Verkfalli frestað um 8 sólarhringa
Samninganefnd AFLs Starfsgreinafélags í vinnudeilu um kjör starfsmanna undirverktaka ALCOA ákvað samhljóða á fundi sínum í morgun að fresta áður boðuðu verkfalli hjá 7 aðildarfyrirtækjum SA sem starfa sem undirverktakar hjá ALCOA og einu fyrirtæki sem stendur utan SA, um 8 daga.
Ástæða frestunnarinnar er að á samningafundum á fimmtudag og í gær náðist árangur sem samninganefndin telur réttlæta frestunina – þ.e. að mögulega dugi komandi vika til að ná samkomulagi sem unnt verði að leggja fyrir starfsmenn undirverktaka í atkvæðagreiðslu.
Við höfum haft að meginmarkmiði í kröfugerð okkar eftirfarandi þætti:
- Að tryggja starfsmönnum undirverktaka sambærileg kjör og starfasmenn ALCOA hafa.
- Að það séu kjarasamningar um kaup og kjör á svæðinu en ekki einhliða ákvarðanir einstakra fyrirtækja.
- Að tryggja lágmarkskjör á athafnasvæðinu þannig að ný fyrirtæki geti ekki komið inn og undirboðið aðra með því að greiða lægri laun en nú eru greidd.
Til að ná þessum markmiðum okkar höfum við krafist sérstaks kjarasamnings við SA sem hafi sama gildi og aðrir lágmarkskjarasamningar. Þeirri kröfu okkar hefur alltaf verið hafnað en á fimmtudag var lagt fram óformlegt tilboð um að ALCOA Fjarðaál gerði að skilyrði í útboðslýsingum að ákveðin lágmarkskjör yrðu tryggð og jafnfram að allir undirverktakar gerðu „vinnustaðasamninga“ í anda samningsins sem AFL er með við Eimskip vegna vinnu á Mjóeyrarhöfn, við AFL Starfsgreinafélag.
Að höfðu samráði við lögmenn félagsins sýnist okkur að ef þetta gengur eftir – munum við ná markmiðum okkar þó svo að við hefðum helst kosið að gera kjarasamning um málið. Samkomulag okkar við ALCOA yrði því ígildi tryggingar fyrir ákveðnum lágmarkskjörum.
Samninganefndin ákvað í morgun að þetta væri þess virði að skoða og frestaði því boðaðri vinnustöðvun í þeirri von að ásættanleg niðurstaða yrði í deilunni án þess að grípa þyrfti til harkalegra aðgerða.