Verkfallsbrjótar og laumufarþegar
Fréttir hafa borist af því að allt að 40 nýjir félagsmenn hafi verið teknir inn í Verkstjórafélag Austurlands á aðalfundi um helgina. Grunur leikur á að það sé til að tilteknir einstaklingar séu að gera fyrirtækjum auðveldara fyrir um að neita verkafólki um sanngjörn laun með því að brjóta aftur samstöðu í komandi verkföllum.
Þetta er í takt við það sem forystumenn AFLs hafa haldið fram, að Verkstjórafélagið sé í raun ekki stéttarfélag í kjarabaráttu heldur klúbbur sem sækir allar kjarabætur til baráttu verkalýðsfélaga en leggur ekkert til sjálfur. Alvöru verkalýðsfélög taka ekki við nýjum félögum úr félögum sem standa í vinnudeilu.
Ástæða er til að benda fólki á að verkfall verkafólks á Austurlandi er óháð því hvaða stéttarfélag menn greiða iðgjald til - AFL Starfsgreinafélag er eina stéttarfélagið sem gerir kjarasamninga um störf verkafólks á félagssvæðinu og verkfallið nær til starfa verkafólks en ekki félagsaðildar. Verkfallsverðir AFLs munu því hafa afskipti af öllum þeim sem hyggjast ganga í störf verkafólks nk. fimmtudag.
Þá er vert að benda fólki á 6. gr. laga AFLs Starfsgreinafélags um úrsagnir úr félaginu:
6. gr. laga AFLs Starfsgreinafélags:
Úrsögn úr félaginu getur því aðeins átt sér stað að félagsmaður sé skuldlaus við félagið.
Úrsögn skal vera skrifleg. Hún skal afhent formanni félagsins eða skrifstofu ásamt félagsskírteini úrsegjanda.
Félagsmenn halda félagsréttindum meðan þeir gegna trúnaðarstörfum í verkalýðshreyfingunni.
Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst eða ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin af félaginu og þar til vinnustöðvuninni hefur verið formlega aflýst. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til
þess að taka upp störf félagsmanna í öðru félagi er lagt hafa niður vinnu vegna deilu.
AFL Starfsgreinafélag beinir því til verkafólks á Austurlandi að þola ekki að menn sem kalla sig verkstjóra gangi í störf verkafólks og að verkfallsverðir vísi þessum "laumufarþegum alvöru kjarabaráttu" út af vinnustöðum í komandi verkfalli. AFL Starfsgreinafélag mun síðan grípa til aðgerða gagnvart fyrirtækjum sem taka þátt í verkfallsbrotum.