Verkalýðshreyfingin og leikskólagjöld
Umfjöllun AFLs um fyrirhugaða gjaldskrárhækkun leikskóla í Fjarðabyggð hefur fengið stuðning annarra verkalýðsfélaga og sambanda. Þannig ályktaði Formannafundur Starfsgreinasamband Íslands fyrir 10. des. sl. :
Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands varar við þeirri þróun sem orðið hefur í leikskólamálum víða um land, þar sem daglegur vistunartími er styttur í 6 klukkustundir en gjald fyrir dvalartíma umfram þann tíma er hækkað verulega. Einnig hefur svokölluðum skráningardögum fjölgað, þ.e.a.s. dögum sem ekki eru innifaldir í föstu mánaðargjaldi og greiða þarf sérstaklega fyrir.
Þeir foreldrar, sem vinnu sinnar vegna hafa ekki tök á því að stytta vistunartíma barna sinna, greiða eftir breytingarnar mun hærra gjald en áður svo nemur tugum prósenta. Bitnar þetta helst á tekjulágum foreldrum með lítið stuðningsnet og lítinn sveigjanleika í starfi.
Þótt sveigjanleiki hafi aukist hjá þeim hluta vinnumarkaðarins sem nýtur styttingu vinnuvikunnar, hefur stærstur hluti félagsmanna aðildarfélaga SGS alls enga styttingu fengið - vinnur ennþá 40 stunda vinnuviku og hefur ekki tök á að vinna að heiman hluta úr degi eða sækja börn fyrr á leikskólann. Þessi staðreynd virðist hafa farið fram hjá þeim sem stýra leikskólamálum.
Þangað til stytting vinnuvikunnar hefur verið innleidd hjá vinnumarkaðinum í heild sinni er þessi viðsjárverða þróun algerlega ótímabær. Hún mun draga úr ráðstöfunartekjum tekjulægstu heimilanna, auka ójöfnuð, grafa undan atvinnuþátttöku og er dýrkeypt bakslag í jafnréttisbaráttunni sem þó á enn langt í land.
Formannafundur Starfsgreinasamband Íslands krefst þess að sveitarfélög leiti annarra leiða til að leysa mönnunarvanda leikskólanna, þessi leið er of dýru verði keypt.
Þá fjallaði stjórn VR um málið á stjórnarfundi og á heimasíðu félagsins segir m.a.:
Stjórn VR gagnrýnir harðlega ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar að hækka leikskólagjöld frá og með mars á næsta ári og skerða þjónustu við fjölskyldur í sveitarfélaginu. Með þessari ákvörðun fetar bæjarstjórn sveitarfélagsins í fótspor Kópavogsbæjar sem fyrir ári hækkaði leikskólagjöld í bænum og dró úr þjónustu (sjá ályktun stjórnar VR). Þessar ákvarðanir hafa óhjákvæmilega í för með sér umtalsverða kjaraskerðingu fyrir launafólk.
Breyting á leikskólagjöldum í Fjarðabyggð mun leiða til mikillar hækkunar á gjöldum fyrir fjölmarga foreldra í sveitarfélaginu, hækkun fyrir dagvistun barns í fullri dagvistun nemur tugum prósenta, samkvæmt útreikningum AFLs starfsgreinafélags. Þá mun skráningardögum fjölga en fyrir vistun á þeim dögum þurfa foreldrar að greiða aukalega (sjá hér frétt á vef AFLs).
Stjórn VR ítrekar að leikskólamál eru kjaramál og skipta launafólk miklu máli. VR styður kjarabætur til leikskólastarfsfólk og telur brýnt að starfsaðstæður þess verði bættar. Stytting leikskóladags barna er af hinu góða, en sú stytting verður að vera samhliða styttingu vinnuvikunnar á hinum almenna vinnumarkaði.
Stjórn VR mótmælir því að sveitarfélög varpi allri ábyrgðinni á foreldra sem margir eru í þeim sporum að hafa ekki stuðningsnet, kjör eða aðstöðu til að bregðast við. Stjórnin hvetur sveitarfélög til að leita annarra leiða til að koma til móts við breytingar í umhverfi leikskóla en að skerða kjör launafólks og færa baráttuna fyrir jafnrétti kynjanna mörg ár aftur í tímann.
Reykjavik 11. desember 2024
Stjórn VR