Þjóðgarðurinn dæmdur til að greiða yfir hálfa milljón í málskostnað
Vatnajökulsþjóðgarður var í dag dæmdur til að greiða landverði tæpar 130 þúsund krónur auk dráttarvaxta í vangoldin laun og rúma hálfa milljón í málskostnað. AFLs starfsgreinafélags hvetur aðra landverði til að skoða launaseðla sína. sjá dóminn í heild
Landvörður sem starfaði á Lónsöræfum í júlí og ágúst 2014 stefndi garðinum til að greiða fjarvistaruppbót til viðbótar við aðrar launagreiðslur samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðuneytisins við Starfsgreinasambandið.
Samkvæmt samningnum skal greiða uppbótina vegna dvalar í lengri tíma við starf fjarri föstum vinnustað eða vegna tímabundinna starfa á vinnustöðvum í óbyggðum. Hún reiknast frá þriðja degi samfelldrar fjarvistar.
Landvörðurinn hafðist við í Múlakoti í tvisvar sinnum þrjár vikur þetta sumar. Hann hafi þannig sinnt tímabundnu starfi á vinnustað fjarri byggðum og ekki verið unnt að sækja vinnustaðinn frá heimili sínu eða fastri aðstöðu vinnuveitanda síns í byggð.
Töldu ákvæðið ekki eiga við
Yfirmaður hafnaði beiðni landvarðarins um fjarvistaruppbót sem leitaði þá til AFLs starfsgreinafélags. Félagið óskaði skýringar fjarmálaráðuneytisins á ákvæðum kjarasamningsins.
Í svari starfsmanns ráðuneytisins er lýst þeirri skoðun að fjarvistarákvæðið eigi við þegar starfsmaður með starfsstöð í til dæmis Reykjavík sé sendur í verkefni fjarri starfsstöð sinni sem ekki sé hægt að vinna þar. Það eigi ekki við þegar um sé að ræða starfsmann með fasta starfsstöð, til dæmis við Kverkfjöll, enda sé hann þá ekki fjarri sinni starfsstöð.
Í greinargerð þjóðgarðsins er bent á að Lónsöræfi séu eitt af tólf starfssvæðum landvarða. Þau séu skilgreind sem slíkt í ráðningarsamningi og landvörðurinn haft þar húsnæði. Landvörðurinn hafi sinnt störfum í nágrenninu um sumarið og því sé ekki um að ræða dvöl eða störf fjarri hinum fasta vinnustað. Þá var vakin athygli á því að þjóðgarðurinn hefði aldrei greitt fjarvistaruppbót til starfsmanna sem sinni tímabundinni landvörslu fjarri byggðum eða heimili.
Lónsöræfi sannarlega í óbyggðum
Héraðsdómur Austurlands hafnaði öllum málsástæðum þjóðgarðsins. Í niðurstöðu hans er meðal annars bent á að auk aðalskrifstofunnar í Reykjavík sé þjóðgarðurinn með sex fastar starfsstöðvar.
Óumdeilt sé að starfsstöðin á Lónsöræfum sé tímabundin og uppfylli þar með skilyrði um að fjarvist sé greidd vegna tímabundinna starfa. Þá sé hafið yfir allan vafa að að Lónsöræfi og skáli landvarðarins séu í óbyggðum. Ákvörðun um um að landvörðurinn skyldi hafast þar, fjarri fastri starfsaðstöðu og heimili sínu, hafi verið þjóðgarðsins.
Var þjóðgarðurinn því dæmdur til að greiða landverðinum tæpar 130 þúsund krónur auk dráttarvaxta og 550 þúsund í málskostnað.
Forstöðumenn bera ábyrgð á ráðningarsamningum
Austurfrétt óskaði eftir viðbrögðum við dóminum frá Þórði H. Ólafssyni, framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs. Hann vísaði á ríkislögmann sem hefði farið með málið fyrir hönd þjóðgarðsins.
Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags, lýsir furðu sinni á þeirri afstöðu. „Forstöðumenn bera ábyrgð á starfsmannamálum og gera ráðningarsamninga. Mér finnst því ómerkilegt að kasta ábyrgðinni á lögmanninn sem flytur málið fyrir stofnunina. Hér hefur miklum peningum verið eytt í að verja lélegan málstað.“
Ekki er ólíklegt að dómurinn hafi frekari eftirmála því landverðir hafa verið víðar á vegum þjóðgarðsins í takmarkaðan tíma. „Þetta er eini starfsmaður þjóðgarðsins sem leitað hefur til okkar. Við vildum að fá niðurstöðu í þetta mál áður en við skoðuðum málin frekar en við hljótum að gera það. Við hvetjum aðra starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs til að fara yfir sína launaseðla.“