Endurskoðun starfsmats er lokið
Félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögum taka laun eftir starfsmati þar sem störfin eru metin í stigum eftir ákveðnu kerfi og fjöldi stiga segir til um hversu mikið er greitt fyrir hvert starf, þ.e. hvar það lendir í launatöflunni. Í kjarasamningum 2014 var bókun sem ákvað að ráðast skyldi í endurmat á öllum störfum sem rúmast innan kjarasamninga SGS og Samband Íslenskra sveitarfélaga og er þeirri endurskoðun nú lokið. Niðurstaðan er sú að flest störf eru metin til hærri stiga en þau voru áður og skilar það sér í hækkun á launaflokkum. Auk þessara starfa er fjöldinn allur af staðbundnum störfum hjá einstaka sveitarfélögum sem hafa einnig verið endurmetin. Þær leiðréttingar sem gerðar hafa verið eiga að vera afturvirkar frá 1. maí 2014. Margir starfsmenn sveitarfélaga geta vænst þess að fá leiðréttingu á sínum launum heilt ár aftur í tímann, auk þess að raðast hærra í launaflokk í framtíðinni. Fyrir 1. ágúst, þó ekki síðar en 1. september skal vera búið að raða starfsmanni í réttan launaflokk út frá nýju starfsmati. Í ljósi þess að um töluverða vinnu er að ræða er sveitarfélögum gefið svigrúm til 1. október 2015 til að leiðrétta launin aftur í tímann.
Sveitarfélögin hafa fengið nýtt starfsmat í hendurnar og stéttarfélögin líka. Félagsmenn eru hvattir til að fylgjast með hvort að leiðréttingar skili sér, og einnig hvort starfsfólki sé raðað rétt í launatöfluna o.s.frv. Til að sjá breytingarnar má fletta upp störfum HÉR.