AFL starfsgreinafélag

Saga félaganna

afl1AFL Starfsgreinafélag var stofnað 28. apríl 2007 með sameiningu þriggja félaga, AFLs Starfsgreinafélags Austurlands, Verkalýðsfélags Reyðarfjarðar og Vökuls Stéttarfélags. Þetta er í takt við þá þróun á síðustu árum, að verkalýðfélög víðsvegar um landið hafa sameinast í stærri einingar.

Öll félögin sem sameinuðust í AFLi eiga sér langa sögu:

Afl Starfsgreinafélag Austurlands
AFL - Starfsgreinafélag Austurlands var stofnað þann 14. janúar 2001 þegar, sex verkalýðsfélög á svæðinu frá Bakkafirði til Fáskrúðsfjarðar voru sameinuð. Utan við þessa sameiningu var eitt félag á áður nefndu svæði, en það er Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar sem stofnað 1. apríl 1933. Félögin sem sameinuðust voru: Verkalýðs- og sjómannafélag Fáskrúðsfjarðar, Verkamannafélagið Árvakur á Eskifirði, Verkalýðsfélag Norðfirðinga, Verkalýðsfélag Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar, Verkamannafélagið Fram á Seyðisfirði, Verkalýðs- og sjómannafélag Vopnafjarðar og Skeggjastaðahrepps
Með sameiningunni varð til stærsta stéttarfélag á Austurlandi.

Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar
Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar var eitt af elstu starfandi verkalýðsfélögum landsins, tæplega 100 ára gamalt. Til undirbúningsfundar var boðað milli jóla og nýárs árið 1907. „Að kvöldi þess 29. desember 1907 var fundur haldinn í bindindisfélagshúsinu til að ræða um stofnun verkamannafélags í Reyðarfjarðarhreppi. Á fundinum voru mættir 16 menn“, segir í fyrstu fundargerð félagsins. Á þessum fundi voru lagðar fram tillögur um nafn félagsins og árstillag. Fimm manna nefnd var kjörin til að semja lög og reglur félagsins.
Verkamenn á Reyðarfirði fóru strax í undirbúningsvinnu og sunnudaginn 19. janúar var stofnfundurinn haldinn.

Vökull Stéttarfélag
Vökull Stéttarfélag varð til þann 31. október 1999, þegar Verkalýðs- og sjómannafélag Stöðvarfjarðar, Verkalýðs- og sjómannafélag Breiðdælinga, Verkalýðs- og sjómannafélag Djúpavogs og Verkalýðsfélagið Jökull á Hornafirði voru sameinuð.

Hugmyndir um sameiningu félaga innan Alþýðusambands Austurlands höfðu af og til stungið upp kollinum og um miðjan 10. áratuginn kom fram tillaga á þingi Alþýðusambands Austurlands um að sameina öll félögin á Austurlandi í eitt félag. Þótti mörgum tillagan víðáttuvitlaus á þeim tíma.


asisagan

asi hero