Um málefni Sjómannafélags Íslands
Mynd Þór Jónsson
Nokkrir félagsmenn AFLs hafa haft samband og óskað eftir því að AFL Starfsgreinafélag álykti um málefni Sjómannafélags Íslands og brottvikningu félagsmanns þar og átök sem tengjast stjórnarkjöri. Formaður AFLs, Hjördís Þóra, hefur svarað viðkomandi og segir m.a. í svari sínu: "AFL Starfsgreinafélag hefur lengi verið gagnrýnið á störf Sjómannafélags Íslands, sú gagnrýni hefur ekki verið sett fram í fjölmiðla heldur innan AFLs og ekki síst sjómannadeildar félagsins. Ég tel að þau vinnubrögð sem í Sjómannafélaginu éru stunduð séu nú að koma í dagsljósið." (tilvitnun í formann lýkur)
Forysta AFLs hefur ekki lagt í vana sinn að álykta um málefni án samráðs við stjórn félagsins eða trúnaðarráð. Það er því ekki líklegt að félagið sendi frá sér sérstaka ályktun um þau mál sem eru í fjölmiðlum þessa dagana og tengjast Sjómannafélagi Íslands þar sem mánuður er í næsta stjórnarfund.
AFL hefur á síðustu árum orðið fyrir því að verulega hefur verið lagt að sjómönnum á Austurlandi að ganga úr AFLi og ganga í Sjómannafélag Íslands sem stækkaði félagssvæði sitt við úrgöngu úr Alþýðusambandinu fyrir nokkrum árum. Í þeirri viðleitni hefur ýmsum meðölum verið beitt sem AFL kærir sig ekki um að fjölyrða um en þykja ekki vönduð.
Félagsmenn okkar hafa síðan verið að koma til baka til AFLs ef þeir hafa þurft að leita aðstoðar Sjómannafélagsins og oftar en ekki fengið óviðunandi úrlausn. Sem dæmi má nefna að hámarkssjúkradagpeningar Sjómannafélags Íslands eru 470 þús á mánuði eftir 5 ára samfellda félagsaðild. Hjá AFLi eru það 900 þúsund eftir 6 mánaða félagsaðild. Ótal önnur dæmi má nefna.
Almennt telur forysta AFLs rétt að taka ekki þátt í umræðu um málefni annarra verkalýðsfélaga. Ljóst er þó að félagsmenn Sjómannafélags Íslands standa höllum fæti í samskiptum við stjórn Sjómannafélags Íslands því félagið er ekki aðili að Alþýðusambandinu en öll aðildarfélög ASÍ þurfa að hlýta ákveðnum reglum og félagsmenn eiga ætíð málskotsrétt til heildarsamtakanna telji þeir á sér brotið af félagi sínu. Að mati höfundar þessa pistils er það hins vegar fáheyrð ósvífni af verkalýðsfélagi að reka félagsmann úr félagi vegna gagnrýni á stjórnarhætti. Fara þarf marga áratugi aftur í tímann til að finna einhverjar hliðstæður ef þær þá finnast.
Starfssemi verkalýðsfélaga byggir ekki síst á trausti og samstöðu meðal launafólks í baráttu við fjármálaöfl og launagreiðendur. Bregðist forysta verkalýðsfélags við gagnrýnni umræðu með því að reka félagsmenn úr félaginu - er allt traust farið.
Í yfirlýsingu formanns Sjómannafélagsins í dag, kemur fram að einungis þriðjungur þeirra sem skrifuðu undir kröfu um félagsfund eru í raun félagsmenn. Ef það reynist satt er ljóst að fólk sem ekki á aðild að Sjómannafélaginu er að reyna að hafa afskipti og áhrif af starfssemi félagsins. Slíkt á heldur ekki að líða. Verkalýðsfélög eru hagsmunasamtök félagsmanna þeirra en ekki annarra. Um það snúast þau.
Það er hins vegar rétt að ítreka það sem fram hefur komið, m.a. frá forseta ASÍ, að Sjómannafélag Íslands er ekki innan vébanda Alþýðusambandins. Félagið sagði sig úr ASÍ eftir að illa hafði gengið að fá afhenta ársreikninga félagsins en öll aðildarfélög Alþýðusambandsins þurfa að láta löggilta endurskoðendur árita reikninga sína og afhenda afrit þeirra til Alþýðusambandsins. Einnig eru ákveðnar "lágmarksreglugerðir" t.d. varðandi réttindi í sjúkrasjóðum sem aðildarfélög þurfa að uppfylla.
Breytingar í atvinnugreininni - m.a. samþjöppun aflaheimilda og tæknivæddari skip hafa haft mikil áhrif á stöðu sjómanna og sjómannafélaga. Sjómönnum hefur fækkað mikið síðustu árin og samhliða hefur fækkað í sjómannafélögum þannig að mörg þeirra hafa átt erfitt með að halda uppi ásættanlegri þjónustu. Á t.d. Austurlandi, Vestfjörðum og Snæfellsnesi eru sjómenn deild í verkalýðsfélögunum og sjómenn njóta þar sömu þjónustu og aðrir félagsmenn og þar njóta allir samlegðaráhrifa. Hreinum sjómannafélögum hefur farið fækkandi og eru stærst innan Alþýðusambandsins, Sjómannafélag Eyjafjarðar, Sjómannafélagið Jötunn í Vestmannaeyjum og Sjómannafélag Ólafsfjarðar. Utan Alþýðusambandsins eru Sjómannafélag Íslands (áður Sjómannafélag Reykjavíkur) og Sjómannafélag Grindavíkur. Bæði Sjómannafélag Íslands og Sjómannafélag Grindavíkur hafa lækkað félagsgjöld sín en lentu í vandræðum í síðasta verkfalli þar sem sjóðir tæmdust og ekki var unnt að greiða verkfallsbætur í sama mæli og t.d. AFL gerði. AFL greiddi sjómönnum í verkfalli upphæð sem nam kauptryggingu sjómanna frá degi eitt í verkfalli og alla verkfallsdagana.
Það hefur verið draumur margra í forystu sjómanna að gera eitt landsfélag sjómanna og sameina alla í eitt félag. Sjómenn á Austurlandi og víðar hafa hins vegar frekar kosið að starfa innan sinna svæðisbundnu félaga og sækja þjónustu þangað og m.a. þess vegna var Sjómannasamband Íslands (sem er samband allra sjómannafélaga innan ASÍ) stofnað þannig að unnt væri að njóta bæði samstöðunnar í kjarabaráttu og síðan hinna svæðisbundnu þjónustu. Þ.e. Sjómannasambandið fer með samningsumboð aðildarfélaganna og því koma þau fram sem eitt félag í samskiptum við útgerðarmenn - en svæðisbundnu félögin sjá síðan um þjónustu og hagsmunagæslu fyrir einstaka félagsmenn.
Nú eru sjómenn á Íslandi klofnir í þrennt - þ.e. innan ASÍ er ein fylkingin undir merki Sjómannasambands Íslands en utan standa annars vegar Sjómannafélag Íslands og síðan Sjómannafélag Grindavíkur. Ef raunverulegur vilji er til að sjómenn standi saman og starfi saman er langeðlilegast að þessi tvö félög gangi aftur í Sjómannasambandið og til liðs við félaga sína.