AFL starfsgreinafélag

Ein þjóð í landinu?

Stjórn AFLs Starfsgreinafélags mótmælir harðlega framkomnum hugmyndum um afnám stuðnings við áætlunarflug á fáfarna flugvelli – s.s. Höfn á Hornafirði, Vopnafjörð og Þórshöfn.  Veðurskilyrði síðustu vikur hafa ítrekað sannað mikilvægi þess fyrir íbúa að hafa aðgang að áætlunarflugi þegar fjallvegir eru meira og minna illfærir.

Síðustu ár hefur ýmis þjónusta flust að verulegu leyti frá minni stöðum í kjölfar aukinna sérhæfingar. Því  verða allar samgöngur mikilvægari en ella.  Framboð á sérfræðiþjónustu t.d. í heilbrigðismálum er fábrotin á landsbyggðinni og þurfa því íbúar að sækja þjónustuna um langan veg.

Það þarf jákvætt hugarfar til að telja eina þjóð búa í landinu – þar sem nánast öll þjónusta hefur safnast á á höfuðborgarsvæðið. Ef það er vilji stjórnvalda að landið haldist í byggð og hér ríki eitthvað jafnræði meðal íbúa – er forgangsverkefni að tryggja öruggar samgöngur.

Komandi átök eru í boði stjórnvalda!

Stjórn AFLs Starfsgreinafélags hvetur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur til að koma til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar um aukinn jöfnuð á landinu með róttækum tillögum í skattamálum.

  AFL lýsir vonbrigðum með framkomnar hugmyndir ríkisstjórnarinnar um breytingar á álagningu skatta sem færir öllum – hálaunafólki sem láglaunafólki – skattalækkun. 

AFL bendir á að skattbyrði lág-og meðallaunafólks hefur hækkað verulega síðasta áratug. Ef ríkisstjórnin vill koma í veg fyrir harðar vinnudeilur á komandi vikum – þarf hún að koma til móts við sjálfssagðar og réttlátar kröfur verkalýðsfélaganna.

Félagsmenn verkalýðsfélaganna hafa tekið virkan þátt í uppbyggingu samfélagsins eftir bankahrun og þá kreppu sem græðgisvæðingin hrundi af stað fyrir 10 árum.  Á sama tíma og alþýðufólk hefur unnið að heilindum að uppbyggingunni hafa ofurlaun og sjálftaka fest sig í sessi aftur. Brask og spákaupmennska hefur hækkað verð á íbúðarhúsnæði upp úr öllu valdi. Skattbyrði hefur verið velt yfir á láglaunahópa, bæði beint og með auknum þjónustugjöldum.

Komandi átök á vinnumarkaði eru í boði stjórnvalda og sjálftökuliðsins.  Þolinmæði almennings er þrotin.

AFL Starfsgreinafélag mun halda áfram með félögum innan Starfsgreinasambandsins, Samiðnar og Landssambandi Ísl. Verslunarmanna að leita samninga við viðsemjendur – en lýsir um leið fullum stuðningi við baráttu félaga okkar í þeim félögum sem eru að boða til verkfalla.  Um leið hvetjum við félgasmenn AFLs til að virða væntanleg verkföll annarra verkalýðsfélaga og ganga alls ekki í störf félagsmanna þeirra.  Við vekjum athygli á því að ef einhverjir félagsmanna AFLs eru starfandi utan félagssvæðis AFLs – eiga þeir að ganga til verkfalla með verkalýðsfélögum á starfssvæði sínu

Ályktun samþykkt á fundi sjtórnar AFLs 25. febrúar 

Af samningamálum

Starfsgreinasambandið og landsamband íslenskra verslunarmanna hafa bæði vísað kjaradeilu við SA til ríkisáttasemjara og samninganefnd Samiðnar hefur samþykkt heilmild til formanns Samiðnar til þess að vísa.

AFL Starfsgreinafélag á aðild að öllum þessum samböndum með sínar deildir og er þátttakandi í þeirra viðræðum.

Þrátt fyrir vísun til ríkissáttasemjara verður látið á það reyna á næstu dögum hvort ljúka megi deilunni með kjarasamningi.

Stéttarfélögin fjögur sem áður höfðu vísað deildunni og fundað hafa í Karphúsinu síðustu vikurnar slitu í gær viðræðum við SA og undirbúningur að verkfallsaðgerðum kominn í gang.

Stjórnvöld kynntu í vikunni fyrirhugaðar breytingar á skattkerfinu í tenglum við kjarasamninga og ollu þær vonbrigðum. Fyrirhugaðar skattabreytingar eru rýrar en öllu jákvæðara er þó að þau eru að einhverju leyti tilbúin í að taka á launaþjófnaði og öðrum kjarasamningsbrotum auk lausnar í húsnæðismálum.

Kröfugerðir vegna samninga við sveitarfélögin annars vegar og Ríkisins hins vegar eru tilbúnar og óskað hefur verið eftir fundum með þeim aðilum til að fjalla um endurnýjun þeirra kjarasamninga en þeir renna út í lok mars.

Aðalfundur verslunar- og skrifstofudeildar

Verður haldinn í húsnæði félagsins að Víkurbraut 4 Hornafirði

Miðvikudaginn 27. febrúar 2019 kl. 20:00.

Fundarefni:

  1. Skýrsla formanns deildarinnar
  2. Kjaramál
  3. Stjórnarkjör
  4. Önnur mál.

AFL Starfsgreinafélag

Verslunar- og skrifstofudeild

Konur taka af skarið, Egilsstöðum 2. mars 2019

KonurSkarið

Viltu láta til þín taka og hafa áhrif á verkalýðsbaráttuna og samfélagið?

Laugardaginn 2. mars kl. 11:00 til 17:00 í sal AFLs Starfsgreinafélags, Miðvangi 2-4 Egilsstöðum.

Námskeiðið er opið öllum konum sem eru félagar í Starfsgreinasambandi Íslands eða í starfsmannafélögum sveitafélaganna, þeim að kostnaðarlausu. Skráning skal berast í síðasta lagi föstudaginn  28. febrúar á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í síma 461 4006.

Dagskrá:

  • Að bjóða kynjakerfinu birginn
  • Staða verkalýðsbaráttunnar í dag
  • Uppbygging verkalýðsfélaganna
  • Leiðtogaþjálfun
  • Að hafa áhrif og koma sínu á framfæri
  • Að starfa í verkalýðshreyfingunni

 

Á Íslandi þrífst þrælahald - forsetapistill

drifa

Í fréttum stöðvar 2 í gærkveldi var upplýst um ömurleg kjör og aðbúnað fjölda rúmenskra verkamanna. Laun hafa ekki verið greidd og aðbúnaður er allur hinn versti. Þeir búa saman sex í einu herbergi og eiga ekki peninga fyrir nauðsynjum. Þetta er ekki einsdæmi og því miður berast örugglega ekki öll svona mál til okkar því margir fara til síns heima aftur eftir að hafa verið beittir atvinnuofbeldi. Barátta verkalýðshreyfingarinnar til margra ára gegn félagslegum undirboðum og glæpastarfsemi á vinnumarkaði er ekki úr lausu lofti gripin og það er hreint hörmulegt að ekki sé enn komin aðgerðaráætlun í mansalsmálum og skipulagt samræmt eftirlit með öflugri eftirfylgni sem hefur að markmiði að uppræta þessa brotastarfsemi með öllum tiltækum ráðum.

Þegar svona mál koma til stéttarfélaganna bráðvantar að geta haft samband við einhvern ábyrgan aðila sem samræmir aðgerðir og mætir þörfum þolenda. Það þarf að tryggja öryggi fólks, redda húsnæði, mat og stundum heilbrigðisþjónustu auk þess að skipuleggja aðgerðir yfirvalda gegn fyrirtækjum. Allt þetta þarf að gerast fljótt, örugglega og fumlaust. Í dag höfum við ekki þetta skipulag og glæpamenn sem eru svo fégráðugir að þeim er sama um grundvallar mannréttindi geta þannig vaðið uppi nánast óáreittir. Þessi glæpafyrirtæki geta svo boðið lágt verð í framkvæmdir, jafnvel á vegum ríkis og sveitarfélaga því það er sannanlega ódýrara að fá þræla til verksins en fólk sem krefst launa.

Stöðvum þetta núna! Fjármögnum aðgerðaráætlun gegn mansali, komum á keðjuábyrgð, stöðvum kennitöluflakk, styrkjum útboðsskilyrði og þéttum og samræmum eftirlit og aðgerðir gegn brotafyrirtækjum! Ef við grípum ekki til aðgerða getum við allt eins gefið út yfirlýsingu um að okkur sé sama um að hér þrífist þrælahald. Allt þetta og meira til er að finna í tillögum í tengslum við kjarasamninga gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði. En það á ekki að þurfa þrýsting sem lausir kjarasamningar bjóða uppá til að taka á grundvallar mannréttindum. Það er mælikvarði á siðmenntað samfélag hvernig við komum fram við þau sem eru í viðkvæmustu stöðunni.

Góða helgi,
Drífa

Konur af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði - ný skýrsla

ErlendarKonur

Starfsgreinasamband Íslands sendi nýlega frá sér skýrslu um konur af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði. Það var Rannveig Gústafsdóttir sem vann rannsóknina fyrir SGS með dyggri aðstoð þriggja stéttarfélaga; Eflingar, Einingar-Iðju og Bárunnar.

Kveikjan að verkefninu var #metoo-byltingin sem kom fram síðasta vetur en í rannsókninni var þó ákveðið að einblína ekki sérstaklega á erlendar konur sem höfðu orðið fyrir brotum á vinnumarkaðnum heldur að athuga hvort stéttarfélögin á Íslandi gætu stutt betur við konur af erlendum uppruna og styrkt þar með þátttöku þeirra á vinnumarkaðnum. Staða erlendra kvenna var skoðuð, við hvaða skilyrði þær starfa, hvernig þær koma inn á vinnumarkaðinn og hvernig tekst að koma til þeirra upplýsingum um réttindi þeirra á vinnumarkaði.

settir voru saman fjórir rýnihópar sem samanstóðu af konum af erlendum uppruna. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að þeir félagsmenn sem þekktu til stéttarfélaganna voru almennt ánægð með þá þjónustu sem stéttarfélögin veita. Það sem þarf að athuga frekar eru gæði íslenskunámskeiða og leggja þarf frekari áherslu á tölvunámskeið fyrir fólk af erlendum uppruna með tillit til þess að flest sem viðkemur íslensku samfélagi fer fram í gegnum Internetið. Auk þess kom mikilvægi trúnaðarmannsins sterklega í ljós.

Í ljósi þess að Ísland í dag er fjölmenningarsamfélag er mikilvægt að upplýsingar stéttarfélaga komi fram á fleiri tungumálum en íslensku. Skýrslan sjá hér