Verkfallssjóður til umræðu
Á kjaramálaráðstefnu AFLs síðustu helgi var verkfallssjóður félagsins talsvert til umræðu. Nokkrir ráðstefnugestir spurðu hversu stöndugur sjóðurinn væri og hvað hann þyldi langt verkfall. Kristján Gunnarsson, formaður SGS, lýsti þeirri skoðun sinni að tími allsherjarverkfalla væri liðinn
og sennilega yrðu verkföll framtíðarinnar bundin við einstaka þætti þar sem hafa mætti veruleg áhrif á athafnalífið með vinnustöðvun fámennra hópa.
Kristján sagði ennfremur að það veikti ef til vill stöðu hreyfingarinnar að verkfallssjóðir væru á vegum einstakra félaga í stað þess að vera í höndum sambandanna eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar.
Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs, sagði verkfallssjóð félagsins standa nokkuð vel enda hefði félagið lagt allt að 15% félagsgjalda fyrir í sjóðinn síðustu ár. Hins vegar væri vafamál að unnt yrði að aðstoða alla félagsmenn fjárhagslega kæmi til langvinnra verkfalla.