Slitnaði á mönnunar-og öryggismálum!
Sjómannaverkfall er hafið. Að sögn formanns Sjómannadeildar AFLs Starfsgreinafélags, Grétars Ólafssonar, slitnaði á ágreiningi um alls 10 stöðugildi í flotanum öllum. Sjómenn gera kröfu um að bætt verði við ienum háseta á uppsjávarskip og kokkarnir hætti að koma á dekk. Sjómannadeild AFLs hefur fjallað um öryggismál á uppsjávarskipum í nokkur ár og m.a. sent atvinnumálanefnd Alþingis erindi vegna þessa - án þess að hafa verið virt svars.
Að sögn Grétars á hann von á að verkfallið geti varað einhvern tíma og segist ekki sjá samkomulag í augsýn. Hann sagði sjómenn hafa gefið eins mikið eftir í mönnunarkröfum og unnt væri - og lengra yrði ekki farið í því efni. Því mætti búast við að flotinn yrði við bryggju næstu daga eða vikur.
Grétar sagðist búast við tilraunum til verkfallsbrota - einkum á minni bátum þar sem menn þættust hafnir yfir samninga. Einnig sagði hann að menn hefðu verið með alls kyns brellur svo sem að leggja línu rétt fyrir upphaf verkfalls - en allt að sólarhring getur tekið að draga línuna aftur. Brugðist verður hart við verkfallsbrotum að sögn Grétars og á hann ekki von á að sjómenn rói svo glatt með verkfallsbrjótum í framtíðinni.