Útúrsnúningar og hártoganir!
Sviðsstjóri kjarasviðs Sambands Sveitarfélaga, Inga Rún Ólafsdóttir, hefur ekki mikið álit á launafólki - og finnst raunar bara brandari að fólk leggi fram kröfur í kjaraviðræðum og kallar þær "viðbit" - sem er kannski ekki skrítið þegar launakjör lægstlaunuðu starfsmanna sveitarfélaga eru kannski bara eins og smá viðbit fyrir hana og aðra forystusauði sveitarfélaganna.
Inga Rún gerir grín að því að starfsfólk geri kröfu um viðunandi vinnu-og öryggisbúnað og nefnir sérstaklega sólgleraugu (sem m.a. starfsmenn sundlauga þurfa að nota til að sinna starfi sínu og öryggisvörslu) og skó sem á flestum vinnustöðum þykir sjálfsagt að útvega ef gerð er krafa um sérstakan skófatnað. Síðast en ekki síst gerir Inga Rún grín að því að pöbullinn vilji aðgengi að örbylgjuofni og það er varla nema von að fólk sem étur í glæsilegum mötuneytum sem niðurgreidd eru af almenningi - skuli furða sig á því að fólk þurfi að hita matinn sinn sjálft. ("Af hverju étur ekki pakkið bara kökur"?)
Á öllum alvöru vinnustöðum kæmi krafa um aðbúnað á kaffistofu aldrei til umræðu því menn hefðu skammast sín til að hafa þetta í lagi. Þegar þetta er ekki í lagi - er síðasta úrræði launafólks að senda kröfuna inn á samningafundi. Ef þetta er svona lítið og ómerkilegt að það er efni í brandararæðu fyrir kjörna fulltrúa sveitarfélaganna - ætti að vera létt verk og löðurmannlegt að leysa úr þessum kröfum. Hvað ætli sólgleraugu fyrir sundlaugarverði kosti? Ætli örbylgjuofnar í kaffistofur þar sem þá vantar kosti álíka og niðurgreiðsla í mötuneyti Sambands Sveitarfélaga kostar á dag?
Það er með ólíkindum að kjörnir fulltrúar almennings í landinu hafi setið þegjandi undir ræðu Ingu Rúnar. Málflutningur hennar og framkoma Sambands Sveitarfélaga síðustu misseri eru kjörnum fulltrúum í sveitastjórnum landsins til skammar og minnkunar. Komandi verkföll hjá sveitarfélögunum má skrifa skuldlítið á forystuna og þá fulltrúa í sveitarstjórnum sem við kjósum aftur og aftur til valda.
Í hlekknum hér má sjá þessa yfirgengilegu ræðu. https://www.visir.is/k/bbcd938b-264c-4637-a433-be0a574e114f-1572605823613?jwsource=cl