Öruggt húsnæði á ekki að vera forréttindi
Húsnæðismál launafólks eru í algjörum ólestri. Stöðugt fleiri þurfa að reiða sig á óöruggan leigumarkað og nota stóran hluta launa sinna til að borga okurleigu. Þessi staða bitnar verst á þeim sem standa höllum fæti fyrir. Þetta er fátækragildra.
Miðstjórn ASÍ krefst þess að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og Alþingi axli nú þegar ábyrgð á að leysa húsnæðisvandann með raunhæfum aðgerðum.
Tryggja verður fjármögnun vegna a.m.k. 1000 íbúðum á ári til leigufélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og setja reglur sem treysta rétt leigjenda. Um leið verður að aðstoða ungt fólk og aðra sem eignast vilja eigin húsnæði með eflingu vaxta- og húsnæðisbótakerfisins og hagkvæmara húsnæðislánakerfi á forsendum heimilanna. Húsnæðisöryggi á að vera sjálfsögð mannréttindi ekki forréttindi.
Aðildarfélög ASÍ settu húsnæðismálin á oddinn við gerð síðustu kjarasamninga með nokkrum árangri. Nú liggur hins vegar fyrir að stjórnvöld ætla að svíkja þau loforð sem þá voru gefin því það vantar 600 milljónir króna á ári til að hægt verði að byggja það sem lofað var. Ekki stendur til að mæta þessu ef marka má fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára.