Ingibjörg Sigurðardóttir - starfsmaður okkar í 27 ár - er látin
Á morgun, þriðjudaginn 28. nóvember, verður útför Ingibjargar Sigurðardóttur, aðalbókara AFLs Starfsgreinafélags og áður Verkalýðsfélags Norðfjarðar. Ingibjörg lést eftir stutt og snörp veikindi um miðjan mánuðinn. Hún var við störf nánast fram á síðasta dag - og á meðan hún sótti læknisþjónustu á Sjúkrahúsið á Norðfirði, kom hún á skrifstofuna seinnipartinn og kláraði sín verkefni.
Ingibjörg hóf störf hjá Verkalýðsfélagi Norðfjarðar 1996 en hafði áður verið bókari Kaupfélagsins Fram á Neskaupstað fram að gjaldþroti þess félags. Ingibjörg var einstaklega traustur starfsmaður og samviskusöm í sínum verkefnum. Hún var Norðfirðingur með stórum staf - og átti sjaldan að eigin sögn - erindi út fyrir fjallahringinn.
Ingibjörg lætur eftir sig dóttir og barnabarn.
Skrifstofur AFLs á Neskaupstað, Reyðarfirði og Egilsstöðum verða lokaðar frá kl. 11 í fyrrmálið vegna útfararinnar.