AFL starfsgreinafélag

Verkfall á álverslóð

Á hádegi í dag, 4. maí, kemur til verkfalls meðal starfsmanna undirverktaka á athafnasvæði ALCOA Fjarðaáls, takist samningar ekki fyrir kl. 12:00. Samningafundur stendur nú yfir í húsi sáttasemjara - en þar sem mörgu er ólokið í samningagerð eru talsverðar líkur á að verkfallið komi til framkvæmda. Verkfallið í dag stendur til miðnættis en eftir viku hefst síðan ótímabundið verkfall.

Verkfallið nær til starfsmanna eftirfarandi fyrirtækja: Brammer, Eimskipafélagið,  Fjarðaþrif,  Launafl, Lostæri, Securitas, Sjónarás (Gámaþjónustan), VHE. Verkfallið nær einungis til þeirra starfa sem unnin eru á athafnasvæði verksmiðjunnar og á Mjóeyrarhöfn og til starfsmanna sem vinna að jafnaði 70% eða meira starfs síns vegna verkefna fyrir ALCOA Fjarðaál  

AFL Starfsgreinafélag mun bjóða fyrirtækjunum undanþágur frá boðuðu verkfalli vegna starfa sem beinlínis tengjast öryggi almennings, umhverfis eða starfsmanna.

Athugasemd vegna fréttar um starfsmat

AFL vill koma því á framfæri að í grein um seinagang sveitarfélaganna að senda inn umbeðin gögn um starfsmat, að sveitarfélagið Hornafjörður hefur skilað inn umbeðnum upplýsingum. Orðalag í greininni er ekki talið nógu skýrt, enda hefur greinarritari skilgreint Hornafjörð sem sveitarfélag á Suðausturlandi og gerði það í áðurnefndri grein. Beðist er velvirðingar á þessu og mun Hornafjörður í framtíðinni verða talið eitt af 10 sveitarfélögum á Austurlandi. 

Verkfallsbrjótar og laumufarþegar

Fréttir hafa borist af því að allt að 40 nýjir félagsmenn hafi verið teknir inn í Verkstjórafélag Austurlands á aðalfundi um helgina. Grunur leikur á að það sé til að tilteknir einstaklingar séu að gera fyrirtækjum auðveldara fyrir um að neita verkafólki um sanngjörn laun með því að brjóta aftur samstöðu í komandi verkföllum.

Þetta er í takt við það sem forystumenn AFLs hafa haldið fram, að Verkstjórafélagið sé í raun ekki stéttarfélag í kjarabaráttu heldur klúbbur sem sækir allar kjarabætur til baráttu verkalýðsfélaga  en leggur ekkert til sjálfur. Alvöru verkalýðsfélög taka ekki við nýjum félögum úr félögum sem standa í vinnudeilu.

Continue Reading

Eru sveitarfélögin að svína á starfsmönnum?

Verkefnastofa starfsmats sendi öllum sveitarfélögunum á félagssvæðinu beiðni þann 11. febrúar s.l. og  óskaði eftir starfslýsingum fyrir þau störf sem heyra undir starfsmatið. Þessi beiðni er í samræmi við bókanir  í kjarasamningi AFLs frá því í fyrrasumar og átti að koma til framkvæmda í október  Endurskoðunin verður byggð á starfslýsingum og öðrum gögnum eftir því sem við á frá sveitarfélögum.  Staðbundnar starfsmatsniðurstöður einstakra sveitarfélaga verða einnig skoðaðar með sama hætti. Dagana 2- 4 mars hringdi formaður AFLs í launafulltrúa allra 9 sveitarfélaganna á Austurlandi sem lofuðu að ganga í málið. Ennþá hefur ekki borist eitt einasta svar frá af Austurlandi og ekki er hægt að klára endurskoðunina vegna þessa. Því hlýtur að vakna sú spurning hvor að sveitarfélögin séu markvisst að svína á starfsmönnum eða er hér um að ræða hreinræktaðan slóðaskap?

,,Jöfnuður býr til betra samfélag!“.

 

AFL Starfsgreinafélag sendir félagsmönnum baráttukveðjur í tilefni dagsins.
1. maí hátíðarhöld félagsins fara fram á eftirfarandi stöðum


Vopnafirði, Hátíðardagskrá  verður í Félagsheimilinu Miklagarði kl.  14:00. Kvenfélagskonur sjá um kaffiveitingar.  Tónlistaratriði til skemmtunar. Ræðumaður:  Kristján Magnússon

Borgarfirði eystri, Hátíðardagskrá verður í Félagsheimilinu Fjarðarborg kl. 12.00  Kvenfélagið Eining sér  um veitingar. Ræðumaður:  Reynir Arnórsson

Seyðisfirði,  Hátíðardagskrá verður í Félagsheimilinu Herðubreið kl. 15:00.    8. og 9. bekkir Seyðisfjarðarskóla sjá um kaffiveitingar og skemmtiatriði. Ræðumaður:  Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir

Egilsstöðum, Hátíðardagskrá verður á Hótel Héraði  kl. 10.00  Morgunverður  og tónlistaratriði. Ræðumaður:  Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir

Reyðarfirði, Hátíðardagskrá verður í Safnaðarheimili Reyðarfjarðar kl. 15:00.  9. bekkur Grunnskóla Reyðarfjarðar sér um kaffiveitingar. Tónskóli Reyðarfjarðar Ræðumaður:  Pálína Margeirsdóttir

Eskifirði, Hátíðardagskrá verður í Melbæ Félagsheimili eldri borgara kl. 14:00. Félag eldri borgara sér um kaffiveitingar. Tónskóli Reyðarfjarðar Ræðumaður:  Þröstur Bjarnason

Neskaupstað, Hátíðardagskrá verður á Hildibrand hótel kl. 14 :00 Félag Harmonikkuunnenda spila Ræðumaður:  Sigurður Hólm Freysson

Fáskrúðsfirði, Hátíðardagskrá verður í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar kl. 15:00 Kaffiveitingar. 9. bekkur grunnskólans sér um kaffiveitingar.  Tónlistarskóli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar Ræðumaður:  Sverrir Mar Albertsson

Stöðvarfirði, Hátíðardagskrá í Saxa guesthouse kl. 15:00  Kaffiveitingar. Tónlistarskóli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar Ræðumaður: Sigríður Dóra Sverrisdóttir

Breiðdalsvík, Hátíðardagskrá verður  á Hótel Bláfelli  kl. 14:00 Kaffiveitingar og tónlistaratriði. Ræðumaður:  Sigríður Dóra Sverrisdóttir

Djúpavogi, Hátíðardagskrá verður á Hótel Framtíð  kl. 11:00, Morgunverður og tónlistaratriði. Ræðumaður: Sverrir Mar Albertsson

Hornafirði, Kröfuganga frá Víkurbraut 4 kl 13:30, takið með ykkur kröfuspjöld. Hátíðardagskrá á Hótel Höfn kl. 14:00, kaffiveitingar Lúðrasveit Hornafjarðar, tónlistaratriði Ræðumaður:  Lars Jóhann Andrésson

Verkfallsverðir

Félagsmenn sem vilja gefa kost á sér til verkfallsvörslu og eftirlits. Hafið samband við næstu skrifstofu félagsins og gefið ykkur fram – eða mætið á skrifstofur félagsins kl. 12:00 nk. fimmtudag.

Verjum kjörin – komum í veg fyrir verkfallsbrot