Alþýðusamband Íslands og BRSB hafa stofnað íbúðafélag sem starfar í nýju íbúðarkerfi sem nú er verið að taka upp hér á landi. Íbúðakerfið byggir á danskri fyrirmynd og verður hagstæður og öruggur valkostur fyrir fólk á leigumarkaði.
Íbúðafélagið er sjálfseignastofnun sem starfar samkvæmt lögum um almennar íbúðir og er rekin án hagnaðarmarkmiða. Skilyrði er að íbúðirnar verði leigðar út til fólks með lágar- og meðaltekjur.
Íbúðafélagið hefur undirritað viljayfirlýsingu við Reykjavík og Hafnarfjarðabær um lóðir fyrir 1150 íbúðir á næstu 4 árum og mun undirbúningur framkvæmda vegna 180 íbúða hefjast á þessu ári. Samhliða þessum fyrstu skrefum vinnur íbúðafélagið að lausn fyrir sveitafélög á landsbyggðinni.
Óskað er eftir tillögum um nafn á félagið og er því blásið til nafna samkeppni. Nafnið skal vera þjált í notkun og gefa félaginu jákvæða ímynd.
Tillögum um nöfn má skila inn fyrir 16. október á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. Frjálst er að senda inn fleiri en eina tillögu.
Verðlaun kr. 50.000 verða veitt fyrir bestu tillöguna. Ef fleiri en einn leggja til vinningsnafnið verður vinningshafinn dreginn út.
Því ber að fagna að Landsvirkjun hefur samþykkt reglur um keðjuábyrgð, en reglunum er ætlað að tryggja að allir sem vinni fyrir Landsvirkjun á óbeinan hátt, hjá verktökum, undirverktökum eða starfsmannaleigum, njóti réttinda og kjara í samræmi við lög og kjarasamninga. Verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir þessum reglum í langan tíma og Starfsgreinasambandið hvetur önnur opinber fyrirtæki og stofnanir til að setja sér slíkar reglur líka.
Á heimasíðu Landsvirkjunar kemur fram að:
„Stjórn Landsvirkjunar samþykkti reglurnar á fundi sínum í lok ágúst. Ákvæði um ábyrgð verður héðan í frá sett inn í alla innlenda samninga Landsvirkjunar um innkaup, þ.e. verksamninga, vörusamninga og samninga um kaup á þjónustu. Samkvæmt ákvæðinu, sem sett verður inn í samninga Landsvirkjunar, skal verktaki tryggja og bera ábyrgð á að allir starfsmenn, hvort sem um ræðir starfsmenn verktaka, undirverktaka eða starfsmannaleiga, fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og önnur réttindi í samræmi við samninginn, gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni.
Að auki ber verktaki ábyrgð á og skal hafa í gildi og viðhalda tryggingum fyrir tjóni vegna slysa, veikinda, sjúkdóma, sjúkrakostnaðar eða dauða sem starfsmenn verktaka verða fyrir og rekja má til framkvæmda. Verktaki ber ábyrgð á að undirverktakar og starfsmannaleigur og starfsmenn þeirra hafi samskonar tryggingar.
Hingað til hafa samningar fyrirtækisins kveðið á um að mótaðilar – verktakar, undirverktakar og starfsmannaleigur – fari í öllu eftir lögum og samningum sem gilda á vinnumarkaði, en með nýja ákvæðinu er ábyrgðin nánar skilgreind, auk þess sem Landsvirkjun fær úrræði til að framfylgja því að reglunum sé fylgt, þar sem það kveður á um viðurlög, brjóti mótaðili gegn ákvæðinu eða veiti ekki umbeðnar upplýsingar.“ (Fréttin er af vef Starfsgreinasambands Íslands)
Trúnaðarráð AFLs hefur samþykkt að láta fara fram atkvæðagreiðslu meðal sjómanna í félaginu sem starfa á stærri skipum um boðum verkfalls. Slitnað hefur upp úr viðræðum milli sjómanna og útgerðarmanna. Samninganefnd sjómanna beindi því til félaganna að hefja undirbúning að aðgerðum, en áður höfðu sjómenn fellt kjarasamning sem gerður var fyrr í sumar. Felling hans voru skýr skilaboð til samninganefndarinnar að sjómenn væru reiðubúnir í aðgerðir til að ná fram ásættanlegum kjarasamningi. Kjarasamningar sjómanna hafa verið lausir í tæp 6 ár.
AFL er með kynningarbás og mun kynna starfsemi félagsins, á Stefnumóti geta íbúar kynnt sér starfsemi hinna ýmsu fyrirtækja og stofnana í sveitarfélaginu Hornafirði, sjá nánar hér
Niðurstaða liggur nú fyrir úr atkvæðagreiðslu sjómanna um kjarasamninginn milli SSÍ og SFS sem undirritaður var þann 24. júní síðastliðinn. Atkvæðagreiðslan var sameiginleg meðal félagsmanna aðildarfélaga Sjómannasambandsins. Á kjörskrá voru 1.739 og af þeim kusu 670 eða 38,5% þeirra sem voru á kjörskrá.
Í kjarasamningi milli aðildarfélaga ASÍ og SA frá 21. janúar 2016 var samið um hækkun mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð frá og með 1. júlí 2016. Í kjarasamningnum var kveðið á um þrepaskipta hækkun mótframlags atvinnurekenda í lífeyrissjóð og tók fyrsta breytingin gildi 1. júlí sl. Framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð hækkar og verður eftirfarandi:
2016: Framlag atvinnurekenda hækkar 1. júlí 2016 um 0,5% og verður 8,5%.
2017: Framlag atvinnurekenda hækkar 1. júlí 2017 um 1,5% og verður 10%.
2018: Framlag atvinnurekenda hækkar 1. júlí 2018 um 1,5% og verður 11,5%.
Frá og með 1. júlí 2016 hækkaði því mótframlag launagreiðenda úr 8% í 8,5%. Þeir atvinnurekendur sem hafa ekki gert viðeigandi breytingar í launakerfum sínum nú þegar eru hvattir til að gera slíkt hið fyrsta