Ekki stéttarfélaganna að mæta niðurskurði í heilbrigðismálum!
Starfsgreinasamband Íslands sendi frá sér eftirfarandi ályktun í dag.
Stéttarfélögum út um allt land hefur borist beiðni frá Landspítalanum um að nýta orlofsíbúðir félaganna þegar þörf er á að kyrrsetja þungaðar konur/foreldra utan af landi í Reykjavík vegna veikinda. Stéttarfélög hafa byggt upp orlofsíbúðir af miklum metnaði síðustu áratugi fyrir félagsfólk sitt til að auka lífsgæði þeirra og gera fólki kleift að ferðast um landið. Eftir því sem heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni hrakar og fólk þarf í auknum mæli að leita sér lækninga til höfuðborgarsvæðisins hafa þessar íbúðir verið nýttar fyrir veikt fólk og þungaðar konur. Stéttarfélögin standa við bakið á sínum félagsmönnum en það er algerlega ófært að treyst sé á að stéttarfélögin bæti fyrir versnandi heilbrigðisþjónustu fyrir fólk utan höfuðborgarsvæðisins. Það kemur til viðbótar því vinnutapi sem sífellt lengri vegalengdir og fjarvistir vegna læknisaðstoðar kalla á. Hið opinbera á að sinna skyldum við fólk alls staðar af landinu og ekki treysta á sjóði sem félagsmenn stéttarfélaga hafa byggt upp í áratugi. Það er skýr krafa aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins að hið opinbera tryggi jafnræði á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og sinni skyldum sínum gagnvart veiku fólki og þunguðum konum sem ekki geta lengur sótt þjónustu í heimabyggð.