Ný og breytt námsskrá fyrir fiskvinnslufólk
Eftir langt og strangt vinnuferli staðfesti Menntamálastofnun nýverið nýja og breytta námsskrá vegna grunnnámskeiða fiskvinnslufólks, en námskráin var þróuð af Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Nýja námsskráin hefur í för með sér talsverðar breytingar. Meðal þeirra má nefna að bóklega kennslan verður samtals 48 klukkustundir (var áður 40 klst á grunnnámskeiðum og 8 klst. á viðbótarnámskeiðum) og kröfu um að viðkomandi hafi staðfestingu á því að hann hafi komið að ýmsum verkþáttum í fyrirtækinu og haldi verkdagbók sem verður staðfest af viðkomandi verkstjórnanda. Þá verður sú breyting á að mögulegt verður að meta einingar námskeiðsins (13 talsins) til allt að sjö eininga í framhaldsskóla, í stað fimm eininga á núverandi námskeiðum.
Framvegis falla grunnnámskeið fiskvinnslufólks alfarið undir vottaðar námsleiðir hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) sem síðan gerir samninga við viðurkennda fræðsluaðila/símenntunarmiðstöðvar um kennslu o.fl.
Námsskrána í heild sinni má nálgast hér.