Stuðningur við framboð
Stjórn AFLs Starfsgreinafélags samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að styðja framboð framkvæmdastjóra félagsins, Sverrir Mar, til forseta Alþýðusambandsins á þingi ASÍ í haust. Talsverðar umræður voru á stjórnarfundinum og var m.a. til umræðu hvernig félagið myndi bregðast við millibilsástandi sem yrði ef til þess kæmi að Sverrir Mar yrði kjörinn en ekki gengið frá því hver tæki við hans störfum hjá félaginu.
Þá lýstu nokkrir stjórnarmenn yfir áhyggjum af „orðsporsáhættu“ félagsins í ljósi þess að aðilar á samfélagsmiðlum geta verið grimmir og beinskeyttir í garð einstaklinga sem stíga fram fyrir verkalýðshreyfinguna.
Niðurstaða fundarins var að nú þegar ljóst er að sitjandi forseti hyggst ekki gefa kost á sér – mun AFL Starfsgreinafélag stíga fram og bjóðast til að axla ábyrgðina. (Myndin er tekin á Kárahnjúkum á framkvæmdatímanum þar).