Verkamenn og iðnaðarmenn samþykkja - verslunarmenn fella
51,56% greiddra atkvæða verkamannadeildar AFLs staðfestu nýgerðan kjarasamning félagsins við Samtök atvinnulífsins en 47,92% greiddu atkvæði gegn staðfestingu samningsins. Auðir og ógildir voru 0,52%. Kjörsókn í verkamannadeild var 39,57%.
Iðnaðarmannadeild AFLs Starfsgreinafélags staðfesti nýgerðan kjarasamning Samiðnar við SA með 54,29% atkvæða á meðan 45,71 sögðu nei. Auðir og ógildir voru 0%. Kjörsókn var 42,68%.
Verslunarmenn felldu nýgerðan kjarasamning Landssambands íslenskra verslunarmanna með 63,64% greiddra atkvæða en 34,85% sögðu já. Auðir og ógildir voru 1,52%. Kjörsókn var 40,24%.
Atkvæðagreiðslu um nýgerða kjarasamninga lýkur á um hádegi á þriðjudag. Einungis verða talin atkvæði sem komist hafa til kjörstjórnar áður en talning hefst. Á mánudag verður hægt að koma atkvæðum til skrifstofa félagsins eða til trúnaðarmanna en hætt verður að taka við atkvæðum á skrifstofum félagsins á mánudagskvöld.
Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur ákveðið að fella úr gildi hækkun á gjaldskrám leikskóla, skóladagheimila og tónlistarskóla sem taka áttu gildi um áramótin.
Í greinargerð bæjarráðs segir að sveitarfélagið Fjarðabyggð vilji leggja sitt af mörkum til þess að verðlag haldist stöðugt í landinu og afturkalli því hækkanir á umræddum gjaldskrám.
Atkvæðaseðlar í kosningu um nýgerða kjarasamninga eru byrjaðir að berast í hús. Víða á félagssvæðinu hafa félagsmenn skilað atkvæðaseðlum á skrifstofur félagsins eða til trúnaðarmanna og í dag kom trúnaðarmaður AFLs Starfsgreinafélags hjá Toppfiski á Bakkafirði með atkvæðaseðla félagsmanna hjá Toppfiski. Svo virðist sem 100% þátttaka hafi verið meðal félagsmanna starfandi hjá fyrirtækinu.
Ein helsta forsenda þeirra kjarasamninga sem gerðir voru 21. desember er að verðbólga verði lág þannig að kaupmáttur í landinu aukist. Til þess að þetta takist er mikilvægt að opinberir aðilar og verslunar- og þjónustufyrirtæki haldi aftur af verðhækkunum á næstu misserum. Sveitarfélög vítt og breitt um landið hafa brugðist vel við kallinu. Nú berast hins vegar váleg tíðindi af fyrirtækjum og opinberum aðilum sem tilkynnt hafa verðhækkanir og eru þar með að vinna gegn markmiðum þess kjarasamnings sem undirritaður var fyrir jól.
Nýgerðir kjarasamningar verða afgreiddir í póstatkvæðagreiðslu hjá AFLi Starfsgreinafélagi. Kjörgögn hafa verið send út til þeirra félagsmanna sem hafa atkvæðisrétt um samningana - þ.e. þá sem starfa skv. samningum SGS, LÍV og Samiðnar við Samtök atvinnulífsins.
Atkvæði þarf að póstsetja fyrir 17. janúar eða berast á næstu skrifstofu fyrir 20. janúar. Talning atkvæða fer fram 21. janúar 2014.