kjarasamning um kaup og kjör sjómanna.  Þetta er sambærilegt ákvæði og er í öðrum deildum AFLs.

Svart útlit í efnahagsspá Alþýðusambandsins

hagspá así

Hagdeild Alþýðusambands Íslands spáir því að efnahagslegur bati verði fyrst sjáanlegur 2022 með 3,4% hagvexti. Á næsta ári er spáð 1,8% hagvexti og þá með því fororði að Covid faraldurinn verði á undanhaldi og alþjóðaflug komið af stað. Útlit er fyrir frekari samdrátt í einkaneyslu á síðari hluta ársins og að vöxtu á næsta ári verði hægur. Atvinnuleysi mun fara vaxandi og stefnir í 8,6% á fyrri hluta næsta árs en stefnir síðan í tæp 7% með viðsnúningi í ferðaiðnaði.

Verðbólga fer heldur vaxandi og er verðbólgumarkmið Seðlabanka um 3,3% á næsta ári. 2022 stefnir í að verðbólgumarkmið upp á 2,5% gætu orðið raunhæf.

Viðmiðunarreglur fyrir togararall 2020

Sjómannasamband Íslands, Farmanna-og fiskimannasambandið
og Félag Vélstjóra og málmtæknimanna hafa gefið út
viðmiðunarreglu um hvernig greiða skal hlut fyrir þátttöku í
togararalli Hafrannsóknarstofnunar.
Hlutaskipti skulu reiknast af þeim aflaverðmætum sem fást á
rallinu að viðbættum verðmætum veiðiheimilda sem útgerðin
fær fyrir þátttöku í rallinu.

 

Viðmiðunarregla þessi var gefin út 2015 en rétt er að árétta að hún er enn í fullu gildi.