Nú fyrir skömmu voru samninganefndarmenn sjómanna boðaðir til fundar í fyrramálið. Grétar Ólafsson, formaður Sjómannadeildar AFLs, og Grétar Smári, hinn samninganefndarmaður AFLs, leggja af stað í nótt akandi frá Vopnafirði og Höfn, til fundar þar sem ekki er von á innanlandsflugi.
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands telur forsætisnefnd Alþingis hafa fallið á fyrstu prófraun sinni og sýnt að Alþingi skortir jarðsamband og tengsl við almenning í landinu. Sl. haust ofbauð landsmönnum ákvörðun kjararáðs um fordæmalausa hækkun launa og fastra greiðslna til alþingismanna. Síðan þá er búið að skipta um helming þingmanna og snérust kosningarnar í haust ekki síst um breytt siðferði.
Nýir þingmenn höfðu tækifæri til að beita sér og sýna í verki að alvara lá að baki kosningaloforðum og taka til baka hækkun þingfaralauna umfram það sem hinn almenni launamaður hefur fengið í sitt umslag.
Miðstjórn Alþýðusambandsins mótmælir hálfkáki forsætisnefndar þingsins og krefst þess að Alþingi taki málið upp og afturkalli hækkanir kjararáðs. Miðstjórn ASÍ minnir á að forsenduákvæði kjarasamninga eru til endurskoðunar nú í febrúar og hækkanir til alþingismanna og æðstu embættismanna geta sett framhald kjarasamninga alls þorra landsmanna í uppnám.
Mikil óvissa ríkir um framhald viðræðna um kjarasamning sjómanna eftir að slitnaði upp úr í viðræðum Sjómannasambandsins og útgerðarmanna í dag. Að sögn fulltrúa AFLs í samninganefnd sjómanna hefur enginn árangur náðst í stóru málunum þrátt fyrir talsverð fundarhöld sl. 14 daga. Formanður og varaformaður Sjómannadeildar AFLs héldu félagsfundi víða á félagssvæðinu í síðustu viku og heyrðu hljóðið í sjómönnum. Mikill einhugur var í félagsmönnum og þá sérstaklega varðandi olíuverðsviðmið en ein af kröfum SSÍ er að hlutur aflaverðmætis til skipta fari úr 70% í 73% Góð mæting var á fundina sem voru haldnir á Höfn, Reyðarfirði, Norðfirði og Seyðisfirði og mættu ca 50% félagsmanna deildarinnar á fundina.
Að sögn einstakra fundarmanna er mikill sóknarhugur í sjómönnum og þótti mönnum ótímabært að fara að ræða eftirgjöf af kröfugerð - verkfallið væri búið að standa í mánuð og það munaði ekkert um mánuð í viðbót.
Rétt í þessu var að ljúka samningafundi sjómanna og útgerðarmanna í húsnæði sáttasemjara. Enginn árangur varð á fundinum og hefur nýr fundur ekki verið boðaður. Að sögn formanns Sjómannadeildar AFLs, Grétars ÓIafssonar, er engann bilbug að finna á samningamönnum sjómanna.