AFL starfsgreinafélag

Lög um sjúkrasjóði

Kveðið er  á um sjúkrasjóði verkalýðsfélaga m.a. í lögum nr. 19 /1979, „Lög um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla,“ og síðan í lögum ASÍ og reglugerðum einstakra verkalýðsfélaga. Hér að neðan er texti af heimasíðu ASÍ um veikindarétt almennt og síðan tilvitnun í lög nr. 19/1979 og loks vitnað í lög ASÍ, þar sem sett eru lágmarksákvæði sjúkrasjóða stéttarfélaga innan ASÍ.

Réttur félagsmanna AFLs er talsvert umfram lágmarksákvæði ASÍ, bæði er veikindaréttur um 50% lengri en lágmarksákvæði segja til um og því til viðbótar greiðir sjúkrasjóður AFLs út margháttaða styrki m.a. til heilsueflingar sem er umfram lágmarkskvöð sjóðsins.
Hér á heimasíðunni er yfirlit yfir helstu styrki, jafnframt er reglugerð sjóðsins birt og leiðbeiningar um hvernig sótt er um sjúkradagpeninga og styrki.

Lágmarksreglur um veikindarétt
(Af vef ASÍ, www.asi.is)
eru ákvæði um veikinda- og slysarétt. Oft eru þau í grunninn efnislega samhljóða ákvæðum l. 19/ Lágmarksreglur um veikinda- og slysarétt launafólks er að jafnaði að finna í lögum. Við þann rétt er aukið með ákvæðum kjarasamninga.

Í öllum aðalkjarasamningum eru ákvæði um veikinda- og slysarétt sem eru oft í grunninn efnislega samhljóða ákvæðum l. 19/1979 um uppsagnarfrest og veikindarétt. Í kjarasamningunum hefur þó verið samið um betri veikindarétt en lögin kveða á um. Ekki skiptir máli varðandi þessi réttindi hvort starfsmenn eru félagar í stéttarfélagi eða atvinnurekendur í samtökum vinnuveitenda því samkvæmt ákvæðum starfskjaralaga nr. 55/1980 ákvarða kjarasamningar lágmarkskjör allra þeirra sem vinna tiltekin störf á því svæði sem kjarasamningur nær til.

Í ráðningarsamningum er einnig að finna reglur um veikinda- og slysarétt en þar ekki hægt að víkja frá lágmarksreglum laga og kjarasamninga. Slíkir samningar eru ógildir sbr. 10.gr. laga nr. 19/1979. Í ráðningarsamningum er því einungis hægt að semja um betri rétt en lög og kjarasamningar kveða á um.

Landverkafólk
Lög nr. 19/1979 um rétt verkafólks til launa í sjúkdóms- og slysaforföllum fjalla um lágmarksréttindi landverkafólks. Þau eiga þó ekki við allt landverkafólk.

Sjómenn
Í sjómannalögum nr. 35/1985 er fjallað um réttindi sjómanna.

Opinberir starfsmenn
Um veikinda- og slysarétt félagsmanna þeirra stéttarfélaga starfsmanna ríkis og sveitarfélaga sem semja skv. lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna (opinberu félögin) fer skv. viðkomandi kjarasamningum. Um starfsmenn ríkisins sérstaklega segir í 12. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að starfsmenn ríkisins eigi rétt til launa í veikindaforföllum eftir því sem fyrir er mælt í lögum og eftir atvikum, ákveðið eða um samið er um með sama hætti og laun.

Úr : „Lög um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla
1979 nr. 19 1. Maí“

4. gr. Allt verkafólk, sem forfallast frá vinnu vegna slysa við vinnuna, á beinni leið til eða frá vinnu, eða vegna atvinnusjúkdóma, sem orsakast af henni, skal fá greidd laun fyrir dagvinnu í allt að 3 mánuði samkvæmt þeim taxta, sem viðkomandi tók laun eftir, enda sé unnið hjá aðila sem fæst við atvinnurekstur í viðkomandi starfsgrein.

5. gr. Allt fastráðið verkafólk, sem ráðið hefur verið hjá sama atvinnurekanda í eitt ár samfellt, skal er það forfallast frá vinnu vegna sjúkdóma eða slysa eigi missa neins í af launum sínum, í hverju sem þau eru greidd, í einn mánuð.
Hafi slíkt starfsfólk verið ráðið hjá sama atvinnurekanda í þrjú ár samfellt skal það, auk þess sem í 1. mgr. segir, halda daglaunum sínum í einn mánuð, en í tvo mánuði eftir fimm ára samfellda ráðningu hjá sama atvinnurekanda.
Auk þeirra réttinda, sem fastráðið verkafólk nýtur skv. 1. og 2. mgr., skal það, er forföll stafa af vinnuslysi eða atvinnusjúkdómi, halda dagvinnulaunum í allt að þrjá mánuði eins og í 4. gr. segir.

6. gr. Á fyrsta starfsári hjá sama atvinnurekanda skal verkafólk eigi missa neins í af launum, í hverju sem þau eru greidd, í tvo daga fyrir hvern unninn mánuð í veikinda- og slysatilfellum, auk réttar til dagvinnulauna skv. 4. gr.

7. gr. Vinnuveitendur skulu greiða 1% af útborguðu kaupi verkafólks í sjúkrasjóð viðkomandi stéttarfélags, nema um hærri greiðslur hafi verið samið í kjarasamningum.

8. gr. Nú vill launþegi neyta réttar síns samkvæmt 1. og 4. gr., og skal hann þá, ef atvinnurekandi óskar þess, afhenda honum vottorð læknis um veikindin eða slysið, er sýni, að hann hafi verið óvinnufær vegna veikindanna eða slyssins.

9. gr. Ákvæði laga þessara hagga ekki samningum milli samtaka atvinnurekenda og launþega um greiðslu atvinnurekanda á sjúkrapeningum til starfsmanna sinna, hvort sem þeir eru greiddir til styrktarsjóða, stéttarfélaga eða beint til þeirra sjálfra.

10. gr. Ákvæði samnings milli atvinnurekanda og launþega, sem brjóta í bág við lög þessi, eru ógild, ef þau rýra rétt launþegans.
Haldast skulu þau réttindi, sem veitt eru með sérstökum lögum, samningum eða leiðir af venju í einstökum starfsgreinum, ef þau eru launþeganum hagstæðari en ákvæði þessara laga.

Úr lögum Alþýðusambands Íslands
X. Kafli: Um sjúkrasjóði
42. grein
Sá sem öðlast hefur rétt til greiðslu úr sjúkrasjóði eins aðildarfélags, öðlast þann rétt hjá nýju aðildarfélagi skv. þeim reglum sem þar gilda eftir einn mánuð, enda hafi hann fram að því átt rétt hjá fyrra félaginu.
Öllum aðildarfélögum sambandsins er skylt að setja sjúkrasjóðum félaganna reglugerðir sem hljóta skulu staðfestingu miðstjórnar ASÍ og standast lágmarksákvæði laga ASÍ. Miðstjórn skal við umfjöllun sína hafa hliðsjón af viðmiðunarreglum sem ársfundur samþykkir. Breytingar á reglugerðum sjóðanna skulu sendar skrifstofu ASÍ.
Um skil og gerð ársreikninga fer skv. 40.gr. laga þessara. Fimmta hvert ár að minnsta kosti skal stjórn sjúkrasjóðsins fá trygginga¬fræðing eða lög¬giltan endurskoðanda til þess að meta fram¬tíðar¬stöðu sjóðsins og semja skýrslu til stjórnar um at¬hugun sína. Stjórn sjóðsins skal skila skrifstofu ASÍ út¬tekt þessari með árs¬reikningi viðkomandi árs.
Sjúkrasjóðir aðildarfélaganna skulu  tryggja sjóðfélögum sem 1% iðgjald hefur verið greitt af í a.m.k. 6 mánuði, lágmarksbætur í veikinda- og slysatilfellum sem hér segir:

a. Dagpeninga í veikinda- og slysaforföllum í 120 daga, að loknum greiðslum skv. veikinda- og slysaréttarákvæðum kjarasamninga. Dagpeningar skulu að viðbættum bótum almannatrygginga, greiðslum úr slysatryggingu launafólks eða annarri lögbundinni tryggingu, ekki nema lægri fjárhæð en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.

b. Dagpeninga í 90 daga, að loknum kjarasamningsbundnum greiðslum launagreiðanda vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum. Með langveikum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlegan og/eða langvinnan sjúkdóm og þarfnast sérstakrar umönnunar. Með alvarlega fötluðum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlega greindarskerðingu, geðraskanir eða alvarlega líkamlega hömlun og þarfnast sérstakrar umönnunar.

c. Dagpeninga í 90 daga vegna mjög alvarlegra veikinda maka. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.

d. Eingreiddar dánarbætur við andlát virks og greiðandi sjóðfélaga sem nemi 180.000.- krónum m.v. starfshlutfall hans. Rétthafar bóta eru maki sjóðfélaga og börn hans undir 18 ára aldri. Bótafjárhæð miðast við launavísitölu pr. 1.7 2006 og tekur sömu breytingum og hún.

e. Daga fjölda greiddra dagpeninga skv. a lið, til þeirra sem greitt er hlutfallslega lægra iðgjald af en 1%, er heimilt að skerða í sama hlutfalli og iðgjaldið er lægra en 1%.

f. Dagpeninga skv. a, b og c lið er heimilt að miða við meðaltal heildarlauna á síðustu 12 mánuðum í stað síðustu 6 mánaða, hafi tekjur sjóðfélaga breyst verulega til hækkunar eða lækkunar á viðmiðunartímabilinu. Jafnframt er heimilt að ákveða hámark dagpeninga skv. a, b og c lið sem þó sé ekki lægra en 250.000.- á mánuði.

g. Réttur skv. a, b og c lið endurnýjast á hverjum 12 mánuðum, hlutfallslega eftir því sem hann er nýttur, talið frá þeim degi sem dagpeningagreiðslum líkur hverju sinni og greiðslur iðgjalda hefjast að nýju.

Hafi iðgjöld til sjúkrasjóðs ekki verið greidd vegna sjóðfélaga, en hann getur fært sönnur á, að félagsgjöld til viðkomandi aðildarfélags hafi samkvæmt reglulega útgefnum launaseðlum verið dregin af launum hans síðustu 6 mánuði, skal hann njóta réttar skv. 4.mgr. eins og iðgjöld til sjúkrasjóðs hafi verið greidd.

4.mgr. 42.gr. tekur gildi 1.7 2006 m.v. réttindaávinnslu frá 1.1 2006. Skila skal staðfestingu tryggingafræðings eða löggilts endurskoðanda skv. 3.mgr. 42.gr. í fyrsta sinn á árinu 2007 með ársreikningum fyrir fjárhagsárið 2006.