Fjarðabyggð: 46% – 66% hækkun leikskólagjalda?
Mynd úr myndasafni AFLs
Meirihluti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð undirbýr nú hækkun leikskólagjalda langt umfram öll viðmið – eða allt að 46% - 66% hækkun fyrir börn í fullri dagvistun. Samkvæmt heimildum okkar nemur hækkunin 46% fyrir 8 tíma dagvistun og 66% vegna 8,5 tíma dagvistunar.
Við höfum borið þessar upplýsingar undir bæjarstjóra Fjarðabyggðar en ekki fengið nein viðbrögð.
Skv. heimildum AFLs hefur þessi hækkun þegar farið í gegnum Fjölskyldunefnd Fjarðabyggðar og var afgreidd í Bæjarráði nú í morgun og fer því fyrir bæjarstjórnarfund á fimmtudag.
Auk ofangreindra hækkana, er boðuð upptaka ,,skráningardaga“ og verða foreldrar að skrá börn sín sérstaklega til dagvistunar þessa daga og greiða aukalega fyrir það.
Þessar hækkanir eru boðaðar frá 1. mars nk. og má þá segja að allar kjarabætur þessa árs fyrir foreldra leikskólabarna séu þar með uppétnar – og það þrátt fyrir yfirlýsingu Sambands Sveitarfélaga um að gjaldskrárhækkunum verði stillt í hóf og verði ekki umfram 2,5%, til að styðja kjarasamningagerð liðins árs. Í ljósi þeirrar yfirlýsingar m.a. gengu verkalýðsfélög til samninga – bæði á almennum markaði og við sveitarfélögin. Einn bæjarstjórnarmanna Fjarðabyggðar er í stjórn Sambands Sveitarfélaga og stóð því að ofangreindri yfirlýsingu. Það verður athyglisvert að sjá afstöðu viðkomandi á næsta bæjarstjórnarfundi.
Skv. heimildum okkar segir í fundargerð Fjölskyldunefndar að þessar hækkanir séu til að mæta vaxandi álagi innan leikskólanna – án þess að útskýrt sé í hverju álagið sé fólgið. Álaginu verður væntanlega létt með því að fólk hafi ekki lengur efni á að fá leikskólaþjónustu fyrir börnin sín og leiti aftur í ástand sem var fyrir áratugum þegar eldri systkini, frænkur og frændur eða unglingurinn í næsta húsi, passaði börnin með foreldrarnir unnu. Þá voru líka lyklabörnin frægu – sem voru með húslykil í bandi um hálsinn en voru að öðru leiti sjálfala á meðan foreldrarnir stunduðu vinnu.
Þannig verða leikskólarnir einkaskólar þeirra betur megandi á meðan börn láglaunafólks fara á flæking milli ættingja eða fá lykil um hálsinn.
Meirihluti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð er myndaður af Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.