Um starf og stöðu trúnaðarmanna verkalýðsfélaga
Um starf og stöðu trúnaðarmanna verkalýðsfélaga
Starf trúnaðarmanna hefur verið nokkuð til umræðu síðustu vikur. AFL Starfsgreinafélag og forysta þess telur nauðsynlegt að árétta þá mikilvægu en jafnframt viðkvæmu stöðu sem trúnaðarmenn geta lent í. Trúnaðarmenn eru fyrst og fremst trúnaðarmenn samstarfsfólks – þ.e. kjörnir af samstarfsfólki til að koma fram fyrir þeirra hönd og gæta hagsmuna þeirra.
Það er því mikilvægt að trúnaðarmaður sem stígur fram með sameiginleg mál samstarfsmanna finni alltaf að hann/hún hafi fullan stuðning frá félaginu og að samstarfsfólk standi með honum/henni.
AFL Starfsgreinafélag hefur alltaf lagt áherslu á að veita trúnaðarmönnum félagsins þann stuðning sem þeir hafa þörf á og vilja þiggja. Félagið gerir það öllu jafna með því að bjóða aðgang að þeim námskeiðum sem í boði eru og sérstakur starfsmaður AFLs annast samskipti við trúnaðarmenn þannig að þeir geti alltaf leitað eftir stuðningi og handleiðslu þegar á þarf að halda.
Formaður og aðrir í forystu félagsins mæta síðan með trúnaðarmönnum á vinnustaðafundi eða á fundi með stjórnendum vinnustaða þegar þess er óskað. Þetta er mikilvægt til að trúnaðarmenn skynji það bakland sem félagið veitir í deilum við launagreiðendur.
Það er og ekki síður mikilvægt að hinn almenni félagsmaður sýni trúnaðarmanni sínum stuðning og standi með honum í deilum sem upp kunna að koma – þannig að launagreiðandi skynji þungann af félagasamtökunum en telji sig ekki bara þurfa að eiga við „einn uppivöðslusamann“ starfsmann.
Það eru því miður nokkur dæmi þess að trúnaðarmenn hafi hætt þar sem þeir fengu aldrei stuðning vinnufélaga þegar á hólminn var komið – að þegar verkstjórar gengu á samstarfsfólkið varðandi þau umkvörtunarefni sem þau sjálf höfðu beðið trúnaðarmann um að annast – að þá kannaðist enginn við neitt og sögðu allt í himnalagi. Þá stendur trúnaðarmaðurinn eftir einn og berskjaldaður og lítur út eins og einhver vandræðamaður sem var að efna til illinda.
Þá hætta trúnaðarmenn og vinnustaðurinn er í verri stöðu á eftir.
Stöndum með trúnaðarmönnunum okkar.