Sú staða sem komin er upp við yfirtöku ríkisins á starfssemi hjúkrunarheimila Fjarðabyggðar er með öllu óásættanleg. Starfsfólk býr við mikla óvissu og hefur mátt þola að starfsöryggi þess er fréttamatur í fjölmiðlum.
AFL Starfsgreinafélag krefst þess að fulltrúar Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Hjúkrunarheimilanna taki þegar til starfa og gangi frá flutningi á ráðningarsambandi við alla starfsmenn og að þess verði gætt að starfsfólk haldi réttindum sínum og kjörum við tilflutninginn.
AFL vekur athygli á því að margir starfsmenn heimilanna eiga langan starfsaldur og að uppsagnarfrestur getur verið allt að sex mánuðir. Félagið mun gæta hagsmuna félagsmanna sinna við þennan tilflutning.
Nýgerður vinnustaðasamningur AFLs og Rafiðnaðarsambandsins við ALCOA Fjarðaál voru samþykktir með miklum meirihluta atkvæða. Atkvæði félagsmanna voru talin úr einum potti og fór atkvæðagreiðslan sem hér segir
Á kjörskrá voru 457 og greiddu 331 atkvæði eða 72,43%
Já sögðu 310 eða 93,66% greiddra atkvæða, nei sögðu 15 eða 4,53% og auðir og ógild atkvæði voru 6 eða 1,81% atkvæða.
Þetta er talsvert yfir væntingum forystu félaganna þrátt fyrir að menn hafi skynjað almenna ánægju með samningana og átt von á því að þeir yrðu samþykktir. Fjölmenn samninganefnd félaganna kom að gerð samninganna og hafa samningamenn einnig verið drjúgir í að kynna samninginn fyrir samstarfsfólki hjá ALCOA Fjarðaál. Eiga því samninganefndarmenn þakkir skyldar fyrir vel unnin störf í samningaferlinu og að því loknu. Þá ber að þakka framlag ríkissáttasemjara sem hélt samningafundi á Austurlandi.
Samningaferlið hefur verið langt og þungt í vöfum. Samningar hafa verið lausir síðan 1. mars í fyrra og voru samningaviðræður lengi í gang - m.a. vegna Covid. Þá varð ágreiningur um túlkun á orlofsrétti vaktavinnumanna eftir vinnutímastyttingu síðustu kjarasamninga og endaði sú deila fyrir Félagsdómi þar sem félögin töpuðu málinu. Loks vísuðu félögin deilunni til ríkissáttasemjara í desember og fóru þá hlutirnir að gerast hraðar.
Breski vinnudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu 2016 að bifreiðastjórar sem óku undir merkjum Uber á Bretlandi væru launamenn en ekki verktakar eða sjálfstætt starfandi. Hæstiréttur Bretlands hefur staðfest þá niðurstöðu.
Dómurinn sem er frá 19. febrúar 2021 er mikill sigur fyrir allt það launafólk sem gert er að vinna í ótryggum ráðningarsamböndum. Tilurð slíkra sambanda eru gjarnan rökstudd með vísan til nýrrar tækni, nýs skipulags vinnunnar, fjórðu iðnbyltingarinnar og svo framvegis. Í enda dags er kjarni málsin alltaf sá að einhver ræður í reynd framkvæmd og skipulagi vinnunnar og sá aðili er að jafnaði sá sem á endanum hirðir arðinn af henni. Réttarstaða aðilana er ójöfn og verður ekki jöfnuð nema með skipulögðum vinnumarkaði sem byggir á réttindum og skyldum sem samkomulag tekst um í kjarasamningum þar sem stéttarfélög hvers réttarstaða er varin í lögum og alþjóðasamningum, koma fram fyrir ótilgreindan hóp launamanna. Í því efni hefur ekkert breyst frá því launafólk byrjaði að skipuleggja sig í upphafi 20 aldar.
Fjallað var um hinn áfrýjaða dóm í frétt ASÍ 8. nóvember 2016. Hæstiréttur Bretlands hefur nú staðfest hann að öllu leyti. Niðurstöðu sína um skilgreiningu bifreiðastjóra Uber sem launamanna byggir Hæstiréttur í meginatriðum á fimm þáttum er lúta að stjórnunarrétti Uber.
1. Þóknun bifreiðastjóranna er alfarið og einhliða ákveðin af Uber. 2. Samningur bifreiðastjóranna og Uber og öll samningskjör eru einhliða ákveðin af Uber. 3. Bifreiðastjórar ráða í reynd ekki hvenær eða hvort þeir vinna því um leið og þeir skrá sig inn í Uber appið er þeim skylt að taka allar ferðir. Haldið er utanum hvort þeir þiggi allar ferðir sem bjóðast og uppfylli þeir ekki markmið Uber í því efni eru þeir afskráðir úr appinu. 4. Uber ræður hvernig bifreiðar eru notaðar og tæknin sem notuð er og er óaðskiljanlegur hluti þjónustunnar er alfarið eign Uber. 5. Uber lágmarkar öll samskipti bifreiðastjóra og farþega og gerir sérstakar ráðstafanir til þess að hindra að framhaldandi viðskiptasamband geti stofnast milli aðila.
Talsverður snjór er á Einarsstöðum og þá hefur snjór víða hrunið af þökum húsa og eru því víða nokkrir skaflar á pöllum húsanna. Gestir um helgina gætu því þurft að kafa einhverja skafla til að komast í lyklaboxin og til að opna húsin. Snjóskóflur eru í geymslunum við hlið útihurða.
Það er hins vegar vel greiðfært á svæðinu og búið að ryðja allar akstursleiðir. Þá er búið að ryðja göngustíga á túninu þannig að fært er að öllum húsum þar (hús 20 - 30).
Það kemur því ekkert í veg fyrir að félagsmenn geti notið útivistar á Einarsstöðum næstu daga og góð hreyfing fylgir því að moka sig að heita pottinum.
Alls voru 220 umsóknir um 19 sumarhús sem félagið hefur til ráðstöfunar um páskana. Þetta eru margfalt fleiri umsóknir en síðustu ár og fyrir páskana í fyrra komu 67 umsóknir í allt.
Dregið var milli umsækjenda og voru þeir í forgangi sem ekki hafa fengið úthlutað síðustu þrjú ár. Allir umsækjendur í forgangshóp voru dregnir út á biðlista sem notaður verður ef einhverjir þiggja ekki úthlutað hús. Eindagi á staðfestingargjaldi er á miðvikudag þannig að eftir viku kemur í ljós hversu mörgum húsum verður skilað aftur.
Vonir standa til að húsin þrjú í Grímsnesi sem félagið keypti á dögunum verði tilbúin til útleigu fyrir páska og verða þau þá boðin þeim sem eru fremstir á biðlista.
Á hádegi í dag var kjörsókn í kosningum félagsmanna AFLs er vinna hjá ALCOA Fjarðaál orðin 46% en þrír dagar eru frá því kosning hófst. Kosningin verður opin til hádegis 1. mars. Á kjörskrá eru alls 425 félagsmenn og höfðu 196 kosið á hádegi.
Talið verður sameiginlega úr atkvæðagreiðslum AFLs og Rafiðnaðarsambands Íslands.
Þá hafa verið framkvæmdar tvær kosningar meðal áhafna á loðnuskipum, önnur með undirmönnum á Berki og Beiti sem Síldarvinnslan gerir út og hin meðal áhafna á Ásgrimi Halldórssyni og Jónu Eðvalds sem Skinney Þinganes gerir út. Efni atkvæðagreiðslnanna var um samvinnu skipa hvors útgerðarfélags fyrir sig. Þannig mun hásetahlutur vera reiknaður úr sameiginlegum potti afla beggja skipanna og þau skipuleggja veiðar sínar þannig að aflaverðmæti verði sem mest og nýting skipa best. Kjörsókn beggja þessara kosninga var 100% og niðurstöður afgerandi samþykkt samkomulaga um þetta fyrirkomulag.