Starfsfólk AFLs á Reyðarfirði var í óða önn að prenta út, plasta og ganga frá félagsskírteinum AFLs. Skírteinin komast í póst nk. mánudag en nauðsynlegt getur verið fyrir félagsmenn að sýna fram á félagsaðild sína vegna t.d. orlofskosta félagsins. Á myndinni er Gosia Libera, starfsmaður AFLs á Eskifirði og Reyðarfirði létt í lund við vinnu sína.
Á fundi formanna ASÍ sl. mánudag flutti formaður AFLs, Hjördís Þóra, tillögu þess efnis að ákvörðun um frestun taxtahækkana kjarasamninga, ef til kæmi, yrði vísað til allsherjaratkvæðagreiðslu félagsmanna. Með Hjördísi á tillögunni voru m.a. formaður Verkalýðsfélags Akraness, Framsýnar á Húsavík, Verkalýðsfélags Vestfirðinga og Drífanda úr Vestmannaeyjum. Tillagan kom ekki til atkvæða en var vísað til samninganefndar ASÍ.
Búið er að gera upp nýtingu á orlofsíbúðum AFLs Starfsgreinafélags fyrir árið 2008 og verður að segjast að hún er með ágætum. Meðalnýting allra íbúða er 83,61% sem teljast verður allgott. Þá ber að geta þess að inni í þessu hlutfalli er tímabil sem notuð voru til viðhalds og viðgerða á íbúðunum og skekkir það myndina talsvert til lækkunar á leiguhlutfallinu.
Samninganefnd AFLs Starfsgreinafélags var á fundi nú í kvöld og lauk fundinum með því að meðfylgjandi ályktun var samþykkt með þorra atkvæða gegn tveimur.
Fundarferð formanns AFLs og starfsfólks á vinnustaði og þéttbýliskjarna félagssvæðisins lauk með vinnustaðafundi hjá verktakafyrirtækinu Myllunni í hádeginu. Í kvöld hefur verið boðaður samninganefndarfundur AFLs og verður þar fyrirhuguð endurskoðun kjarasamninga til umræðu.
Starfsgreinasamband Íslands hélt formannafund í gær þar sem m.a. var fjallað um ástand í efnahagsmálum og stöðu kjaramála en fyrir liggur að samkvæmt núgildandi kjarasamning eiga að koma til framkvæmda launahækkanir 1. mars.
AFL stóð fyrir kynningu á iðnnámi í námsverinu að Búðareyri 1 á Reyðarfirði í dag miðvikudaginn 4. febrúar. Nemendur úr 10. bekkjum grunnskólanna á svæðinu og nemendur úr ME og VA fjölmenntu á kynninguna. Hún tókst vel þrátt fyrir mikið fjölmenni, krakkarnir voru til fyrirmyndar og mjög áhugasamir um það sem fram fór.