AFL Starfsgreinafélag vill ítreka stuðning við verkfallsaðgerðir Eflingar og VR svo og annarra félaga, sem boðaðar hafa verið. AFL beinir því til félagsmanna sem starfa kunna utan félagssvæðis AFLs og sinna störfum sem falla undir kjarasamninga þessara félaga og undir boðuð verkföll - að virða löglega boðuð verkföll og sinna ekki þeim störfum sem undir þau falla.
Í verkfalli SGS félaga 2015 bar nokkuð á því að t.d. bílstjórar sem óku á Austurlandi og tilheyrðu t.d. Eflingu, töldu sig ekki þurfa að virða verkfall AFLs. Það var þá einróma skilningur allra aðildarfélaga Alþýðusambandsins að þó svo að starfsmenn tilheyrðu ekki því félagi sem boðað hafði verkfall - tók verkfallsboðunin til viðkomandi ef hann vann starf sem féll undir verkfallsboðun og á félagssvæði þess félags sem boðað hafði verkfall.
Á mínum síðum AFLs Starfsgreinafélags verður á næstu dögum opnað fyrir móttöku umsókna um styrk úr verkfallsjóði félagsins - vegna þátttöku í verkföllum utan félagssvæðis.
Í tilefni af fréttum fjölmiðla þess efnis að Framsýn stéttarfélag hefur ákveðið að afturkalla samningsumboð sitt frá Starfsgreinasambandinu vegna tveggja kjarasamninga vill samninganefnd Starfsgreinasambandsins koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri:
Framsýn stéttarfélag hefur ákveðið að afturkalla samningsumboð sitt frá Starfsgreinasambandinu og er það í samræmi við forræði einstakra félaga á sínum málum. Það er miður að í tengslum við þessa samþykkt þurfi að bera félaga sína þungum sökum. Samninganefnd Starfgreinasambandsins mun aldrei taka þátt í því að semja um að rýra kjör okkar fólks, hvort sem það lítur að vinnutíma, álagsgreiðslna eða annara þátta. Í viðræðum við Samtök atvinnulífsins hefur þessi afstaða komið fram með mjög sterkum og afdráttarlausum hætti og samninganefndarmönnum á að vera það algerlega ljóst. Það má minna á að Starfsgreinasambandið sleit viðræðum við SA vegna þessara þátta. Samninganefnd Starfsgreinasambandsins mun ekki standa í skeytasendingum við félaga sína í fjölmiðlum. Verkefni okkar er að ná samningum um bætt kjör okkar fólks, við einbeittum okkur að því í samhljómi við félaga okkar í Eflingu, Verkalýðsfélagi Akraness og Grindavíkur.
Reykjavík, 20. Mars 2019
F.h. Starfsgreinasambandsins
Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri
Ten adres pocztowy jest chroniony przed spamowaniem. Aby go zobaczyć, konieczne jest włączenie w przeglądarce obsługi JavaScript. s. 897 8888
Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur samþykkt að halda viðræðum áfram við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning og verður viðræðum haldið áfram eftir helgi. Aðilar hafa fundað nánast daglega undanfarnar vikur, auk þess sem vinna starfshópa um einstök málefni hefur verið í fullum gangi. Viðræðurnar hafa gengið þokkalega en staðan er viðkvæm og margt er enn óleyst. Þolinmæði Starfsgreinasambandsins í þessum kjaraviðræðum er ekki endalaus og það er ljóst að næsta vika getur ráðið úrslitum upp á framhaldið.
Samninganefndir iðnaðarmanna og verslunarmanna munu funda áfram um helgina í húsnæði ríkissáttasemjara
Í gær og í dag slitu annars vegar iðnaðarmenn viðræðum við SA og hins vegar Landssamband íslenskra verslunarmanna. Samiðn fór með samningsumboð fyrir iðnaðarmannadeild AFLs og LÍV fór með samningsumboð Verslunarmannadeildar AFLs. Á mánudag sleit Starfsgreinasambandið viðræðum og því er ljóst að allir lausir kjarasamningar félagsins eru í uppnámi og stefnir í verkfallsátök fljótlega.
Aðgerðahópur SGS hittist í gær og mótaði tillögur til að leggja fyrir samninganefnd SGS á mánudag. Búast má við tillögum um verkfallsaðgerðir hjá hinum landssamböndunum fljótlega.
Innri átök hafa einnig einkennt fréttaflutning af gangi mála í húsi Sáttasemjara. Þannig sagði formaður Landssambands Íslenskara Verslunarmanna af sér í morgun og vill ekki leiða viðræður sambandsins lengur og segir að ósætti hafi verið milli sín og formanns VR. Formaður Framsýnar á Húsavík hefur dregið samningsumboð félagsins til baka frá SGS og í ályktun félagsins er sagt að önnur félög innan SGS hafi verið reiðubúin til að semja um skerðingar á kjörum félagsmanna. Yfirlýsing Framsýnar kom flestum formönnum innan SGS á óvart þar sem talið var að einhugur hafði verið í samninganefndinni um markmið og leiðir.
Í frétt á heimasíðu Framsýnar er þess getið að félagið ætli að ganga til liðs við Eflingu og VR og Vlf. Akraness en þar eru verkfallsaðgerðir þegar hafnar og því eflaust stutt í að verkföll skelli á í Þingeyjarsýslum.
Samninganefnd AFLs hefur verið boðuð til fundar á morgun fimmtudag og þar fær formaður félagsins tækifæri til að kanna vilja félagsmanna til aðgerða og fara með skilaboðin inn á fund samninganefndar SGS eftir helgi.
Búast má við að undirbúningur að aðgerðum hefjist fljótlega og miðað við sama framgang og verið hefur hjá þeim félögum sem lengst eru komin - má búast við að verkföll skelli á um miðjan maí mánuð.
Engar nýjar hugmyndir eða tillögur hafa komið fram frá Samtökum atvinnulífsins um helgina, þannig að SGS hefur ákveðið að slíta viðræðum og félögin munu nú sækja heimildir frá félagsmönnum til aðgerða. SGS hefur sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:
Starfsgreinasamband Íslands hefur ákveðið að slíta kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins eftir árangurslausan fund hjá ríkissáttasemjara í dag. Síðastliðinn föstudag samþykkti samningarnefnd Starfsgreinasambandsins einróma að ef ekki kæmu fram nýjar hugmyndir eða viðbrögð frá Samtökum atvinnulífsins um helgina, hefði viðræðunefnd sambandsins fulla heimild til þess að slíta kjaraviðræðum. Engar nýjar hugmyndir eða tillögur hafa komið fram frá Samtökum atvinnurekenda.
Því hefur viðræðunefnd Starfsgreinasambandsins slitið kjaraviðræðum og mun í kjölfarið sækja heimild til aðgerða frá félagsmönnum.