Ráðvillt og dofin þjóð!
Stjórn AFLs sat á fundi þegar Geir Haarde, forsætisráðherra ávarpaði þjóðina í dag. Stjórnarmenn setti hljóða. Ekki síst í ljósi þess að ekki hafði verið óskað samráðs við verkalýðshreyfinguna í aðdraganda þessarar ákvörðunar. En þrátt fyrir sambandsleysi milli ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins um helgina réttir ASÍ út höndina:
Í ljósi þeirra alvarlegu atburða sem nú eiga sér stað í íslensku fjármálalífi tekur Alþýðusamband Íslands undir þær áherslur ríkisstjórnarinnar að hagur almennings og fyrirtækja verði tryggður eins vel og kostur er. Alþýðusambandið lýsir sig reiðubúið til samstarfs við ríkisvaldið til að varðveita almannahagsmuni á þessum erfiðu tímum. Nú ríður á að allir leggist á eitt til að fjármálalegum stöðugleika verði náð sem fyrst. Sjá vef ASÍ