Er sveitarfélögum illa við fátækt fólk?
Nú er til umfjöllunar í bæjarstjórn Fjarðabyggðar veruleg hækkun leikskólagjalda - og mun hækkunin nema allt frá 46%- 66% fyrir börn í vistun 8 – 8,5 klst. daglega. Að auki er svokölluðum skráningardögum fjölgað – en það eru dagar sem ekki eru innifaldir í mánaðargjaldinu – og greiða þarf sérstaklega fyrir dagvistun þessa daga.
Síðustu ár hafa svokallaðir starfsdagar kennara og leikskólastarfsfólks farið heldur fjölgandi og skólum og leikskólum er almennt lokað þessa daga. Þá hefur líka færst í vöxt að einstaka deildum leikskóla sé lokað dag og dag vegna manneklu og fá þá foreldrar skilaboð um að koma ekki með börn sín – eða um að koma og sækja börnin.
Aðstöðumunur foreldra til að bregðast við þessum aðstæðum er gríðarlega misjafn. Margir geta unnið heiman frá sér einstaka daga í samkomulagi við launagreiðanda. Sumir eiga sér gott bakland – afa og ömmur og ættingja sem mögulega eru komnir af vinnumarkaði og hlaupa undir bagga.
En fyrir aðrar er ástandið alvarlegra – fiskvinnslustarfsmaður eða starfsmaður á lyftara taka ekki börn með sér í vinnuna né vinna heiman frá sér. Starfsmaður á bráðadeild á sjúkrahúsi tekur ekki með sér barn í vinnuna eða stekkur úr vinnu til að sækja barnið sitt af því að leikskóladeildin er illa mönnuð – því að öllum líkindum er bráðadeildin ekkert betur mönnuð en þar stendur fólk samt og sinnir sínum verkum.
Launafólk af erlendum uppruna á oft lítið bakland hér á landi og það eru engar ömmur eða afar í næsta húsi sem geta sótt á leikskólann eða sinnt börnunum á meðan leikskólastarfsmenn halda fundi.
Efnahagsleg áhrif af þessu ástandi koma einnig gríðarlega mismunandi niður á fjölskyldum. Það má leiða líkur að því að því ”hærra” í samfélaginu sem fólk er – því minni séu fjárhagslegu áhrifin. Almennt verkafólk þarf yfirleitt að stimpla sig út þegar það fer af vinnustað – eða skrá sig af vakt þegar það þarf að vera heima. Aðrir og þeir ”hærra” settu ”vinna” að heiman þessa daga og verða ekki fyrir tekjutapi.
Leikskólar hafa í hugum fólks tvíþættan tilgang – uppeldis-og kennsluhlutverk og síðan ”gæsluhlutverk” en atvinnulífið gengur alls ekki nema fólk hafi tryggan stað fyrir börn sín á meðan það vinnur fyrir launum.
Með þessari þróun sem virðist í gangi meðal sveitarfélaga um land allt – verða leikskólar smátt og smátt einhvers konar einkaskólar þeirra betur megandi – þeirra sem geta verið heima á starfsdögum og greitt æ hærri leikskólagjöld – á meðan tekjulægra fólkið og þeirra sem ekki hafa bakland verður að leita annarra leiða.
Hækkunin sem til umfjöllunar er í Fjarðabyggð er sögð til að ”létta álag” af starfsfólki og skráningardagar eru til að koma til móts við vinnutímastyttingu í kjarasamningum. Það hlýtur að kalla á skoðun á því hvort Samtök Sveitarfélaga hafi í raun vitað hvað þau voru að gera þegar samið var um vinnutímastyttinguna – sem átti ekki að hafa áhrif á þjónustustigið. Sem er að gerast. Þetta átti heldur ekki að vera til verulegs kostnaðarauka – sem er að gerast.