AFL starfsgreinafélag

Opið fyrir umsóknir um sumarhús 2024

Screenshot 2024 03 07 124117

Búið er að opna fyrir umsóknir um sumarhús nk. sumar.  Úthlutað verður á opnum fundi að Búðareyri 1, Reyðarfirði þann 9. apríl og verður fundurinn auglýstur síðar.

Þeir sem ekki hafa fengið úthlutað síðustu 3 ár eru í forgangi og er dregið milli þeirra sem í forgangi eru - ef fleiri umsóknir eru um fleiri hús á hverju tímabili, en félagið hefur til ráðstöfunar.

Strax við úthlutun verður stofnuð krafa fyrir staðfestingargjaldi, kr. 5.000,- og er eindagi þess 25. apríl.  Ef það ekki er greitt í tíma fellur leiga niður og húsinu er ráðstafað til þess sem efstur er á biðlista.

Staðfestingargjald er ekki endurgreitt þó fallið sé frá leigu eftir 26. apríl. 

 

Orlofsbæklingur félagsins er hér  https://asa.is/images/stories/Baeklingar/AFL_Orlofsbaeklingur.pdf

Þar sem Pósturinn er hættur að bera út dreifipóst - verður bæklingnum ekki dreift í hús á félagssvæði.  Nálgast má bæklinginn í næstu viku á skrifstofum félagsins og eins á heimasíðu félagsins sbr. hlekkinn hér að ofan. 

Útgerðirnar samar við sig!

Ánægja með nýgerðan sjómannasamning dvínaði hratt í dag þegar í ljós kom að einhverjar útgerðir bera litla virðingu fyrir eigin loforðum.  Í nýjum samningi er ákvæði um eingreiðslu sem til greiðslu er 1. mars - 400.000 krónur.  Sjómenn á uppsjávarskipum sem ekki eiga kolmunakvóta eru búnir að vera launalausir nú í á þriðja mánuð og munar því um þessa eingreiðslu.

Í staðinn fyrir eingreiðsluna fengu sjómenn einnar stórútgerðar tölvupóst frá fyrirtækinu með tilkynningu um að ekki yrði staðið við þetta ákvæði nýundirritaðs kjarasamnings.  Eingreiðslan kæmi 15. mars í stað 1. mars eins og kveðið er á um í samningnum.  Útgerðin sá ekki ástæðu til að biðja menn afsökunar á þessu samningsbroti heldur sendi þetta sem tilkynningu - eins og frá þeim sem valdið hefur og varðar lítt um hagsmuni annarra eða eigin loforð.

Við lokafrágang kjarasamningsins ræddu samningsaðilar um að bæta samskipti og reyna að bæta traust og ímynd atvinnugreinarinnar.  Það eru innantóm orð í ljósi þessa.  Það er búið að skrifa fyrsta kaflann í uppsögn samningsins um leið og það er unnt.  Þegar þetta er ritað er AFLi ekki kunnugt um hvernig fór með eingreiðsluna hjá öllum útgerðum - en athugasemdir hafa borist frá sjómönnum tveggja af stærri útgerðum á félagssvæðinu. 

Hvernig breytist veikindaréttur sjómanna?

Veikindaréttur sjómanna

 

Á vegum Sjómannasambands Íslands er verið að vinna skýrari kynningarglærur á veikindarétti og ennfremur kynningarglærur um viðbótarlífeyrisframlag sjómanna.  Það er mikilvægt fyrir sjómenn að kynna sér vel lífeyrismálin áður en þeir taka ákvörðun um hvort viðbótin fer í samtryggingadeild eða tilgreinda séreign.  Báðar leiðir hafa kosti og ókosti.

 

1. Samtryggingadeild - verulega aukin lífeyrisréttindi við starfslok.  Allt að 30% meiri tryggingavernd við örorku.  Hentar best fyrir yngri sjómenn með fjölskyldu á framfæri og fasteignaskuldbindingar.  Erfist ekki.

2. Tilgreind séreign. Greidd út í einu lagi eða fáum árum við starfslok. Erfist.  Hefur ekki áhrif á langtímalífeyrisgreiðslur og veitir ekki aukna vernd gagnvart örorku.  Hentar best fyrir sjómenn sem komnir eru yfir miðjan aldur og eru farnir að horfa fram á starfslok. 

Tilkynning frá Sjómannasambandi Íslands

Kjarasamningur sem undirritaður var þann 6. febrúar 2024 var samþykktur með 62,84 greiddra atkvæða. 37,17% voru á móti. Kjörsókn var 53,62%

Það er alltaf ánægjulegt þegar kjarasamningur er samþykktur. Sérstaklega núna eftir allt það skítkast og óhróður sem beindist að forystumönnum Sjómannasambandsins. Það sýnir sig best að við sem höldum uppi málefnalegri og siðaðri umræðu höfðum vinninginn. Fyrir það ber að þakka þeim sem komu með okkur í vegferðina.

Samningurinn er tímamótasamningur fyrir sjómenn.

Loksins eru sjómenn innan SSÍ komnir með lífeyrisréttindi á við aðra landsmenn. Loksins er gert upp úr 100% aflaverðmæti. Loksins geta sjómenn sagt að þeirra hlutur í olíukostnaði sé í burtu. Nú geta sjómenn sótt hækkun beint á skiptaprósentu ef þurfa þykir með grein 1.39.1. Loksins koma hækkanir á kauptryggingu og kaupliðum eins og gerist á almenna markaðnum. Loksins hætta sjómenn yfirstöðu við yfirísun. Loksins fá sjómenn desember uppbót árið 2028. Loksins er stærðarmörkum skipa breytt þannig að gagn sé að. Áfram gakk.

Valmundur Valmundsson formaður SSÍ lét hafa eftir sér eftir að niðurstaða var kynnt.

,,Núna eru sjómenn innan SSÍ komnir með alvöru kjarasamning eftir erfiða fæðingu. Sá samningur sem felldur var fyrir ári síðan er grunnurinn að þessum nýja samningi. Við bættum við og lagfærðum það sem sjómenn gagnrýndu hvað mest í þeim samningi. Ég er stoltur af mínum félagsmönnum innan Sjómannasambandsins að samþykkja samninginn. Taka ekki mark á öllum þeim óhróðri og rangfærslum sem steypt var yfir sjómenn í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar og meðan á henni stóð. Eins og ég hef áður sagt opinberlega, kunna sjómenn að lesa sér til gagns og greina kjarnann frá hisminu. Við unnum að kynningu samningsins á málefnalegan og faglegan hátt án upphrópana og útúrsnúninga. Það er að skila sér núna með samþykkt þessa nýja samnings.”

Úrtöluraddir munu halda áfram að hljóma um innihald samningsins. Hlustum ekki á hælbítana, höldum stoltir áfram og vinnum eftir góðum kjarasamningi næstu árin.

 

F.h. framkvæmdastjórnar og samningansefndar Sjómannasambands Íslands Valmundur Valmundsson

Sjómenn samþykkja kjarasamning

Talningu er lokið í kosningum Sjómannasambandsfélaga um nýgerðan kjarasamning við SFS - sem undirritaður var 6. febrúar.

Á kjörskrá voru 1104 og kusu 592 eða 53,62%

Já sögðu 367 eða 61,99% af greiddum atkvæðum

Nei sögðu 217 eða 36,66% af greiddum atkvæðum

Auðir/ógildir voru 8 eða 1,35% af greiddum atkvæðum.

Samningurinn var því samþykktur með góðum meirihluta atkvæða og eru því sjómenn aftur komnir með kjarasamning en fyrri samningi lauk 2019.

Kosningaþátttaka sjómanna í AFLi var mjög góð eða 75%.

Hvað er áunnið við aukin lífeyrisréttindi?

Í umræðu um nýgerðan kjarasamning sjómanna er oft haldið fram að laun lækki við samninginn.  Þetta er ósatt og besta falli hálfsannleikur.  Hið rétta er að útborguð laun lækka lítillega en á móti kemur veruleg viðbót í lífeyrissparnað.  Við reiknuðum hér út hvernig þetta kemur út fyrir sjómann með 24 milljón króna árstekjur. 

Tafla 1

 

 

Af þessari mynd sjáum við að heildarlaun til útborgunar lækka um 274.000 en á sama tíma hækkar framlag í lífeyrissjóð um 808.000 og því er hagur sjómannsins betri sem nemur 561.000 kr á ári.  En laun til útborgunar er ekki sama og laun í vasann:  Á næstu mynd sjáum að útborguð laun þessa manns – með 24 milljón króna árstekjur lækka um 132.000 eða röskar 10.000 krónur á mánuði. 

Tafla 2

Þetta skiptir auðvitað máli og því velta menn fyrir sér hvað menn fá fyrir þessar 10.00 krónur.  Fyrir það fyrsta þá leggja menn 29,5% meira í lífeyrissjóð en áður – og það þýðir stórkostlega aukin lífeyrisrétt þegar þar að kemur.

En það hangir meira á spýtunni.  Sjómenn vinna hættuleg störf og því miður endar sjómennskan stundum með alvarlegu slysi.  Þegar menn hafa börn á framfæri og glíma við fasteignaskuldir munar því um hverja krónu í örorkubætur.

Við fengum Stapa lífeyrissjóð til að skoða bætta stöðu sjómanna við 100% örorku samanborið við núverandi kerfi.  Við sjáum hér að örorkulífeyrir manna hækkar um frá 22% og upp í 29% við þessa breytingu.  Það er rétt að vekja athygli á því að t.d. í tilfelli 25 ára mannsins - hækkar örorkugreiðslur til hans í 951.000 á mánuði og þá upphæð fær hann mánaðarlega framvegis.  Þ.e. á fyrsta mánuði á örorkulífeyri fær hann árlega kostnaðinn sinn endurgreiddann og það vel ríflega og svo mánaðarlega eftir það.

Tafla 3

Menn geta svo haft samband við Tryggingafélög og kannað hvort álíka tryggingar standi til boða og þá fyrir hvaða verð.  

 

 

Hvað gengur mönnum til?

sjomennSíðustu daga hefur nokkur fjöldi manna gengið hart fram á samfélagsmiðlum í málflutningi um nýgerðan kjarasamning sjómanna í Sjómannasambandi Íslands - til þess að hvetja til að sjómenn felli samninginn.  Fæstir þeirra sem harðast ganga fram eru sjómenn.  Flestir þeir sem harðast berjast gegn því að sjómenn samþykki þann kjarasamning sem nú er til umfjöllunar - taka ekki laun skv. þessum samningi.  Þessir aðilar leggja sjálfir 15,5% í lífeyrissjóð og njóta örorkutryggingar í samræmi við það.  Þeir hafa notið allra samningsbundinna launahækkana síðustu ár. Þeir hafa staðgengilslaun í veikindum í þrjá mánuði eða lengur.  En þeir virðast ekki vilja una sjómönnum þessara hluta.

Í öllum skoðanakönnunum og samtölum við sjómenn síðustu ár - hefur krafa um jafnan lífeyrisrétt verið háværust.  Það næst í þessum samningi. Óréttlætið í veikindum sjómanna er mikið.  Menn í skiptimannakerfum með 50% hlut fá staðgengilslaun í tvo mánuði en eru síðan á kauptryggingu. Með þessum samningi eru staðgengilslaun manna í skiptimannakerfum tryggð í 4 mánuði.  Veikinda-og slysaréttur manna í afleysingum eru óbreyttur og fer skv. sjómannalögum.

AFL Starfsgreinafélag hefur reynt að hafa samráð við félagsmenn - bæði á meðan samningaviðræðum stóð og nú á meðan atkvæðagreiðslu stendur.  Áður en samninganefnd Sjómannasambandsins skrifaði undir samninginn mættu sjómannafélögin með nokkurn fjölda starfandi sjómanna - manna sem hafa lifibrauð sitt af sjósókn og alla hagsmuni af því að samningar séu ásættanlegir.  Alls komu um 40 sjómenn til fundar í húsi sáttasemjara þann 30. janúar.  Sjómannafélögin reyndu að fá þá félagsmenn sína sem gagnrýnir voru við síðustu atkvæðagreiðslu og sögðu nei við þeim samningi.  Þetta er nefnilega ekki stríð eða átök milli manna heldur samvinna og samstaða um árangur.  Sjómannafélögin innan Sjómannasambandsins útiloka því ekki þá sem eru gagnrýnir heldur kallar á þá inn til þátttöku.  Fyrir okkur er þetta ekki persónulegt - við móðgumst ekki þegar samningar eru felldir - heldur reynum við að bregðast við og gera betur.  Þegar við teljum okkur ekki komast lengra  - leggjum við samninginn í atkvæðagreiðslu.

Þeir sem pósta núna rangfærslum og ósannindum um kjarasamning sjómanna eru með því að lýsa vanþóknun sinni á þeim 40 sjómönnum sem funduðu með samninganefnd SSÍ og gáfu henni einróma heimild til að halda áfram.  Þeir eru að gera lítið úr gáfnafari og dómgreind starfandi sjómanna með því að tyggja í þá rangfærslur og ósannindi daginn út og inn.  Sjómenn í AFLi eru alveg einfærir um að gera upp hug sinn varðandi þann samning sem í boði er.  Flestir þessara aðila sitja bak við skrifborð í landi, með fullan lífeyrisrétt og góðan veikindarétt og reyna að hafa þessi gæði af sjómönnum.  Skömm sé þeim.

Það er engin stétt á Íslandi sem má þola jafn miklar og ósvífnar árásir manna sem telja sig "sjómenn" en hafa ekki komið á sjó í mörg ár.  Það eru engir kjarasamningar sem sæta þvílíkum árásum og ofstæki en kjarasamningar sjómanna.  Maður hlýtur að velta fyrir sér hvað mönnum gangi til - hvort það sé bara eintóm illgirni og óþverraháttur.  Sjómenn eru einfærir um að gera kjarasamninga og þurfa ekki aðstoð einhverra "áhugasjómanna".

Það er nóg af gagnrýnum röddum í okkar hóp.  Þeir eru hins vegar málefnalegir og koma spurningum og gagnrýni á framfæri við forystu félaganna og fá svör.  Þeir ganga ekki um og níða menn niður.

AFL Starfsgreinafélag hefur nær aldrei fjallað um önnur stéttarfélög og málefni þeirra.  Okkur finnst ósmekklegt að reyna að hafa áhrif á samninga eða málefni annarra félaga.  Félagsmenn verkalýðsfélaga eiga rétt á að ráða ráðum sínum án utanaðkomandi afskipta sjálfskipaðra sérfræðinga sem sjálfir bera enga áhættu og hafa enga hagsmuni aðra en að eyðileggja og spilla málum.

Kosningar um þann kjarasamning sem nú er til afgreiðslu eru mikilvægar.  Það er ljóst að ef samningurinn fellur verður forysta Sjómannasambandsins í vanda - með tvífellda samninga.  Hætt er við að talsverð töf verði á áframhaldandi viðræðum því það þarf að fara í djúpt samráð í félögunum varðandi framhaldið.  Sjómenn verða því áfram í mánuði eða misseri með unglingavinnulaun í tímavinnu, með kauptryggingu langt fyrir neðan lægstu launataxta í landi.  Með lélegust lífeyriskjör í landinu og lélegan veikindarétt.

Úrtölumenn bera því mikla ábyrgð.  Ef sjómenn fella samninginn eftir gaumgæfilega skoðun - er ekkert við því að segja og menn verða þá að bretta upp ermar.  En falli samningurinn vegna áróðurs sófasérfræðinganna í landi - er ábyrgð þeirra mikil því það verða sjómenn sem bera tjónið - ekki úrtölumennirnir.

 

Og þar sem Sjómannafélag Íslands sá ástæðu til að vara við þessum samningi - þá er rétt að benda á að meginhlutverk og ábyrgð verkalýðsfélaga er að gera kjarasamning fyrir félagsmenn sína.  Kjarasamningur Sjómannafélags Íslands rann út 2019 og enn hefur ekki heyrst af neinum viðræðum þeirra við viðsemjendur.  Kannski þeim þyki þægilegra að gera ekki neitt og gera svo hróp að þeim sem gera eitthvað.  Það er náttúrulega miklu auðveldara en að axla ábyrgð og gera kjarasamning og leggja í dóm félagsmanna.

Það er ástæða að vekja og athygli á því að það fara engar sögur af því að eitthvað verkalýðsfélag, innanlands sem ytra, hafi gert hinn fullkomna kjarasamning.  Það má alltaf gera betur.  En þegar menn eru komnir að því sem þeir meta endastöð hverju sinni - leggja menn þann samning í dóm félagsmanna.  Það er ekki flókið.