Samstaða launafólks er sterkasta vopnið
Eins og fram hefur komið hefur slitnað upp úr viðræðum Starfsgreinasambandsins við Samtök Atvinnulífsins. Verkamannadeild AFLs er með umboð sitt fyrir almenna markaðinn að mestu leiti hjá Starfsgreinasambandinu. Þetta þýðir því að slitnað hefur upp úr viðræðum AFLs fyrir verkafólk á almenna markaðnum en kjarasamningarnir runnu út í febrúarlok.
Eins og kunnugt er var leitað til félagsmanna í janúar um mótun launakrafna fyrir yfirstandandi viðræður, niðurstaða þeirrar vinnu var í samræmi við niðurstöður annarra verkalýðsfélaga innan Starfsgreinasambandsins. Sambandið fór fram með það megin markmið að lægsti taxti yrði kominn upp í 300.000 krónur innan þriggja ára. Auk þess, lagfæringar á launatöflu og að útflutningsgreinar s.s fiskvinnsla og ferðaþjónusta, hækki laun sinna starfsmanna sérstaklega. Áður höfðu verið lagðar fram sérkröfur um breytingar á köflum í kjarasamningi. Lítils háttar viðræður hafa farið fram um sérmálin en lítið þokast áfram. Engin efnisleg umræða hefur farið fram um launakröfuna, heldur hefur henni verið alfarið hafnað. Alið hefur verið á hræðsluáróðri af hálfu vinnuveitenda um verðbólgu og að allt fari hér á hliðina ef samið verði á þeim nótum sem krafan byggir á. Okkur stendur til boða 3%, jafnvel 3,5% launahækkun. Það er fjarri þeim markmiðum sem við lögðum upp með.
300.000 þúsund krónur lámarkslaun er sanngjörn og réttlát krafa
Jafnvel þykir mörgum það lág laun, sér í lagi þar sem er verið að gera kröfu um að hún verði ekki komin að fullu til framkvæmda fyrr en eftir rúma 30 mánuði. En viðbrögðin við þessari sanngjörnu og réttlátu kröfu urðu til þess að samninganefndin samþykkti einróma að slíta viðræðum og leita til félagsmanna til að fylgja eftir sanngjörnum kröfum.
Hvað þýðir það að fylgja eftir kröfum.
Næstu skref eru í höndum félagmanna. Atkvæðagreiðsla mun fara fram um boðun verkfalla. Það eru áratugir síðan verkafólk í félaginu hefur farið í verkföll og heil kynslóð sem þekkir þau eingöngu af afspurn. Því er nauðsynlegt að fram fari umræður sem víðast, á vinnustöðum, heimilum og annar staðar þar sem verkafólk kemur saman um mikilvægi samstöðunnar. Atkvæðagreiðslan fer fram dagana 23.-30. mars og verður rafræn og er góð þátttaka í henni afar brýn. Mikilvægt er að þeir sem eru tilbúnir til að fylgja kröfunum eftir greiði atkvæði og samþykki verkfall. Verði verkfalli hafnað, þá er það 3,5% launahækkunin sem er í boði.
Samstaðan er sterkasta vopnið – nú er rétti tíminn til að beita því!
Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður AFLs Starfsgreinafélags.
Skýringar:
Viðræður eru í gangi fyrir verslunarmenn og iðnaðarmenn í félaginu. Eins fyrir starfsmenn Alcoa. Samningar við ríkið og sveitarfélögin renna út í lok apríl. Ekki er verið að fara í atkvæðagreiðslum hjá þessum hópum núna, né hjá sjómönnum þótt samningar þar hafi verið lausir í mörg ár.
Tög: Verkfall