AFL starfsgreinafélag

Góð heimsókn frá nágrönnum

Faereyingar

40 manna hópur forystumanna og starfsmanna nokkurra færeyskra verkalýðsfélaga leit við á skrifstofu AFLs á Reyðarfirði í dag.  Hópurinn er í stuttri heimsókn til Íslands og AFL bauð upp á íslenska kjötsúpu í tilefni dagsins.  Hópurinn hafði beðið um stutta kynningu á uppbyggingu íslenskrar verkalýðshreyfingar og kynning AFLs hófst á orðunum  "skipulag íslenskrar verkalýðshreyfingar er mjög ruglingslegt fyrir utanaðkomandi".  Eftir kynninguna var hópurinn mjög sammála þessari fullyrðingu.  Heimsóknin var á léttu nótunum og eftir kjötsúpuna og létt spjall héldu grannar okkar áfram skoðunarferð sinni um Austurland.

Opið fyrir bókanir um jól og áramót

Búið er að opna fyrir bókanir í orlofshús og íbúðir AFLs um jól og áramót.  Hvort "úthlutunartímabil er ein vika.  Bókað er á "mínum síðum" á www.asa.is.

Greiða þarf staðfestingagjald vegna bókunar - og er eindagi þess 15. október.  Staðfestingagald er ekki endurgreitt þó fallið sé frá bókun síðar.

Eindagi leiguverðs er 2. desember og er fullgreidd leiga en sem síðan er fallið frá, ekki endurgreidd nema takist að endurleigja íbúðina.

Ástæða er til að vekja athygli á að orlofseignir AFLs eru einungis fyrir félagsmenn og nærfjölskyldu þeirra.  Félagsmanni er að sjálfsögðu heimilt að bjóða gestum að dvelja með sér í orlofseign - en félagsmönnum er ekki heimilt að leigja orlofseign og afhenda öðrum til nota - án þess að dvelja þar sjálfir. Er þar með átt við börn viðkomandi, aðra ættingja og / eða vinafólk. 

Tekið er hart á brotum á þessum reglum - og félagið áskilur sér rétt til að innheimta markaðsleigu fyrir íbúðir sem þannig er farið með auk annarra viðurlaga sem félagsmaðurinn sem leigði - verður fyrir.

Úthlutun orlofseigna félagsins um jól og áramót er á "fyrstur kemur - fyrstur fær" formi eins og síðustu tvö ár.  Ástæða þess er að síðustu nokkur ár hefur tekist að leysa úr málum nánast allra sem óska eftir að dvelja í orlofseignum félagsins á þessum tíma  - en úthlutunum fylgdi sá galli að afbókanir bárust oft seint og þeir sem þá höfðu verið á biðlista voru búnir að gera aðrar ráðstafanir.

Árangurslaus samningafundum með sveitarfélögum.

Fyrsti samningafundur AFLs með sveitarfélögunum var haldinn í gær eftir að AFL dróg umboð sitt til baka frá Starfsgreinasambandinu. Fundurinn var boðaður af ríkissáttasemjara og varð áranguslaus

Ræstingarauki um næstu mánaðarmót

Raestingin

Í kjarasamningi SGS og SA, sem undirritaður var í mars síðastliðnum, var samið um ræstingarauka fyrir starfsfólk í ræstingum á almenna markaðnum. Þetta þýðir að ræstingarfólk fær sérstaka viðbótargreiðslu með launum frá og með ágúst sem greidd verða út um næstu mánaðamót.

Ræstingaraukinn skal greiddur út mánaðarlega og reiknast hann í hlutfalli við starfshlutfall, en fyrir fullt starf er hann 19.500 kr. á mánuði. Hafa ber í huga að ræstingaraukinn er ekki hluti af grunnlaunum og myndar þar af leiðandi ekki stofn fyrir yfirvinnu og aðrar álagsgreiðslur

Félagsmenn í AFLi sem starfa við ræstingar á almennum vinnumarkaði eru hvattir til að fylgjast með, skoða launaseðla sína vel nú sem endranær.

Stórt skref til bak í réttindamálum sjómanna: Togarasjómenn landa sjálfir

Þerney24aMyndin er tekin af heimasíðu Brim ehf.

Nýverið gerði Sjómannafélag Íslands (sem ekki er aðili að Sjómannasambandinu) vinnustaðasamning fyrir áhöfnina á Þerney sem er nýr frystitogari. Með samningnum taka sjómenn að sér að landa aflanum sjálfir en íslenskir togarasjómenn hafa ekki unnið við löndun í áratugi og skýrt er kveðið á um í kjarasamningum að menn eigi hafnarfrí. 

Hér fyrir neðan fer ályktun framkvæmdastjórnar Sjómannasambands Íslands - sem er vægast sagt ekki hress með þetta félagslega undirboð Sjómannafélags Íslands. það er af sem áður var að Sjómannafélag Reykjavíkur (nú Sjómannafélag Íslands) fór í fararbroddi í kjarabaráttu sjómanna og var forystuafl í Alþýðusambandinu. 

 

Sjómenn ganga í störf hafnarverkamanna og taka að sér löndun eftir langa útiveru.

Sjómannasamband Íslands leggur það ekki í vana sinn að hlutast til um kjarasamninga annara „stéttarfélaga“. Nú er hins vegar svo komið að ekki verður orða bundist.

Útgerðarfélagið Brim hf með blessun Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, og Sjómannafélags Íslands, hafa nú gert með sér svokallaðan „vinnustaðarsamning, um fyrirkomulag vinnu í inniverum“ fyrir skipverja á Þerney Re, sem er frystiskip Brims hf, nýskráð á Íslenska skipaskrá.

Þessi svokallaði inniverusamningur var borinn undir atkvæði áhafnarinnar með fulltingi Sjómannafélags Íslands. Áhöfnin samþykkti gerninginn sem er auðvitað með hreinum ólíkindum og vafi leikur á hvers vegna. Brim hf, SFS og Sjómannafélag Íslands, hafa nú staðfest samninginn fyrir sitt leiti. Samningurinn gengur m.a. út á að sjómennirnir landi aflanum sjálfir, fyrir smánarlaun. Aldrei áður hafa Íslenskir togarasjómenn landað aflanum sjálfir.

Með þessu standa Sjómannafélag íslands, Brim hf og SFS að réttindi sjómanna eru færð marga áratugi aftur í tímann. Frystitogarasjómenn hafa aldrei þurft að landa aflanum sjálfir. Með þessu er brotið blað í réttindamálum íslenskra sjómanna. Áratuga barátta forvera okkar er brotin á bak aftur.

Sjómenn á togurum eiga frí við löndun eins og skýrt er í kjarasamningi og verið hefur í áratugi.

Öryggi sjómanna er stefnt í hættu með því að fara beint í löndun eftir að hafa staðið í þrifum á skipi nánast alla heimferð.   Áhöfnin er þreytt og slæpt eftir langan túr og ekki eins vakandi eins og þarf við hættuleg störf. Jafnvel að koma úr 40 daga túr.

Þessi samningur er einnig það sem kallað er „félagslegt undirboð“ sem er þegar menn taka að sér störf fyrir lægra gjald en áður hefur verið samið um – en hvati útgerðarinnar til að gera þennan samning er auðvitað að þetta er mun ódýrarara en að greiða hafnarverkamönnum fyrir löndunarþjónustu.

Sjómannasamband Íslands hvetur alla sjómenn og stéttarfélög sjómanna innan SSÍ að vera á verði gegn réttindamissi af þessu tagi. Þetta er hrein og klár misnotkun á ákvæði kjarasamninga um sérsamninga. Ef viðsemjendur okkar ætla og vilja að réttindi Íslenskra sjómanna verði færð marga áratugi aftur í tímann er einsýnt að kjarasamningum verður sagt upp við fyrsta tækifæri. Ein af kröfum okkar verður þá að öll frávik frá aðalkjarasamningi verði felld þaðan út.

Tekið skal fram að Sjómannafélag  Íslands er ekki  eitt af 16 aðildarfélögum  Sjómannasambands Íslands.

Framkvæmdastjórn Sjómannasambands Íslands

Kjarasamningur við ríkið 2024-2028 samþykktur

sgs rikid nidurstada

 

Atkvæðagreiðslu er lokið hjá 18 aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands, vegna nýs kjarasamnings SGS og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs sem undirritaður var 25. júní síðastliðinn. Rafræn atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna stóð yfir dagana 1.-8. júlí. Á kjörskrá voru 1.309 manns og var kjörsókn 22,84%. Já sögðu 87,96%, nei sögðu 7,69% og 4,35% tóku ekki afstöðu.

Samningurinn var því samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta hjá þeim 18 aðildarfélögum sem eiga aðild að honum.

Eftirtalin félög eiga aðild að samningnum: AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélag Vesturlands, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélagið Hlíf. 

Frétt af heimasíðu sgs.is