AFL starfsgreinafélag

Sjálfboðaliðar við störf fyrir sveitarfélög

Félagsmenn hafa haft samband við skrifstofu AFLs vegna atvinnuþátttöku sjálfboðaliða á vegum erlendra samtaka hjá sveitarfélögum á félagssvæðinu. Vegna þessa hefur formaður AFLs m.a. sent Fjarðabyggð erindi þar sem segir:  

"Sjálfboðaliðastörf hjá sveitarfélögum.

AFL Starfsgreinafélag hafnar allri aðkomu sjálfboðalíða við vinnu á vegum sveitarfélaga innan þéttbýliskjarnanna. Sama gildir um verklegar framkvæmdir á vegum sveitarfélaganna bæði innan og utan þéttbýlis.

Það er skilningur félagsins að sjálfboðaliðastörf geti því aðeins átt við um fegrun fólksvanga og hreinsun á fjörum.

Reynt hefur verið mánuðum saman að fá viðræður við Sambands ísl. sveitarfélaga um samræmdar reglur um störf sjálfboðaliða hjá sveitarfélögunum án árangurs.

Á meðan svo er mun AFL Starfsgreinafélag halda sig við ofnagreinda skilgreiningu.

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir"

Félagið hefur kannað í viðhorfskönnunum meðal félagsmanna hversu algeng sjálfboðaliðastörf eru og virðist sem þeim hafi fækkað nokkuð milli ára - sjá mynd.  Félagið er að undirbúa átak í að ná persónulegu sambandi við þá sem starfa sem sjálboðaliðar og mun leitast við að fá þá til að heimila okkur að innheimta laun fyrir þá í þeim tilvikum sem sjálfboðaliðar starfa við efnahagslega starfssemi - þar sem vinnan hefði að öðrum kosti verið unnin af félagsmönnum AFLs.sjalfbodalidagraf

Launahækkun ríkisstarfsmanna

Laun félagsmanna sem starfa hjá ríkinu munu hækka um að 0,5 prósent frá síðustu áramótum (1. janúar 2018) vegna samkomulags um að launaþróun opinberra starfsmanna verði ekki lakari en á almennum vinnumarkaði (SAKEK) .Reglulega er skoðað hvort bæta þurfi opinberu starfsfólki upp launaþróun á almennum markaði og þetta var niðurstaðan að þessu sinni. Áður höfðu laun þessa hóps hækkað um að meðaltali 1,8% afturvirkt frá 1. janúar 2017, á grundvelli samkomulagsins.

Aðalfundur almennrar starfsgreinadeildar

Aðalfundur  almennrar starfsgreinadeildar AFLs Starfsgreinafélags verður haldinn

16. mars kl. 17:00 – að Búðareyri 1 Reyðarfirði

Dagskrá
1. Kjaramál
2. Skýrsla formanns deildar
3. Kjör stjórnar deildarinnar
4. Önnur mál

Stjórn alm. starfsgreinardeildar AFLs

Raki og mygla í húsum 2

Námskið „Raki og mygla í húsum 2“ verður haldið á Reyðarfirði 1. mars nk.  Þetta er framhald námskeiðsins „Raki og mygla í húsum 1“ sem haldið var í haust.  Það er ekki skilyrði fyrir þátttöku að hafa sótt fyrra námskeiðið. Sjá slóð á skráningu hér

Viljum uppsögn samninga!

"Þar sem forsendur  kjarasamninga eru brostnar að mati  ASÍ skorar stjórn og trúnaðarráð AFLs Starfsgreinafélags á samninganefnd Alþýðusambands Íslands að segja upp núgildandi kjarasamningi í samræmi við endurskoðunarákvæði hans. Gegndarlausar launahækkanir til æðstu embættismanna, þingmanna og annarra stjórnenda eru langt umfram það sem venjulegt launafólk fær og því eykst sífellt mismunun í samfélaginu.  AFL Starfsgreinafélag telur því rétt að segja upp samningum og freista þess að ná samningum við atvinnurekendur og ríkisstjórn um aukinn jöfnuð og réttlæti. Það er kominn tími á að stöðva græðgisvæðingu yfirstéttarinnar og snúa vörn í sókn."

Þetta varð niðurstaða á fundi stjórnar og trúnaðarráðs AFLs Starfsgreinafélags í gærkvöld þar sem um 40 félagar AFLs komu saman til að ræða viðhorf í kjaramálum. 

Launahækkun Ríkisstarfsmenn

Félagsmenn okkar sem starfa hjá Ríkinu fá nú í fyrsta sinn svokallaða launaskriðstryggingu sem gefur að meðaltali 1,8% hækkun á laun afturvirkt frá 1. janúar 2017.

Leiðréttingin kemur til útborgunar á flestum stöðum þann 1. mars.
Þetta er gert á grundvelli rammasamkomulags í tengslum við síðustu kjarasamninga til að tryggja að launaskrið á almenna vinnumarkaðnum nýtist líka starfsfólki hjá hinu opinbera sjá hér

Iðn- og tækninám góður grunnur fyrir Háskólanám.

IdnHR

Háskólinn í Reykjavík hefur opnað nýja vefsíðu um háskólanám fyrir iðnmenntaða: www.hr.is/idn. Tilgangurinn með síðunni er að kynna fjölbreytta möguleika þeirra sem lokið hafa iðn- og tækninámi, til háskólanáms við HR. Á síðunni eru teknar saman upplýsingar um vinsælar námsbrautir í HR hjá fólki með iðnmenntun, leiðarvísir um hvaða inntökuskilyrði þarf að uppfylla fyrir mismunandi námsbrautir, ásamt reynslusögum nemenda sem sýna fjölbreyttan menntaferil nemenda í HR.

Íslenskt atvinnulíf kallar eftir fólki með góða verkþekkingu og það er mikilvægt að benda ungu fólki á þá fjölbreyttu möguleika sem iðn- og tækninám veitir. Eftirspurnin á vinnumarkaði eftir einstaklingum með tæknigrunn og sérhæfingu úr háskóla er mjög mikil og á líklega enn eftir að aukast í framtíðinni. Því er vert að leggja áherslu á að iðnmenntun lokar engum dyrum varðandi áframhaldandi nám, heldur er þvert á móti góður grunnur fyrir áframhaldandi nám á háskólastigi.